• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Jun

Hæstaréttadómurinn frá því í gær hefur mikið fordæmisgildi fyrir allan vinnumarkaðinn!

Það er óhætt að segja að hæstaréttardómurinn sem féll í gær í máli Verkalýðsfélags Akraness gegn Hval hf. hafi skýrt réttaróvissu launafólks á hinum almenna vinnumarkaði er lýtur að svokölluðum vikulegum frídegi.

Ein af kröfum félagsins var að þegar starfsmaður hefur unnið samfellt í sjö daga, eigi hann rétt til greiðslu á 8 tímum í dagvinnu vegna skerðingar á vikulegum frídegi. En í grein 2.4.3 í kjarasamningi SGS og SA segir að á hverju sjö daga tímabili skal starfsmaður hafa a.m.k einn vikulegan frídag.

Hvalur hf. vildi meina að hvergi í kjarasamningum væri kveðið á um að greiða ætti dagvinnu aukalega fyrir þó vikulegur frídagur væri ekki tekin. Hæstiréttur tók undir þessi sjónarmið Hvals hf. en sagði hins vegar að það væri á ábyrgð fyrirtækisins að starfsmaðurinn fengi umræddan vikulega frídag og því bæri Hval hf. að greiða starfsmanninum 8 tíma í dagvinnu fyrir þá daga þar sem vinna var meira en sjö dagar samfellt.

Með þessu hefur hæstiréttur kveðið upp með afgerandi hætti að ef launafólk vinnur meira en sjö daga samfellt þá beri atvinnurekendum að greiða 8 tíma í dagvinnu fyrir hverja sjö daga sem unnir eru samfellt.  En orðrétt segir í dómi Hæstaréttar:  Enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umdræddir frídagar séu launaðair er ljóst að aðaláfrýjandi bar ábyrgð á því að gagnáfrýjandi fegni þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningum greinir. Þar sem hann fór ekki að kjarasamningi að þessu leyti verður honum gert að greiða gagnáfrýjanda dagvinnulaun vegna þessara daga" 

Þetta er tímamótadómur hvað þetta varðar, enda hæstiréttur búinn að kveða endanlega upp að greiðsluskylda atvinnurekanda er til staðar ef starfsmaður vinnur meira en sjö daga samfellt og fær ekki umræddan vikulega frídag.

Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að hafa átt þátt í því að eyða þessari réttaróvissu sem hefur verið vegna þessa vikulega frídags sem getið er um í nánast öllum kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði.

14
Jun

Hæstiréttur dæmdi Hval hf. til að greiða starfsmanni 512 þúsund kr.

Rétt í þessu staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Vesturlands þar sem starfsmanni sem starfaði hjá Hval hf. á vertíðinni 2013. En Hvalur hf. var dæmdur í Héraðsdómi til að greiða starfsmanninum vegna brota á kjörum sem fram komu í ráðningarsamningi upphæð sem nam rétt rúmum 455 þúsund krónum.

Það var ekki bara að Hæstiréttur hafi staðfest dóm Héraðsdóms heldur tók hann einnig tillit til annarrar kröfu sem laut að svokölluðum vikulegum frídeigi og námu því vangöldin laun starfsmannsins 512.947 kr. en einnig var Hval hf. gert að greiða starfsmanninum dráttarvexti frá 19. janúar 2016.

Allan málareksturinn sá Verkalýðsfélag Akraness um, málið flutti lögmaður félagsins, en félagið hafði gert kröfu á Hval hf. í fjórum liðum en aðalkröfuliðurinn var staðfestur af Hæstarétti auk þess sem vikulegi frídagurinn vannst einnig eins og áður sagði.

Þetta er í raun langstærsta mál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur farið með fyrir dómstóla en það endurspeglast af því að fordæmisgildi dómsins getur verið gríðarlegt og jafnvel náð til allt að 200 starfsmanna sem hafa starfað á hvalvertíðum á árunum 2009, 2010, 2013 og 2015. Má því áætla ef fordæmisgildið haldi alla leið fyrir þá sem hafa starfað á þessum vertíðum að heildarupphæð sem Hvalur hf. þyrfti að greiða starfsmönum næmi á þriðja hundrað milljónir.

Einnig var Hvalur hf. dæmdur til að greiða 800 þúsund í málskostnað til viðbótar 500 þúsundum sem Héraðsdómur Vesturlands var búinn að dæma Hval til að greiða í málskostnað.

Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að berjast ætíð fyrir réttindum sinna félagsmanna og gefast ekki upp þegar minnsti vafi leikur á því að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna.  Hægt er að lesa dóm Hæstaréttar í heild.

13
Jun

50 manns munu starfa hjá Ísfiski

Eins og flestir muna þá urðum við Akurnesingar fyrir miklu höggi í okkar atvinnumálum í fyrra þegar HB Grandi ákvað að hætta starfsemi í landvinnslu á bolfiski en um 100 manns misstu lífsviðurværi sitt í kjölfarið. Rétt er þó að geta þess að hluti af starfsmönnum HB Granda var síðan boðin vinna í öðrum starfstöðum fyrirtækisins bæði hér á Akranesi sem og í Reykjavík. Þrátt fyrir það var hér um gríðarlegt högg að ræða fyrir samfélagið enda hafði landvinnsla á bolfiski verið burðarstólpi hér á Akranesi í hartnær 100 ár.

Það jákvæða sem gerðist í kjölfarið á því að HB Grandi ákvað að hætta starfsemi í frystihúsi félagsins hér á Akranesi var að fyrirtæki að nafni Ísfiskur keypti húsnæði HB Granda og hóf starfsemi fyrir nokkrum mánuðum og réði 25 fiskvinnslukonur og menn til starfa en Ísfiskur var einnig með starfsemi í Kópavogi þar sem þeir höfðu verið með starfsemi í tæp 40 ár.

Núna hefur Ísfiskur ákveðið að loka í Kópavogi og flytja alla starfsemina á Akranes og vegna þess þarf fyrirtækið að ráðast í breytingar og því mun fyrirtækið loka frá og með 25. júlí til 1. september. Í september mun starfsemin hefjast að nýju og þá verða 50 starfsmenn að lágmarki hjá fyrirtækinu í vinnu.  Þegar starfsemin verður komin í full afköst þá reikna forsvarsmenn Ísfisks að allt að 70 manns muni starfa hjá fyrirtækinu.

Ísfiskur reiðir sig eingöngu á hráefniskaup á fiskmörkuðum en því miður hefur það stundum gengið erfiðlega að afla aðgengi að hráefni sem getur stundum verið takmarkað og verðin of há, en Ísfiskur hefur aðallega unnið ýsu sem seld hefur verið til Bandaríkjanna. Til að styrkja rekstur fyrirtækisins þá hefur fyrirtækið verið að vinna í því að koma á laggirnar vinnslu á laxi og hefur fyrirtækið verið að fjárfesta í laxalínu sem sett verður upp í áðurnefndu stoppi.

Ísfiskur áætlar að vinna um 6000 tonn af ýsu og 1000 tonn af laxi á ári sem myndi þýða að nokkuð góður atvinnugrundvöllur verður fyrir fyrirtækið til að skapa atvinnu fiskvinnslufólki hér á Akrnesi til heilla.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt í góðu sambandi við Albert framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem hefur lagt sig í líma við að halda stéttarfélaginu vel upplýstu um framtíðaráform sín og óskar VLFA fyrirtækinu farsældar á komandi árum og hlakkar til að eiga áfram í góðu samtarfi við fyrirtækið.

07
Jun

Furulundur 8, Akureyri

Nú hafa íbúðirnar okkar á Akureyri loksins fengið smá yfirhalningu. Starfsmenn VLFA fóru norður og endurnýjuðu húsgögn, borðbúnað og fleira. 

Í íbúðunum þremur eru tvö svefnherbergi, stofa, eldhús og baðherbergi með sturtu og þvottavél.  Rúmin eru 160 cm í stærri herbergjunum og 120 cm í minni herbergjunum. Sængur og koddar eru fyrir fimm í hverri íbúð.

Í öllum íbúðunum eru góðar og stórar svalir.

Eins og áður er það Securitas sem sér um að þjónusta íbúðirnar fyrir okkur, þau sjá um afhendingu lykla, fylla á gasið, afhenda hreinar tuskur og fleira.

06
Jun

Mál gegn Hval hf. flutt fyrir Hæstarétti í morgun

Í morgun var flutt mál Verkalýðsfélags Akraness gegn Hval hf. en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Hval hf. fyrir Héraðsdóm Vesturlands árið 2016 en dómur féll í Héraðsdómi 28. Júní 2017.

Verkalýðsfélag Akraness vann aðalkröfuna en krafan sem vannst og var aðalkrafa félagsins laut að sérstakri greiðslu sem getið er um í ráðningarsamningi starfsmanna, en dómurinn féllst á kröfu félagsins og dæmdi Hval hf. til að greiða umræddum starfsmanni sem er félagsmaður VLFA 455.056 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. janúar 2016. Hvalur hf. var einnig dæmdur til að greiða 500.000 krónur í málskostnað.

Þessum dómi Héraðsdóms Vesturlands ákváðu forsvarsmenn Hvals að áfrýja til Hæstaréttar og eins og áður sagði var málið flutt í Hæstarétti í morgun.

Krafan fyrir hönd félagsmannsins hljóðaði í heildina uppá rétt rúma eina milljón og byggðist uppá vertíðinni 2015 en hún byggðist á fjórum þáttum sem eru eftirfarandi:

  • Sérstök greiðsla að upphæð 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt sem getið var um í ráðningarsamningi vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.
  • Vangreiðsla vegna lágmarkshvíldar
  • Vangreiðsla vegna bónus sem samið var um fyrir fiskvinnslufólk árið 2015
  • Vangreiðsla vegna svokallaðs vikulegs frídags.

Eins og áður sagði þá hljóðaði heildarkrafa Verkalýðsfélags Akraness uppá rétt rúma eina milljón króna en dómur Héraðsdóms féllst á kröfuna um sérstöku greiðsluna sem var uppundir 50% af heildarkröfunni og var félagsmanninum dæmdar 455.056 kr. Enda komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að skilja ráðningarsamninga starfsmannsins öðruvísi en svo að þessi sérstaka greiðsla væri til viðbótar vaktakaupinu sem getið var um í ráðningarsamningum.

Félagið áfrýjaði hinum þremur atriðunum sem ekki náðust í gegn fyrir Héraðsdómi og verður afar fróðlegt að sjá hvernig Hæstiréttur dæmir í bónusgreiðslunni sem samið var um í kjarasamningunum 2015 fyrir fiskvinnslufólk en þá var samið um að allir sem væri að starfa við fiskvinnslu ættu rétt á 220 kr. lágmarksbónus fyrir hverja unna klukkustund. Hvalur vildi meina það að starfsmenn Hvals væru ekki fiskvinnslumenn og ynnu ekki eftir fiskvinnslukaflanum þar sem lágmarksbónusgreiðslan er getið.

Þeir vilja meina að starfsmenn heyri undir iðnverkakafla kjarasamningsins þrátt fyrir að á öllum launaseðlum starfsmanna sé getið um að þér séu annað hvort ósérhæfðir eða sérhæfðir fiskvinnslumenn. Hvalur heldur því fram að þessi starfsheiti hafi birst vegna tölvuvandamála en lögmaður VLFA sýndi fram á að þau rök stóðust ekki að mati formanns.

Það er óhætt að segja að það verður gríðarlega spennandi að sjá hvort Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands enda miklir hagsmunir í húfi fyrir alla þá fjölmörgu starfsmenn sem hafa starfað á hvalvertíðum frá árinu 2009. Því það má klárlega leiða að líkum að því að dómur Hæstaréttar muni hafa fordæmisgildi gagnvart öllum starfsmönnum sem hafa starfað á vertíðunum frá 2009 til 2015.

Það liggur ekki fyrir hvenær dómur fellur í Hæstarétti en það má jafnvel búast við að dómur falli eftir viku eða hálfan mánuð.

Formanni fannst málflutningur okkar fyrir Hæstarétti í þessu máli ganga bara nokkuð vel og lögmaður okkar hafi reynt að koma öllum þeim atriðum sem skipta máli vel á framfæri við Hæstarétti.

01
Jun

Formenn Starfsgreinasambands Íslands funduðu á Bifröst

Nú er nýlokið Formannafundi Starfsgreinasambands Íslands sem stóð yfir í gær og í dag á Bifröst í Borgarfirði. Fundurinn var nokkuð góður en þar fór formaður Verkalýðsfélags Akraness yfir atriði sem félagið vill leggja áherslu á í komandi kjarasamningum. En fram kom í hans máli að aðkoma stjórnvalda þarf klárlega að verða umtalsverð í komandi kjarasamningum enda vill VLFA kalla eftir umtalsverðum kerfisbreytingum þar sem horft verði til hagsmuni almennings en ekki fjármálakerfisins.

Formaður fór yfir að félagið vill kalla eftir vaxtalækkun, afnámi verðtryggingar og að húsnæðisliðurinn fari úr lögum um vexti og verðtryggingu. Formaður greindi frá því að frá árinu 2013 til loka árs 2017 hefur bara húsnæðisliðurinn valdið því að verðtryggðarskuldir heimilanna hafa hækkað um 118 milljarða. Það kom einnig fram í máli formanns að raunvextir á Íslandi eru um 3,5% hærri miðað við nágrannalöndin sem við viljum bera okkur saman við. Það þýðir að ár hvert er íslenskur almenningur að greiða um 70 milljörðum meira í vexti en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.

Það kom líka fram hjá formanni að hann vill að Verkamannabústaðakerfið verði endurreist og hefur formaður VR verið að vinna að hugmyndum þar að lútandi og hefur verið kynnt ýmsum aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar. Þessar hugmyndir hjá VR eru virkilega spennandi en eins og margoft hefur komið fram opinberlega hefur Verkalýðsfélag Akraness og VR unnið náið saman að hugmyndum að áherslum í komandi kjarasamningum.

Það kom líka skýrt fram hjá formanni að VLFA vill að samið verði um í krónutölum en ekki prósetum því prósentur eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og geir ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Eitt af þeim málum sem var á dagkrá fundarins var kynning hjá Stefáni Ólafssyni prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands þar sem hann ræddi um þróun ójöfnuðar á Íslandi síðustu áratugi útfrá viðamiklum rannsóknum sínum.

En í lokin á þeirri kynningu fór hann yfir þau hræðsluáróðursmyndbönd sem forysta ASÍ hefur verið að deila á samfélagsmiðlum . Það eru ekki ýkjur að segja að eftir yfirferð Stefáns var boðskapur forseta ASÍ og margumræddra myndbanda gjörsamlega jarðaður og má segja að Stefán Ólafsson hafi gjörsamlega rassskellt forseta og forystu ASÍ enda kom fram í máli hans að í grundvallaratriðum væru sá boðskapur sem fram kemur í myndböndum frá ASÍ kolrangur og stæðist ekki skoðun.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur undir þau orð sem Stefán Ólafsson sagði að það væri eins og myndböndin frá ASÍ væru unnin og kæmu frá forystu Samtaka atvinnulífsins en ekki forystu verkafólks!

Þessi niðurstaða frá prófessornum er algerlega í anda þeirrar gagnrýni sem fram koma frá Verkalýðsfélagi Akraness, Eflingar, Framsýnar og VR hvað þessi hræðsluóróðursmyndbönd varðar.

Það er ekkert skrýtið að VR, Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness hafi lagt fram vantraust á forseta ASÍ enda ljóst að hann vinnur gegn hagsmunum félagsmanna sinna eins og þessi afhjúpun á erindi frá Stefáni Ólafssyni prófessor sannar!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image