• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Oct

Hvalur gekk að öllum kröfum VLFA vegna félagsaðildar

Eins og fram kom í fréttum fyrr í sumar ákvað Kristján Loftsson forstjóri Hvals að banna starfsmönnum sínum að vera í Verkalýðsfélagi Akraness þegar hvalavertíðin hófst í júní á þessu ári.

Það var morgunljóst að hér var um grófa hefndaraðgerð að ræða hjá Kristjáni Loftssyni vegna þess að VLFA hafði unnið mál gegn Hval fyrir Hæstarétti vegna kjarasamningsbrota en í dómi Hæstaréttar voru félagsmanni dæmdar 700 þúsund krónur vegna vangoldinna launa.

En þessi dómur getur og mun að öllum líkindum hafa fordæmisgildi fyrir alla starfsmenn sem unnið hafa hjá Hval á liðnum vertíðum og getur fordæmisgildi dómsins numið allt að 300 milljónum.

Á þessum forsendum ætlaði Hvalur klárlega að refsa VLFA fyrir að sinna sínu lögbundna hlutverki við að gæta að réttindum sinna félagsmanna. Hvalur vildi meina að starfsmenn yrðu að vera í Stéttarfélagi Vesturlands en ekki í Verkalýðsfélagi Akraness því að þetta væri ekki félagssvæði VLFA og félagið væri ekki með kjarasamning fyrir þessi störf.

Báðar þessar röksemdarfærslur Hvals voru bull enda er Hvalfjarðasveit hluti af félagssvæði VLFA og einnig gildir kjarasamningur SGS við SA um þessi störf.

Verkalýðsfélag Akraness stefndi Hval fyrir félagsdómi vegna þess að yfir 80% starfsmanna vildu vera í VLFA en það var ekki fyrr en félagið hafði stefnt Hval fyrir félagsdómi sem að Kristján Loftsson lét af þessu grófa inngripi og heimilaði starfsmönnum að velja á milli Verkalýðsfélags Akraness og Stéttarfélags Vesturlands.

Kristján Loftsson þorði ekki að fá enn einn dóminn á sig og því gekk hann að öllum kröfum félagsins, það er að segja starfsmenn máttu velja stéttarfélag og skilaði Hvalur iðgjöldum í framhaldinu og einnig að kjarasamningur SGS gilti um umrædd störf. Með öðrum orðum, fullnaðarsigur Verkalýðsfélags Akraness í þessu máli enda lætur félagið ekki fyrirtæki vaða yfir sig á skítugum skónum eins og forstjóri Hvals ætlaði sér að gera í þessu máli.

Hægt er að lesa fréttir sem birtust um málið í sumar hér, hér og hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image