• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jan

Starfsmenn í kerskála Norðuráls hafa hækkað um allt að 222 þúsnd á mánuði á fjórum árum

Það er óhætt að segja að kjarasamningurinn sem Verkalýðsfélag Akraness tók þátt í að gera árið 2015 fyrir starfsmenn Norðuráls hafi svo sannarlega skilað starfsmönnum gríðarlega jákvæðum ávinningi.

En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var í síðasta kjarasamningi samið um að tengja launahækkanir starfsmanna við mánaðarlegu launavísitöluna sem Hagstofan birtir mánaðarlega.

Formanni reiknast til að laun starfsmanna sem eru í vaktavinnu í kerskála (þar starfa flestir starfsmenn frá 1. Janúar 2015 til 1. Janúar 2019) hafi hækkað með öllu yfir 200 þúsund í heildarlaunum, en um síðustu áramót hækkuðu starfsmenn í launum um 5,69% eða í kringum 40 þúsund með öllu.

Rétt er að rifja upp launahækkanir starfsmanna Norðuráls frá 1. janúar 2015 til 1. janúar 2019

  • 1. Janúar 2015 hækkuðu laun um 6% auk 300.000 króna eingreiðslu til starfsmanna.
  • 1. Júní 2015 hækkuðu laun um     4,31%
  • 1. Janúar 2016 hækkuðu laun um 4,7%
  • 1. Janúar 2017 hækkuðu laun um 8,66%
  • 1. Janúar 2018 hækkuðu laun um 6,5%
  • 1. Janúar 2019 hækkuðu laun um 5,69%

Þetta þýðir að heildarlaun starfsmanns eftir 10 ára starf á vöktum í kerskála hafa hækkað með öllu úr 518.504 krónum á mánuði í 741.380 krónur eða sem nemur 222.876 krónum á mánuði, eða 42,98% á 4 árum.

Rétt er að geta þess að Verkalýðsfélagi Akraness hefur tekist að ná þessari launavísitölutengingu við önnur fyrirtæki þar sem félagsmenn VLFA starfa á Grundartanga.

24
Jan

Fimmti fundurinn fór fram hjá ríkissáttasemjara í gær

Í gær var haldinn fimmti fundurinn hjá ríkissáttasemjara. Það kom ekki mikið útúr honum annað en að félögin sem vinna saman í þessari kjaradeilu, VLFA, VR, Efling og Verkalýðsfélag Grindavíkur, hafa alfarið hafnað öllum hugmyndum Samtaka atvinnulífsins um að semja kaffitíma starfsmanna á undirverði, lengja dagvinnutímabilið sem og að breyta uppgjörtímabili yfirvinnugreiðsla.

Félögin ítrekuðu kröfur sína og fóru einnig yfir að megin markmið félaganna sé að auka ráðstöfunartekjur sinna félagsmanna og sérstaklega þeirra sem eru á lökustu kjörunum. En það er hægt að gera m.a. með aðkomu stjórnvalda í formi þess að létta á skattbyrgði lágtekjufólks, hækka barnabætur, taka á okurvöxtum fjármálakerfisins og afnema verðtryggingu svo eitthvað sé nefnt.

Félögin gerðu grein fyrir því að nú verði að spýta í lófanna og að reyna til fullnustu hvort möguleiki sé á að koma á kjarasamningi eða ekki. Að því sögðu lögðu félögin áherslu á að mikilvægt væri að hefja að fullu samtal við stjórnvöld varðandi kröfur á hendur stjórnvöldum því eins og allir vita þá verður aðkoma þeirra að verða umtalsverð ef hægt eigi að vera að ná fram kjarasamningum.

Ákveðið var að setja á þrjá fundi í næstu viku sem og að reyna að hefja viðræður við stjórnvöld samhliða þessum fundarhöldum en félögin hafa sett sér tímaramma til að ná samningum. Ef ekki tekst að ná samningum er ljóst að það stefnir í gríðarlega hörð verkafallsátök á íslenskum vinnumarkaði. Á þeirri forsendu er mikilvægt að hefja þetta samtal af fullum krafti og umrædd stéttarfélög gera sér grein fyrir sinni ábyrgð til lausnar deilunni og vona svo sannarlega að SA og stjórnvöld geri sér grein fyrir sinni ábyrgð!

15
Jan

Þriðji fundurinn hjá ríkissáttasemjara á morgun

Á morgun verður þriðji fundur Verkalýðsfélags Akraness, VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Grindavíkur hjá ríkisáttasemjara en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá vísuðu þessi félög deilu sinni við Samtök atvinnulífsins sáttasemjara fyrir áramót.

Rétt er að geta þess að áður en vísun til sáttasemjara átti sér stað var búið að funda á milli aðila sjö sinnum án þess að SA væri tilbúið að svara þeirri grundvallar spurningu sem lýtur að launalið samningsins.

Á fundinum á morgun munu Samtök atvinnulífsins væntanlega svara hvað launaliðin varðar en að sjálfsögu snýst allt um að fá vitneskju um hvað þeir eru tilbúnir að hlusta og koma til mótsvið okkar kröfugerð. En þeir hafa ætíð víkið sér undan því að svara þeirri mikilvægu spurningu hvað launabreytingar varðar.

Það er ekki bara að erfiðlega gangi að fá Samtök atvinnulífsins svara okkur hvað kröfugerðina varðar heldur gengur illa að fá upplýsingar frá stjórnvölum hvað þau er til í að hjálpa til við að liðka fyrir kjarasamningum. En eins og margoft hefur komið fram þá liggur fyrir að meginkarfa okkar er að hægt sé að framfleyta sér á lagmarkslaunum frá mánuði til mánaðar og halda mannlegri reisn.

Með öðrum orðum það er hægt að auka ráðstöfunartekjur verkafólks með fleiri aðferðum en að hækka einungis laun. Það er hægt að gera með því að létta skattbyrgði á lagtekjufólki, hækka barnabætur, lækka vexti, taka húsnæðisliðin úr lögum um vexti og verðtryggingu, lögfesta leiguvernd með því að ekki sé heimilt að hækka leiguverð um meira en hækkun neysluvísitölunnar og auka leiguframboð á hagstæðri leigu fyrir millitekjufólk svo eitthvað sé nefnt.

Það er morgunljóst að þessi kjaradeila er snúin og flókin og ef ekkert fer að gerast af hálfu Samtaka atvinnulífsins og stjórnvald er ljóst að stefnt getur í ein hörðustu verkafallsátök á íslenskum vinnumarkaði í marga áratugi.

08
Jan

Aðalmeðferð Verkalýðsfélags Akraness gegn Hval hf. verður 6. mars

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál fyrir félagsmann sinn, bæði fyrir Héraðsdómi Vesturlands og Hæstarétti gegn Hval hf.  Málið varðaði brot á atriðum sem fram komu í ráðningarsamningi sem og kröfu sem laut að svokölluðum vikulegum frídegi.  Vangöldin laun starfsmannsins námu því tæpum 500 þúsundum. Einnig var Hval hf. gert að greiða starfsmanninum dráttarvexti frá 19. janúar 2016 og nam heildargreiðslan því tæpum 700.000 þúsundum fyrir þessa einu vertíð.

En strax eftir að dómurinn lá fyrir stefndi Verkalýðsfélags Akraness Hval hf. vegna 97 félagsmanna sinna sem höfðu starfað á vertíðunum árin 2013, 2014 og 2015 . Rétt er að geta þess að málið sem var staðfest með dómi frá Hæstarétti var prófmál og náði krafan einungis fyrir eina hvalvertíð eða nánar tiltekið vertíðina 2015. Það liggur fyrir að sérstöku greiðslunnar og svokallaður vikulegur frídagur er getið í öllum ráðningarsamningum starfsmanna fyrir vertíðirnar 2013,2014 og 2015 og því er fordæmisgildi þessa dóms ótvírætt.

Eftir dóm Hæstaréttar vonaði Verkalýðsfélag Akraness að Kristján Loftsson myndi greiða öllum starfsmönnum þau vangreiddu laun sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta að Hvalur hf. ætti að greiða. En eins og áður sagði eru allir ráðningarsamningar starfsmanna eins og því alls ekki ágreiningur um að Hvalur hf. braut á öllum starfsmönnum sínum.

Það kom því verulega á óvart að Hvalur hf. neitaði að greiða öðrum starfsmönnum eftir dóm Hæstaréttar og því þarf að fara með málefni annarra starfsmanna fyrir dómstóla. En það er ekki ágreiningur um hvort Hvalur hf.hafi brotið á starfsmönnum heldur ætlar Hvalur hf. að beita fyrir sér tómlæti starfsmanna sem verður að segjast alveg eins og er að sé lágkúruleg málsvörn enda ekki hægt að saka starfsmenn um tómlæti þegar þeir vissu ekki að verið væri að brjóta á þeim fyrr en þeir leituðu til Verkalýðsfélags Akraness árið 2015.

Núna liggur fyrir að aðalmeðferð í þessu máli allra starfsmanna verður 6. mars 2019. En eins og áður sagði þá er eina málsvörn Hvals hf. að beita fyrir sér tómlæti því ekki getur Hvalur hf. beitt öðrum málsvörnum fyrir sig þar sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta brot fyrirtækisins á ráðningarsamningi og kjarasamningi.

Formaður VLFA trúir ekki öðru en að Héraðsdómur Vesturlands staðfesti dóm Hæstaréttar fyrir alla starfsmenn og hafni alfarið öllum málatilbúnaði er lýtur að tómlæti starfsmanna.

Það er ljóst að þessi dómur Hæstaréttar hefur klárlega fordæmisgildi gagnvart öllum þeim starfsmönnum sem unnu hjá Hvali hf. á vertíðunum árin 2013, 2014 og 2015 en dómurinn getur náð til allt að 130 starfsmanna eða svo. Það er erfitt að segja nákvæmlega hversu mikið fordæmisgildi þessi dómur hefur í krónum talið, en það má alveg áætla að þessi dómur mun kosta Hval hf. á bilinu 200 til 300 milljónir.  Sjá dóm Hæstaréttar hér

02
Jan

Fyrsti fundur hjá ríkissáttasemjara

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá hafa VR, Efling-stéttarfélag og Verkalýðsfélag Akraness vísað kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara. En þessi þrjú stéttarfélög hafa ekki bara myndað sameiginlega samninganefnd heldur einnig bandalag í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir við Samtök atvinnulífsins.

Fyrsti fundurinn hjá ríkissáttasemjara var haldinn á síðasta föstudag en á þeim fundi kallaði ríkissáttasemjari eftir hinum ýmsu gögnum er lúta að kröfugerð félaganna og var sáttasemjari að átta sig á stöðunni sem upp er komin.

Formenn stéttarfélaganna þriggja leggja mikla áherslu á að tryggt verði að kjarasamningarnir verði afturvirkir frá 1. janúar 2019 , en þá renna fyrri samningar út. Formenn áðurnefndra félaga telja þetta mjög mikilvægt og það myndi gefa samningsaðilum meira andrými við að ná saman samningi ef þetta atriði liggur fyrir. En ríkissáttasemjari óskaði eftir að Samtök atvinnulífsins svari þessari ósk félaganna á næsta fundi sem verður 9. Janúar næstkomandi.

Formaður VLFA lagði fram gögn sem sýndu að í síðustu samningum varð launafólk af 39 milljörðum vegna þess að kjarasamningsgerðin dróst í 4 mánuði og því skiptir miklu máli að kjarasamningurinn gildi frá 1. Janúar 2019, en við hvern mánuð sem dregst að ganga frá samningi verður launafólk á hinum almenna vinnumarkaði af allt að 4 milljörðum.

27
Dec

Verkalýðsfélag Akraness, VR og Efling vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara

Verkalýðsfélag Akraness, VR og Efling hafa vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins en bæði VLFA og Efling ákváðu að afturkalla samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandi Íslands og fyrir því voru aðallega tvær ástæður.  Sú fyrri var að meirihluti formanna SGS vildu ekki að VR og SGS mynduðu sameignlega samninganefnd en það var mat þessara félaga að slíkt myndi klárlega styrkja samningstöðu okkar umtalsvert enda hefði SGS og VR verið með um 75% félagsmanna innan ASÍ á bakvið sig.  Síðara atriðið laut að því að meirihlut SGS vildi ekki vísa deilunni til ríkissáttasemja þátt fyrir að Samtök atvinnulífsins hafi ekki lagt neitt á borðið hvað lýtur að spurningunni um svigrúm til launabreytinga og því til viðbótar hefur skilningsleysi stjórnvalda að þessari kjaradeilu verið algert og hafa þau engu svarað um þær kröfur sem verkalýðshreyfingin gerir á stjórnvöld.

Megin krafa þessara stéttarfélaga er að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðuneytið hefur gefið út en í dag vantar um 114.000 krónur til að svo sé sem er algerlega óásættanlegt.

 

Yfirlýsing vegna vísunar kjaraviðræðna til ríkissáttasemjara:

Lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði eru 300 þúsund krónur á mánuði samkvæmt kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins. Húsnæðiskreppa og tilfærsla skattbyrði frá þeim ríku yfir á þá efnaminni gerir það að verkum að ekki er hægt að lifa af þessum launum. Efnahagsuppsveifla síðustu ára hefur ekki skilað láglaunafólki ábata og er löngu tímabært að snúa við þeirri öfugþróun.

Stéttarfélög verslunarfólks og almenns launafólks standa sameinuð í þeirri kröfu að dagvinnulaun dugi fyrir mannsæmandi lífi. Krafa okkar er um krónutöluhækkanir sem leiði til sanngjarnari skiptingar kökunnar, ekki um prósentuhækkanir og launaskrið.

Samtök atvinnulífsins hafa svarað kröfum okkar með gagnkröfu um uppstokkun á vinnutíma og breytingum á grundvallarréttindum launafólks – réttindum sem náðust með áralangri baráttu vinnandi fólks. Tólf tíma vinnudagur var raunveruleiki hér á landi á árum áður. Slíkt verður aldrei liðið aftur á íslenskum vinnumarkaði. Skilgreiningar á vinnutíma eru ávinningur af kjarabaráttu síðustu alda sem aldrei verður fórnað fyrir nafnlaunahækkanir sem geta brunnið upp í verðbólgu.

Við höfum gert kröfu um róttækar breytingar á núverandi kerfi, sanngjarnar launaleiðréttingar og boðlegt líf en fáum lítil sem engin svör. Þeir sem vilja tryggja sanngirni og réttlæti á vinnumarkaði eru sakaðir um ábyrgðarleysi og jafnvel öfgar. Eini kosturinn sem boðinn er vinnandi fólki er kyrrstöðusamningar. Enn og aftur er til þess ætlast að láglaunafólk á Íslandi sitji eftir á meðan þeir launahæstu skammta sjálfum sér tugprósenta launahækkanir án þess að blikna.

Verkalýðshreyfingin stendur sterk og mun berjast til að ná fram kröfum fólksins um mannsæmandi líf.

Við undirrituð teljum að sögulegt tækifæri sé fólgið í breiðri samstöðu stéttarfélaga almenns verkafólks og verslunarfólks um krónutöluhækkanir og hækkun lægstu launa.

Við undirrituð teljum að viðræður síðustu vikna við Samtök atvinnulífsins hafi verið árangurslausar. Við teljum afstöðu stjórnvalda skýra vísbendingu um að þau hyggist ekkert gera til að liðka fyrir viðræðum.

Við höfum því tekið þá ákvörðun að vísa viðræðum þeirra stéttarfélaga sem við veitum forystu við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

 

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar – stéttarfélags

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image