• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
May

Iðnaðarmenn - Kynningarfundur !

Þann 3. maí s.l. undirritaði Samiðn fyrir hönd aðildarfélaga sinna kjarasamning við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd aðildarfyrirtækja og meistarafélaga innan SI.

Kynningarfundur verður fyrir iðnaðarmenn Þriðjudaginn 14. maí kl. 18:00 í sal Samfylkingarinnar Stillholti 18.  

Megin áherslur iðnaðarmanna í þessum samningum voru að tryggja þann árangur sem við höfum verið að ná á síðustu árum ásamt því að tryggja forsendur fyrir áframhaldandi kaupmætti á samningstímanum, uppfæra kauptaxtakerfið og stytta vinnuvikuna.

Margt fleira er í samningnum en þar má m.a nefna breytingu á flutningi orlofsréttar.

Samningurinn verður kynntur betur á þessum fundi og gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu verði lokið fyrir 22. maí n.k. 

Hvetjum alla þá sem starfa eftir þessum samningum að kíkja á fundinn og ræða málin.

 

Hér er hægt að nálgast samningana.

10
May

162 starfsmenn Norðuráls útskrifast úr stóriðjuskólanum.

Í kjarasamningi VLFA við Norðurál árið 2011 var samið við forsvarsmenn fyrirtækisins um stóriðjuskóla fyrir starfsmenn þess en það hafði verið baráttumál Verkalýðsfélags Akraness um alllanga hríð. Grunnnám stóriðjuskólans er þrjár annir og gefur þeim starfsmönnum sem því ljúka launahækkun upp á 5%. Framhaldsnám skólans mun svo gefa 5% til viðbótar, samtals 10% launahækkun. Í stóriðjuskólanum öðlast starfsmenn aukna færni og þekkingu á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli. Þannig er það bæði hagur starfsmanna og fyrirtækisins að hafa þetta nám innan Norðuráls.

Í gær útskrifaðist sjöundi hópurinn úr stóriðjuskólanum eftir að hann hóf starfsemi en í þetta sinn voru það 33 nemendur sem útskrifuðust, 14 úr grunnnámi og 18 úr framhaldsnáminu. Nú hafa rúmlega 162 starfsmenn Norðuráls útskrifast úr stóriðjuskólanum. Af því tilefni var glæsileg útskriftarathöfn haldin í Norðuráli og mega starfsmenn vera stoltir af allri umgjörð í kringum útskriftina enda skein mikil ánægja úr andlitum útskriftarnema.

Eins og áður sagði gefur stóriðjunámið 5% launahækkun eftir grunnnámið og önnur 5% eftir framhaldsnámið sem þýðir að laun starfsmanns geta hækkað um allt að rúmar 65 þúsund krónur á mánuði þegar bæði grunn- og framhaldsnámi er lokið.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendir þeim sem útskrifuðust í gær innilegar hamingjuóskir með þennan glæsilega áfanga.

06
May

Verkalýðsfélag Akraness styrkir Heilbrigðisstofnun Akranes um 1,5 milljón

Verkalýðsfélag Akraness hefur ætíð reynt að láta gott af sér leiða til brýna samfélagsmála á okkar félagssvæði og nægir í því samhengi að nefna að félagið hefur styrkt hin ýmsu góðgerðamál.

Á hverju ári styrkir félagið þá sem sárt eiga um að binda fyrir jólin og það hefur félagið gert með því að afhenta Mæðrastyrksnefnd Vesturlands og sóknarprestinum á Akranesi bónuskort sem þessir aðilar úthluta til þeirra sem eiga í fjárhagsvandræðum fyrir hátíðarnar.

Einnig hefur félagið tekið þátt í að styrkja nokkur brýn verkefni eins og söfnun fyrir neyðarkerru til handa Rauða krossdeild Vesturlands og einnig hefur félagið í tvígang styrkt sjúkrahús Akranes við kaup á sneiðmyndatæki.

Á síðasta aðalfundi félagsins var síðan samþykkt að styrkja Sjúkrahús Akraness um 1,5 milljón til kaupa á þremur nýjum sjúkrarúmum en það er mat stjórnar félagsins og aðalfundar að mjög mikilvægt sé að fyrir okkar félagsmenn að hér á Akranesi sé öflug heilbrigðisþjónusta þar sem veitt er góð þjónusta og til staðar sé góður tækjabúnaður.

Formanni félagsins var falið afhenda þessa 1,5 milljón frá félaginu á aðalfundi Hollvinasamtaka heilbrigðisstofnunar Vesturlands sem haldinn var á síðasta laugardag og var mjög ánægjulegt að heyra þau hlýju orð sem féllu í garð Verkalýðsfélags Akraness vegna þessara styrks.

05
May

Kjarasamningur fyrir iðnaðarmenn undirritaður

Verkalýðsfélag Akraness er með iðnaðarmannadeild og er aðili að Samiðn en 3. maí var undirrtiaður nýr kjarasamningur fyrir iðnaðarmenn og er hann í megin atriðum eins og lífkjarasamningurinn sem undirritaður var fyrir verka-og verslunarfólk 3. apríl

Megin áherslur iðnaðarmanna í þessum samningum voru að tryggja þann árangur sem við höfum verið að ná á síðustu árum og tryggja forsendur fyrir áframhaldandi kaupmætti á samningstímanum, uppfæra kauptaxtakerfið og stytta vinnuvikuna.

Varðandi almennar hækkanir tekur samningurinn mið af þeim samningum sem gerðir voru 3. apríl s.l. Áherslan er á að lyfta þeim sem eru með lág laun en með nýju launakerfi í gegnum fyrirtækjasamninga á seinnihluta samningstímans, verði horft til heildarinnar.
Samningurinn gildir frá 1. apríl og eiga því allir að fá við næstu útborgun ef samningarnir verða samþykktir 17.000 kr. fyrir apríl, 17.000 kr. fyrir maí og 26. 000 kr. eingreiðslu. Orlofsuppbótin hækkar um 2000 kr. og verður 50.000. kr. Ef einstaklingur hefur fengið orlofsuppbót greidda kr. 48.000 eins og hún var 2018 eiga þeir að fá greiddar til viðbótar 2000 kr. og verður viðbótin 62.000 kr. en hjá þeim sem ekki hafa fengið greidda orlofsuppbót kr. 110.000 kr. um næstu mánaðarmót.

Varðandi kauptaxtakerfið þá náðist samkomulag um að stokka það upp og færa og skera neðstu taxtana af og í framtíðinni verði launaákvarðanir meira út í fyrirtækjunum í gegnum nýtt launakerfi. Við bindum miklar vonir við innleiðingu nýs launakerfis og að það geti skilað góðum árangri þegar frammi sækir. Ef vel til tekst ætti það að skila sér til allra bæði í stórum og minni fyrirtækjum en það ræðst að miklu leyti á því hvernig stéttarfélögin fylgja málinu eftir.

Á næstu mánuðum verður lögð vinna í að útfæra launakerfið en í kjarasamningum eru lagðar megin línurnar sem eftir er að útfæra betur. Í framhaldinu verður launakerfið kynnt ekki síst fyrir trúnaðarmönnum á vinnustöðum og þegar kemur fram á næsta ár hefst innleiðingin á vinnustöðum.

Kjarasamningurinn tryggir að stigin verða áþreifanleg skref í styttingu vinnuvikunnar. Í fyrsta lagi verður tekinn upp virkur vinnutími sem þýðir að virkur vinnutími verður 37 vinnustundir á viku frá 1. apríl 2020 sem hækkar tímavinnu einingu í dagvinnu um 8,33% en heildarlaun verða óbreytt miðað við 40 vinnustundir. Frá sama tíma verður breyting á yfirvinnu og verður hún tvískipt. Yfirvinna eitt, sem er fyrir 16 yfirvinnustundir á fjögra vikna launatímabili, og yfirvinna tvö, sem greiðist fyrir vinnutíma umfram 41 virka klst. á viku að meðaltali á launatímabili /mánuði. Yfirvinna tvö er einnig greidd fyrir vinnu á nóttu á tímabilinu frá kl. 00.00-06.00.

Fyrsta janúar 2021 er gert ráð fyrir að stigið verði skref tvö en þá opnast möguleiki á að semja um styttingu vinnuvikunnar í 36 vinnustundir. Takist ekki að útfæra vinnutímastyttingu í fyrirtækjasamningum styttist vinnuvikan 1. Janúar 2022 í 36 stundir og 15 mínútur.

Margt fleira er í samningnum s.s. breyting á flutningi orlofsréttar og bakvaktarkafla.
Samningurinn verður kynntur betur á næstu dögum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu verði lokið fyrir 22. maí n.k.  Sjá samning hér

03
May

Hvalur hf. sleppur við að greiða starfsmönnum vangreidd laun vegna tómlætis samkvæmt dómi Héraðsdóms Vesturlands!

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá þurfti Verkalýðsfélag Akraness að stefna Hval hf. vegna ágreinings um túlkun á ákvæðum í ráðningarsamningi starfsmanns sem laut að svokallaðri sérstakri greiðslu og vikulegum frídegi.

En lögmaður félagsins gerði athugasemdir við forsvarsmenn Hvals þann 15 september 2015, að þessi sérstaka greiðsla ætti að vera tilviðbótar vaktarlaunum en forsvarsmenn Hvals hf. sögðu að hún væri inní vaktarkaupinu. En nánast útilokað var fyrir almenna starfsmenn að átta sig á að þessa greiðslu vantaði inní launin enda þurfti miklar reikniskúnstir til að geta látið vaktarkaupið ganga upp. Það þyrfti m.a. 4 aukastafi til að vaktarkaupið gengi upp að teknu tilliti til vaktaálags og annarra greiðslna.

Með öðrum orðum þá höfðu starfsmenn ekki hugmynd að verið væri að hlunnfara þá en það var ekki fyrr en einn starfsmaður sem tók að sér trúnaðarmanastarf að hann leitaði til Verkalýðsfélags Akraness vegna grunsemda um að þessa sérstöku greiðslu sem getið væri um í ráðningarsamningum vantaði inn í launin. VLFA fór að skoða greiðslur til starfsmanna og sá að þessa greiðslu vantaði sem og vikulegan frídag.

Á þeirri forsendu krafði Verkalýðsfélag Akraness  forsvarsmenn Hvals hf. að laun starfsmanna yrði leiðrétt en því var algerlega hafnað af forsvarsmanni Hvals hf. og ekki bara það, heldur hafnaði fyrirtækið að láta félagið hafa tímaskriftir og önnur gögn sem skiptu máli til að útbúa kröfu á hendur fyrirtækinu.

Þegar þetta lá fyrir ákvað VLFA að fara með eitt mál sem prófmál fyrir dómstóla, enda voru allir ráðningarsamningar starfsmanna eins að öllu leiti. Var ákveðið að fara með mál trúnaðarmannsins sem prófmál fyrir vertíðina 2015 fyrir Héraðsdóm Vesturlands og var Hval hf. stefnt í byrjun janúar 2016. Dómur fell í Héraðsdómi Vesturlands þann 28. Júní 2017 þar sem aðalkrafa félagsins á hendur Hval hf. var staðfest. Krafan var sú  að sérstöku greiðsluna vantaði inní laun starfsmannsins og var Hval hf. gert að greiða starfsmanninum um 500 þúsund krónur. Hins vegar var Hvalur hf. sýknaður af kröfunni um vikulega frídaginn.

Um leið og dómurinn í Héraðsdómi Vesturlands í þessu prófmáli hafði verið staðfestur þá stefndi lögmaður VLFA fyrir hönd allra hinna starfsmannanna, enda voru allir ráðningarsamningar starfsmanna sem höfðu starfað hjá Hval nákvæmlega eins og réttur þeirra til leiðréttingar á sérstöku greiðslunni sá sami og hjá trúnaðarmanninum. Hvalur hf. hafnaði alfarið að  dómur héraðsdóms væri fordæmisgefandi og áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar.

Hæstiréttur staðfesti svo niðurstöðu Héraðsdóms um að þessa sérstöku greiðslu sem getið er í ráðningarsamningum vantaði inní laun starfsmannsins og ekki bara það heldur dæmdi Hval hf. einnig til að greiða svokallaðan vikulega frídag. Hvalur hf. var því dæmdur til að greiða starfsmanninum sem prófmálið byggði á um 700.000.

Þrátt fyrir að Hæstiréttur væri búinn að staðfesta dóm Héraðsdóms og dæma rétt starfsmannsins til greiðslu á vikulegum frídegi hafnaði forsvarsmaður Hvals hf. því að fara eftir dómi Hæstaréttar gagnvart öllum þeim 100 starfsmönnum sem fyrirtækið hafði brotið á allar vertíðarnar frá 2013 til 2015.  En Verkalýðsfélag Akraness reikanst til að fordæmisgildi dómsins hefði getað numið 300 til 400 milljónum fyrir alla starfsmenn sem störfuðu á vertíðunum 2013, 2014 og 2015

Á þessari forsendu var ekkert annað að gera en að halda áfram að keyra öll mál starfsmanna sem hafði verið stefnt fyrir Héraðsdóm í janúar 2017 áfram og fá viðurkenningu á rétti starfsmanna á endurgreiðslu vegna vangoldina launa eins og Hæstiréttur var búinn að staðfesta. Með öðrum orðum Hæstiréttur var búinn að dæma að þessa sérstöku greiðslu vantaði inní laun starfsmanna og einnig vantaði vikulega frídaginn og rétt er að árétta að allir ráðningarsamningar starfsmanna voru nákvæmlega eins og í máli trúnaðarmannsins sem var prófmál.

Formaður átti svo sannarlega von á því að einn ríkasti maður Íslands myndi í ljósi þess að Hæstiréttur var búinn að staðfesta að Hvalur hafði hlunnfarið starfsmenn sína um gríðarlegar upphæðir, lagfæra og endurgreiða öllum starfsmönnum samkvæmt dómi Hæstaréttar.

Nei það datt einum ríkasta manni á Íslandi ekki til hugar heldur hélt hann áfram að reyna að koma sér hjá því að greiða eftir ráðningarsamningum og ákvæðum kjarasamninga.

Í ljósi þess að núna gat Hvalur hf. ekkert borið fyrir sig að fyrirtækið ætti ekki að greiða þessa sérstöku greiðslu samkvæmt ráðningarsamningum starfsmanna og svokallaðan vikulega frídag þá tók fyrirtækið upp aðrar varnir í málinu sem lutu að aðgerðaleysi og tómlæti starfsmanna við að sækja sinn rétt.

Já nú skyldi reynt af hálfu Hvals hf. til að finna nýja leið til að komast hjá því að greiða hinum 100 starfsmönnunum sem höfðu verið hlunnfarnir um þessa sérstöku greiðslu og sinn vikulega frídag eins og Hæstiréttur var búinn að segja með dómi sínum að starfsmenn ættu rétt á.

Já nú var það starfsmönnum um að kenna að hafa ekki áttað sig á því nægilega snemma að Hvalur hf. hafi í nokkur ár verið að hlunnfara þá og því krafðist Hvalur hf. sýknu vegna tómlætis starfsmanna við að fylgjast með réttindum sínum. Að hugsa sér að fyrirtæki sem vill láta taka sig alvarlega beri fyrir sig tómlæti starfsmanna sem trúðu og treystu að verið veri að greiða þeim öll þau laun sem ráðningarsamningur þeirra kvæðu á um.

Það ótrúlega síðan að Héraðsdómur Vesturlands tók undir með Hval hf. um að starfsmenn sem voru algerlega grandalausir fyrir því að verið væri að svíkja þá um kjarasamningsbundinn laun var sýknað af kröfu allra starfsmanna á grundvelli tómlætis.

Formaður félagsins er forundran á því að hægt sé að dæma starfsmenn fyrir tómlæti þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. væri að svína á réttindum þeirra samkvæmt ráðningarsamningum og ákvæðum kjarasamninga. Um leið og starfsmenn áttuðu sig á því að hugsanlega væri verið að brjóta á réttindum þeirra var farið með prófmál fyrir dómstóla. Takið eftir það var gert um leið og menn höfðu grunsemdir að allt væri ekki með felldu við kjör starfsmanna.

Hvernig geta dómstólar talað um tómlæti hjá venjulegu verkafólki sem hafði ekki hugmynd um að verið væri að hlunnfara þá um þau laun sem þeim ber? Formaður getur skilið að tómlæti eigi að gilda ef starfsmaður veit að verið hafi verið að brjóta á réttindum hans og hann gerir ekkert með það árum saman.

En slíku er alls ekki til að dreifa í þessu máli enda var strax farið með prófmál fyrir dómstóla um leið og grunsemdir kviknuðu um brot á kjörum starfsmanna. Það vissi enginn að  Hvalur hf. væri að svína á réttindum starfsmanna fyrir en í lok árs 2015 og þá strax var farið af fullum þunga í málið með áðurnefndu prófmáli.

Það er orðið grafalvarlegt þegar dómstólar sýkna fyrirtæki fyrir launaþjófnað vegna þess að starfsmaðurinn trúir og treystir að allt sé rétt greitt og áttar sig ekki á því fyrr en nokkrum árum seinna að fyrirtækið sem viðkomandi starfaði hjá hafði ástundað launaþjófnað á honum.

Hvert eru dómstólar eiginlega komnir að varpa ábyrgðinni algerlega yfir á verkafólk sem því miður hefur oft á tíðum ekki þekkingu, kunnáttu né skilning á túlkun ráðningarsamninga né kjarasamninga og láta óprúttna atvinnurekendur sleppa við að greiða starfsmönnum þau laun sem þeir eiga sannarlega rétt á. Eins og í þessu tilfelli enda Hæstiréttur búinn að kveða upp að ekki var verið að greiða eins og ráðningarsamningar starfsmanna kváðu á um.

Hvað skilaboð eru dómstólar eiginlega að senda út í samfélagið ?  Ef atvinnurekandur svíkja og svindla á launafólki þá geti þeir komist upp með það ef starfsmenn átta sig ekki á því fyrr en of langt er um liðið ???

Formaður spyr einnig, því er launaþjófnaður atvinnurekenda meðhöndlaður með öðrum hætti en annar þjófnaður? Ætlar einhver að halda því t.d. fram að ef starfsmaður ástundar þjófnað frá fyrirtæki sem það starfar hjá fyrir jafnvel hundrað milljóna að hann verði sýknaður vegna tómlætis því eigendur fyrirtækisins komust ekki að þjófnaðnum fyrr of seint ?  Nei það gerist ekki, enda starfsmaður sem stelur frá fyrirtæki fyrir hundruð milljóna hrepptur í gæsluvarðhald óháð því hvort liðinn séu 2 til 3 ár frá því þjófnaðurinn hófst.

Að sjálfsögðu mun Verkalýðsfélag Akraness áfrýja þessum óskiljanlega dómi fyrir Landsrétti og vonar formaður svo sannarlega að þessum ótrúlega ruglaða dómi verðið snúið við og réttlæti starfsmanna sigri að lokum.

03
May

Endurúthlutun sumarhúsa lokið

Nú er endurúthlutun orlofshúsa lokið, þeir sem fengu úthlutað geta séð á félagavefnum hvort bókun hafi myndast hjá þeim.

Einnig ætti að vera komin tölvupóstur til þeirra sem fengu úthlutað, ef hann hefur ekki borist vinsamlegast hafið samband við okkur og við finnum út úr því.

Eindagi endurúthlutunar er 10. maí.

Þeim vikum sem ekki var úthlutað eru nú bókanlegar á vefnum og á skrifstofunni hjá okkur að Sunnubraut 13 og í síma 430-9900.

Þá gildir gamla góða reglan fyrstur kemur, fyrstur fær

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image