• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Sep

Hefja þarf opinbera rannókn á verðlagningu á uppsjávarafla

Það hefur lengi verið uppi harður ágreiningur á milli sjómannaforystunnar og útgerðamanna um verðlagningu á uppsjávarafla, en þessi ágreiningur lýtur að sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru með veiðar og vinnslu á sömu hendi.

Þessi ágreiningur kom m.a. upp í síðustu kjarasamningum vegna þess að sjómenn hafa lengi talið og haft sterkan og rökstuddan grun um að útgerðamenn sem hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi séu ekki að fara eftir ákvæðum kjarasamnings sjómanna þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðarmönnum beri ætíð að greiða hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Vegna þessa vantrausts og tortryggni á milli sjómanna og útgerðamann lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness fram tillögu sem laut að því að skipuð yrði fjögurra manna óháð rannsóknarnefnd sem hefði það hlutverk að kanna verðalagningu á uppsjávarafla og kanna hví Norðmenn greiða langtum hærra verð til sinna sjómanna og á það við um allar uppsjávarafurðir þ.e.a.s makríl, loðnu, síld og kolmuna.

Það er skemmst frá því að segja viðbrögð samninganefndar útgerðamanna hafi nánast verið ofsafenginn og var þessari tillögu snarlega hafnað og það með látum. Því til staðfestingar nægir að nefna yfirlýsingu frá SFS þar sem samtökin töldu að sjómannaforystan væri að leggja fram nýja kröfu en það eina í þessari tillögu okkar var að fá á hreint hvort útgerðarmenn væru að svindla og svína á íslenskum sjómönnum og samfélaginu öllu með því að greiða minna fyrir afurðirnar en eðlilegt teljist. Við í sjómannaforystunni töldum að hérna væri kjörið tækifæri fyrir útgerðarmenn að fá á hreint hvort þessar rökstuddu grunsemdir ættu við rök að styðjast eða ekki. Að skipa þessa óháðu nefnd kom ekki til greina af hálfu útgerðamanna sem er og var óskiljanlegt.

Það sem síðan gerðist var að Verðlagstofa skiptaverðs gaf út skýrslu um hver verðmunur á aflaverðmæti á makríl væri á milli Noregs og Íslands og kom fram að norðmenn hafa greitt 226% meira að meðaltali fyrir makrílinn á tímabilinu frá árinu 2012 til 2018 en mesti munur var tæp 300% á árinu 2018.

Þessi samantekt frá Verðlagsstofu er staðfesting á þessum rökstudda grun sjómanna sem klárlega má áætla að á umræddu tímabili hefi verið haft af sjómönnum laun sem nema allt að 10 milljörðum og af ríki og sveitafélögum skatttekjum sem nema allt að 5 milljörðum

Formaður VLFA mætti Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í Kastljósi á síðasta fimmtudag (29.ágúst 2019) þar sem umræðuefnið var þessi gríðarlegi verðmunur á aflaverðmæti á makríll á milli Noregs og Íslands.

En eins og áður sagði að frá árinu 2012 til 2018 þá munar að meðaltali 226% sem norðmenn greiða meira fyrir markílinn heldur en íslenskar útgerðir greiða. Vandinn liggur í því þegar veiðar og vinnsla eru á sömu hendi þá hafa útgerðamenn á Íslandi komist upp með að ákvarða verðið nánast einhliða hvaða verð þeir eru tilbúnir að greiða íslenskum sjómönnum.

Það er mjög mikilvægt að allir átti sig á því að það eru ekki bara sjómenn sem verða fyrir tekjutapi vegna þessa ,heldur hafa ríki og sveitafélög orðið af milljörðum í skatttekjur.

Það er óhætt að segja það að oft hefur formaður VLFA fengið ansi sterk viðbrögð við hinum ýmsu málum sem lúta að hagsmunum launafólks sem ég hef vakið athygli á í gegnum árin. En drottinn minn dýri, viðbrögðin sem formaðurinn hefur fengið eftir Kastljósþáttinn í gær þar sem fjallað var um þann gríðarlega verðmun á makríll milli Íslands og Noregs eru gríðarleg.

En eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er þessi munur að meðaltali 226% frá árinu 2012 til 2018 en hæst fór verðmunurinn uppí tæp 300% árið 2018.

Aðalmálsvörn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru að gæði makrílsins sem norðmenn veiða sé mun betri en okkar og talaði framkvæmdastjóri SFS um að verið sé að bera saman epli og appelsínur. Þvílíkur útúrsnúningur enda verið að bera saman makríl og makríl en epli og appelsínur eru ekki einu sinni sami ávöxturinn!

Nú hafa mér borist upplýsingar frá sjómönnum að togarinn Margrét EA 710 hafi landað makríl í Færeyjum fyrir hálfum mánuði og fengið meðalverð sem var í kringum 150 krónur en á sama tíma er mér tjáð að meðalverð á Íslandi sé í kringum 60 kr.

Það væri fróðlegt að SFS útskýri fyrir almenningi af hverju séu greiddar 150 krónur fyrir kílóið í Færeyjum en ef þetta íslenska skip hefði landað í Íslandi hefði verðið verið í kringum 60 krónur.

Þessu til viðbótar er rétt að rifja upp að norðmenn veiddu á loðnuvertíðinni hér við land árið 2017,  41 þúsund tonn og var meðalverðið hjá norðmönnunum um 80 krónur fyrir kílóið á meðan meðalveriðið sem íslensku sjómennirnir fengu var í kringum 35 krónur. Samt var hér um sama loðnustofn að ræða með sömu gæði!

Ég ítreka það enn og aftur að það eru ekki bara skipverjar sem verða fyrir tekjutapi vegna þessa, heldur verða ríkissjóður og sveitafélög af gríðarlegum skatttekjum.

Ég skora á stjórnvöld í ljósi þess að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur afhjúpað það svindl og svínarí sem viðgengst í verðmyndun á uppsjávarafla að hefja án tafar opinbera rannsókn á verðlagningu á uppsjávarafla á Íslandi.

Eitt er víst að menn hafa hafið opinberar rannsóknir yfir minna tilefni en þetta, enda tekjutap hjá ríkissjóði og sveitafélögum mælt í milljörðum á umræddu tímabili !

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image