• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Jan

Aðalfundum Matvæladeildar og Iðnsveinadeildar lokið

Aðalfundum Matvæladeildar og Iðnsveinadeildar lauk í kvöld.  Iðnsveinadeildin hélt reyndar sinn fund í gærkveldi, en Matvæladeildin í kvöld.  Fram kom á aðalfundi Matvæladeildar að starfsmenn Fiskimjölsverksmiðju HB-Granda hafa verulegar áhyggjur af þeirri staðreynd að loðnu og kolmuna hefur vart verið landað hér síðan í haust.  Bæði Víkingur Ak og Ingunn AK hafa landað megninu af sínum afla fyrir austan.  Hafa tekjur starfsmanna verksmiðjunnar skerst verulega vegna þessa.  Formaður félagsins mun óska eftir fundi með forsvarsmönnum HB-Granda til að reyna að fá nánari upplýsingar fyrir starfsmenn verksmiðjunnar.  Því eðli málsins samkvæmt verða starfsmenn að fá vita hvort þetta fyrirkomulag á löndunum skipa HB-Granda sé komið til að vera eða ekki.  Á aðalfundunum var kosið í stjórnir þessara deilda og eru þær skipaðar eftirtöldum aðilum:

Í stjórn Iðnsveinadeildar eru Snorri Guðmundsson meðstjórnandi, Grímar Teitsson varameðstjórnandi, Gísli Björnsson ritari og vararitari Arnar Þór Erlingsson.  Formaður deildarinnar er Sigurður Guðjónsson og varaformaður er Guðmundur Rúnar Davíðsson.

Í stjórn Matvæladeildar eru Skúlína Guðmundsdóttir meðstjórnandi, Björgólfur Einarsson varameðstjórnandi, ritari Eðvarð Ingi Árnason og vararitari er Sigurður Hauksson.

25
Jan

Útlitið orðið verulega dökkt !

Það verður að segjast alveg eins og er að útlitið er orðið verulega dökkt í kjaraviðræðum við forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins.  Allavega er það mat formanns félagsins eftir  samningafundinn sem haldinn var í dag hjá ríkissáttasemjara.  Einnig er það mat Verkalýðsfélags Akraness að töluverðar líkur séu orðnar á því að til verkfalls geti komið hjá starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins.  Eins og áður segir er þetta mat formanns félagsins miðað við þær viðræður sem áttu sér stað í dag. Vonandi er þetta mat rangt, en því miður telur VLFA að svo sé alls ekki. 

Yfir 90% starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.  Það liggur því alveg ljóst fyrir að hagsmunir félagsins í þessum kjaraviðræðum er feyki miklir.  Forsvarsmönnum Íslenska járnblendifélagsins voru afhent áhersluatriði á blaði fyrir nokkrum dögum, sem eru forsenda félagsins til að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi og það er alveg ljóst að hvergi verður hvikað frá þeim áhersluatriðum.  Og eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness er svo sannarlega tilbúið að berjast fyrir bættum hag starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins, með öllum tiltækum ráðum.  Verkalýðsfélag Akraness er búið að reyna frá því í byrjun október að leysa þessa kjaradeilu bæði í formlegum viðræðum sem og óformlegum, og hefur félagið lagt gríðarlega mikla vinnu í að leysa þessa kjaradeilu.  Því veldur þessi niðurstaða í dag verulegum vonbrigðum.  Ekki verður farið efnislega í þau ágreiningsatriði sem um ræðir að svo stöddu.  Formaður félagsins mun setja sig í samband við starfsmenn Íj og gera þeim grein fyrir þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin.  Í framhaldi af þeim viðræðum við starfsmenn mun félagið taka ákvörðun um hvað sé heppilegast að gera í framhaldinu.  Næsti samningafundur verður mánudaginn 31. janúar, en eins og áður sagði er útlitið verulega dökkt, og er þar vægt til orða tekið. 

25
Jan

Gengið var frá samkomulagi um gildissviðið í kjarasamningi Norðuráls í gær

Gengið var frá samkomulagi um gildissviðið í kjarasamningi Norðuráls í gær.  Loksins náðu samningsaðilar niðurstöðu eftir að haldnir hafa verið margir fundir um það atriði samningsins.  Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með að þessu atriði samnings skuli loks vera lokið og samningsaðilar geti nú farið að snú sér að fullum krafti að öðrum óleystum kjaraatriðum og er þar af nógu að taka.  Það var einnig ákveðið á þessum fundi að fastsetja þrjá fundi fram í tímann og er næsti fundur  föstudaginn 28. jan. síðan aftur 1. feb. og 4. feb.  Það liggur fyrir að mikil vinna er framundan hjá samninganefnd Norðuráls því væntingar starfsmanna er allverulegar í þessum kjaraviðræðum eðlilega.

24
Jan

Aðalfundi stóriðjudeildar lokið

Aðalfundur stóriðjudeildar var haldinn í kvöld, á þriðja tug félaga mættu á aðalfundinn.  Dagskrá fundarins var t.d. kosning í stjórn deildarinnar.  Stjórn stóriðjudeildar er þannig skipuð nú: Formaður er Tómas Andrésson, varaformaður Jón Jónsson, meðstjórnandi Páll Jónsson, varameðstjórnandi Ólafur Geir Óskarsson, ritari Leiknir Sigurbjörnsson, og vararitari er Sigurður Gunnarsson.  Að kosningu lokinni fór formaður félagsins ýtarlega yfir stöðuna í kjaraviðræðunum við Norðurál, Íslenska járnblendifélagið og Sementsverksmiðjuna.  Einnig gerði formaður félagsins fundarmönnum grein fyrir starfsemi félagsins, hvað hefði áunnist á liðnu ári og hver markmið stjórnar væru á þessu ári.

Lögð var fram ályktun  á fundinum þar sem skorað er á viðsemjendur og samninganefnd NA að koma á fót stóriðjuskóla eins fljótt og verða má, því mikilvægi stóriðjuskólans hefði svo sannarlega sýnt sig hjá Ísal í gegnum árin.  Ályktunin hljóðar svona í heild sinni:

Aðalfundur stóriðjudeildar VLFA haldinn 24. janúar 2005 skorar á samninganefnd og viðsemjendur VLFA í stóriðjunni að komið verði á fót stóriðjuskóla á Vesturlandi.  Það er hagur beggja, atvinnurekenda og launamanna að komið verði á fót skóla fyrir starfsfólk í stóriðjunni.  Reynslan af slíkum skóla er það góð að óhjákvæmilegt er að slíkur skóli verði settur á stofn.  Því verkafólk á Vesturlandi getur ekki sætt sig við að vera eftirbátar annarra stóriðja hvað menntun áhrærir.

23
Jan

Fundað verður á morgun um gildissvið samnings Norðuráls

Fundað verður um gildissvið kjarasamnings Norðuráls á morgun.  Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Logos sem er lögmannsstofa sem Norðurál er í viðskiptum við.  Það er von félagsins að það náist niðurstaða um gildissvið samningsins fljótlega, svo samningsaðilar geti farið að snú sér að öðrum kjaraatriðum.  En vissulega er gildissvið samnings eitt af stóru atriðunum í þessum kjaraviðræðum og stéttarfélögin verða að gefa sér þann tíma sem þau telja sig þurfa.

23
Jan

Samninganefnd Íslenska járnblendifélagsins fundar hjá ríkissáttasemjara

Samninganefnd stéttarfélaganna  mun hittast á morgun vegna kjaradeilu stéttarfélaganna við Íslenska járnblendifélagið, fundurinn verður haldinn í húsakynnum ríkissáttasemjara kl. 10:00.  Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni er þolinmæði Verkalýðsfélags Akraness orðin afar takmörkuð, vegna þess hversu illa gengur að leggja lokahönd á þau atriði sem eftir standa.  Ríkissáttasemjari hefur boðað til samningafundar þriðjudaginn 25. janúar.  Samningafundurinn á þriðjudaginn verður að mati Verkalýðsfélags Akraness úrslitatilraun, hvort það verði gengið frá nýjum kjarasamningi við forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagið án átaka eða ekki.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image