• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
May

Bæjarstjórinn á Akranesi segir fyrirtækið Laugafiskur sé gott fyrirtæki sem bæjaryfirvöld vilja gjarnan hafa áfram á Akranesi

Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með þau viðbrögð sem bæjarstjóri Akraneskaupstaðar hefur sýnt á málefnum Laugafisks.   Eins og fram hefur komið hér á síðunni þá snýst málið um kvartanir frá nágrönnum yfir lyktarmengun.  Forsvarsmenn Laugafisks hafa verið að leita allra leiða til lausnar á vandamálinu og eru hvergi nærri hættir.   Gísli Gíslason bæjarstjóri segir í viðtali við Morgunblaðið í dag að hann vonist til að lausn finnist í málefnum fyrirtækisins.  Bæjarstjórinn sagði einnig að bæjaryfirvöld geri sér grein fyrir að það skipti miklu máli að fyrirtækið geti gengið áfram.  Að lokum viðtalsins sagði Bæjarstjórinn að fyrirtækið væri gott og bæjaryfirvöld vilji gjarnan hafa fyrirtækið áfram hér á Akranesi.  Verkalýðsfélag Akraness tekur undir hvert orð bæjarstjórans og fagnar þessari afstöðu bæjaryfirvalda.  Aðalmálið er að allir leggist á eitt að finna farsæla lausn á málefnum fyrirtækisins.  Verður sú lausn að vera með þeim hætti að rekstrargrundvelli Laugafisks verði ekki ógnað.  Formaður félagsins mun funda með bæjarráði í vikunni um málefni fyrirtækisins.

17
May

Formaður félagsins fundar með starfsmönnum Klafa

Formaður félagsins átti góðan fund með starfsmönnum Klafa í dag.  Fundurinn var haldinn á skrifstofu félagsins og mætu flest allir starfsmenn Klafa.  Tilefni fundarins var að gera starfsmönnum grein fyrir þeim viðræðum sem átt hafa sér stað á milli stéttarfélaganna og fyrirtækisins um nýjan kjarasamning.  Starfsmenn eru einhuga um að fylgja eftir þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram.  Skýrt kom fram hjá starfsmönnum að ekki yrði kvikað frá  kröfunni um  hagnaðarhlut til handa starfsmönnum Klafa.  Starfsmenn eru sannfærðir og reyndar Verkalýðsfélag Akraness líka, að starfsmenn Klafa hafi átt rétt á sambærilegri greiðslu vegna hagnaðarhlutdeildar eins og starfsmenn Íj fengu á síðastliðna ári.  Starfsmenn hafa bent réttilega á að þeir hafi unnið eftir kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins á undanförnum árum og þar af leiðandi eigi þeir rétt á sambærilegri greiðslu vegna hagnaðarhlutdeildar og starfsmenn ÍJ fengu. 

13
May

Næsti samningafundur um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Klafa verður á miðvikudaginn kemur

Næsti samningafundur vegna kjarasamnings Klafa verður haldinn miðvikudaginn 18 maí.  Það liggur fyrir að það verður tekist á um nokkur kjaraatriði sem starfsmenn Klafa leggja mikla áherslu á að komi inn í nýjan kjarasamning.  Formaður félagsins mun funda með starfsmönnum Klafa á næsta þriðjudag.

12
May

Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir fundi með bæjarráði

Formaður félagsins heimsótti starfsmenn Laugarfisks í morgun.  Eins og hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur  Verkalýðsfélag Akraness verulegar áhyggjur af þeirri ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands að Laugarfiski skuli gert að draga úr starfsemi sinni um 50% yfir sumarmánuðina.  Það er mjög líklegt að öllum rekstrargrundvelli verði kippt undan starfssemi fyrirtækisins ef þessi ákvörðun muni standa.  Formaður félagsins tók eftir því í heimsókn sinni í morgun, að starfsmenn eru nokkuð uggandi yfir þeirri óvissu sem hefur skapast vegna þeirra ákvörðunar sem heilbrigðisnefndin tók á fundi sínum 20. apríl sl.  Það er alveg ljóst að þær aðgerðir sem heilbrigðisnefndin hefur nú gripið til ógnar klárlega starfsöryggi um 35 starfsmanna fyrirtækisins.  Verkalýðsfélag Akraness hefur sett sig í samband við fulltrúa  bæjarráðs og lýst yfir áhyggjum félagsins á þessu máli.  Verkalýðsfélag Akraness veit vel að forsvarsmenn Laugafisks eru að reyna hvað þeir geta til að finna lausn á þessu vandamáli.  Holt er fyrir okkur Akurnesinga að muna að við byggjum okkar afkomu af stórum hluta upp á sjárútvegi, því er ekkert óeðlilegt að þeir sem búa í næsta nágrenni við fiskvinnslustöðvarnar finni einhverja fiskilykt.  Vissulega verður fyrirtækið að reyna eftir fremsta megni að takmarka lyktina eins og kostur er.    Formaður félagsins hefur óskað eftir fundi með bæjarráði og verður þetta mál til umfjöllunar á þeim fundi.  Hægt er að skoða myndir frá heimsókn formanns félagsins frá því í morgum með því að smella á myndir og síðan velja Laugarfiskur.

11
May

Verkalýðsfélag Akraness lýsir yfir miklum áhyggjum vegna ákvörðunar heilbrigðisnefndar Vesturlands vegna Laugafisks

Verkalýðsfélag Akraness hefur gríðarlega miklar áhyggjur vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem er upp komin hjá Laugafiski.  Eins og fram kom í frétt sem birtist í Skessuhorni 4. maí þá hefur heilbrigðisnefnd Vesturlands  vítt Laugafisk vegna kvörtunar um lyktarmengun, og var fyrirtækinu gert að draga úr framleiðslu sinni um 50% yfir sumarmánuðina.  Verkalýðsfélag Akraness vill ekki hugsa það til enda ef aðgerðir heilbrigðisnefndar Vesturlands gera það að verkum að starfsemin hjá Laugarfiski leggist af hér á Akranesi.  Það eru um 35 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness sem starfa hjá Laugafiski, þar af eru um 15 konur.  Verkalýðsfélagið hefur sett sig í samband við forsvarsmenn fyrirtækisins og lýst yfir áhyggjum á þeirri stöðu sem upp er komin.  Verkalýðsfélag Akraness veit fyrir víst að fyrirtækið er að leita allra leiða til að finna lausn á þessu hvimleiða vandamáli.  Hér verða allir að taka höndum saman og finna lausn á þessu vandamáli.  Það eru mjög miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur Akurnesinga að farsæl lausn finnist sem allra fyrst.  Ekki mun Verkalýðfélag Akranes láta sitt eftir liggja til aðstoðar í þeim málum. 

Ekki ætlar félagið að gera litið úr þeim kvörtunum sem komið hafa frá nágrönnum nema síður sé.  Það eru samt sem áður einu sinni svo að við lifum á sjávarfangi og við búum þar sem fiskvinnsla er mjög stór þáttur í okkar atvinnulífi. 

11
May

Viðræður um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Klafa komin á fullt skrið

Samningafundur var haldinn í dag um nýjan kjarasamning fyrir starfsmenn Klafa.  Á fundinum í dag svörðu forsvarsmenn  fyrirtækisins þeim kröfum sem stéttarfélagið hafði lagt fram.  Ljóst er töluverð vinna er framundan við gerð nýs kjarasamnings fyrir starfsmenn Klafa.  Fram að næsta fundi ætla samningsaðilar að velta fyrir sér hvernig hægt er að taka upp lifandi bónuskerfi og munu báðir  aðilar koma með tillögur á næsta fundi.  Það er afar ánægjulegt að viðræðurnar séu komnar á fullt skrið

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image