• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Nov

Alþýðusamband Íslands studdi að takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá ríkjum EES yrði aflétt þvert á vilja fjölda stéttarfélaga

Í Morgunblaðinu í gær er haft eftir framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands, Gylfa Arnbjörnsyni, að ASÍ og SA  hafi sameiginlega stutt það að takmarkanir á frjálsri för launafólks frá EES yrðu afnumdar frá 1. maí sl.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir undrun sinni á því að ASÍ skuli hafa stutt það að takmörkunum á frjálsri för launafólks frá ríkjum EES yrði aflétt.  Sú undrun byggist á því að fjöldi stéttarfélaga varaði stórlega við því að takmörkunum yrði afétt.  Reyndar áttar formaður VLFA sig ekki alveg á því hver afstaða ASÍ var í þessu máli.  Í fréttum 20. apríl 2006 er haft orðrétt eftir Halldóri Grönvold:  

"Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir það hreint og skýrt að stjórnvöld hefðu átt að nýta heimild til að fresta gildistöku þessara laga svo að það mætti undirbúa þetta mál betur"

Ef fréttin er rétt er greinilegt að aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og framkvæmdastjórinn eru ekki að tala sama máli.

En skoðum hvaða stéttarfélög vöruðu við því að takmörkunum yrði aflétt. Þau voru eftirfarandi: Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Húsavíkur, Verkalýðsfélag Borgarness, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, AFL – Starfsgreinafélag Austurlands, Félag járniðnaðarmanna, Efling - Stéttarfélag, Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna, BSRB, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands, Iðnnemasamband Íslands og Landssamband Samiðnar. 

Í ljósi þess að öll þessi stéttarfélög vöruðu við því að takmörkunum yrði aflétt þá spyr formaður Verkalýðsfélag Akraness hvernig í ósköpunum hægt sé að segja að sátt hafi verið á milli aðila vinnumarkaðarins um að aflétta takmörkunum á frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkum EES eins og haldið hefur verið fram. Það verður að segjast alveg eins og er að vinnubrögð ASÍ eru stórfurðuleg í ljósi þess að fjöldi aðildarfélaga ASÍ varaði stórlega við því að takmörkunum yrði aflétt og spurning er hvaða heimild ASÍ hafði til að styðja þennan gjörning þvert á vilja fjölda aðildarfélaga sinna.

En skoðum vegna hvers stéttarfélögin voru á móti því að takmörkunum yrði aflétt og eru hér að neðan bútar úr ályktum frá hinum ýmsu félögum.

Ályktun frá aðalfundi Verkalýðsfélags Akraness 

"Aðalfundurinn telur að því markaðslaunakerfi sem viðgengist hefur á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum sé stórlega ógnað ef það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi fer í gegn óbreytt.

 

Aðalfundur telur það einnig óskiljanlegt af hverju verið er að skerða eftirlitshlutverk stéttarfélaganna með erlendu vinnuafli eins og fram kemur í fyrirliggjandi frumvarpi félagsmálaráðherra. Ljóst er að á stéttarfélögum hvílir rík skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og hafa stéttarfélögin þar víðtækra hagsmuna að gæta"

Fjölmennur félagsfundur Eflingar-stéttarfélags samþykkti eftirfarandi ályktun 27. maí sl.

"Fundurinn lýsir miklum vonbrigðum með að eftir óvandaðan undirbúning af hálfu stjórnvalda á nú að keyra þetta stórmál í gegnum þingið á örfáum dögum.  Efling-stéttarfélag hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að stéttarfélögunum sé áfram gert kleyft að fylgjast með beinum hætti með ráðningarkjörum útlendinga hjá fyrirtækjum hér á landi. Nýleg dæmi sýna að til eru atvinnurekendur sem þverbrjóta hér lög og kjarasamninga á vinnumarkaði. Frjálst flæði vinnuafls við þessar aðstæður mun hafa þau áhrif að þrýsta kjörum og réttindum launafólks á vinnumarkaði niður á við."

Ályktun frá Verkalýðsfélagi Borgarness

"Fundurinn bendir á að íslensk stjórnvöld eru illa í stakk búin til að taka á vandamálum sem án vafa mun fylgja þessari opnun nú. Aukið flæði launafólks frá láglaunasvæðum Austur-Evrópu kemur einnig til með að lækka markaðslaun í landinu og grafa undan íslensku velferðarkerfi."

 

Ályktun frá Verkalýðfélagi Húsavíkur

"Verkalýðsfélag Húsavíkur gerir alvarlegar athugasemdir við að innlendur vinnumarkaður verði opnaður 1. maí fyrir milljónum íbúa átta þjóða í Austur Evrópu. Verkalýðsfélag Húsavíkur telur íslenskan vinnumarkað ekki tilbúinn til að taka við auknu flæði launafólks 1. maí. Þess vegna telur félagið eðlilegt að fresta gildistöku reglnanna um nokkur ár og tíminn notaður til að setja skýrar reglur sem kveði á um ábyrgð."

 
Ályktun AFLs – Starfsgreinafélags Austurlands

Ársfundur trúnaðarmanna AFLs – Starfsgreinafélags Austurlands skorar á stjórnvöld að fresta gildistöku reglna um frjálst flæði launafólks frá nýjum aðildarríkjum EB um allt að 3 ár. Fundurinn bendir á að reynslan hefur sýnt að íslensk löggjöf er ekki tilbúin til að taka á málum sem upp hafa komið og í ljósi mikillar þenslu er hætt við að aukið, eftirlitslaust, flæði launafólks frá láglaunasvæðum Austur Evrópu, myndi grafa undan grundvallaratriðum velferðarkerfisins.

1.maí ávarp Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna, BSRB, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands og Iðnnemasambands Íslands.

Opnun vinnumarkaðar

Verkalýðssamtökin og atvinnurekendur hafa deilt hart um hvort við erum að keyra hjól atvinnulífsins of hratt með erlendu vinnuafli með ófyrirséðum afleiðingum. Mörg rök hníga að því að ekki hafi verið farið nógu varlega. Sú ákvörðun íslenskra stjórnvalda að nýta ekki aukinn aðlögunarfrest gagnvart nýjum löndum Evrópusambandsins orkar mjög tvímælis. Hún ein og sér getur þýtt það að mun erfiðara verði að fylgjast með launakjörum útlendinga hér á landi. Að stjórnvöld skuli ekki hafa fyrirvara gagnvart eftirliti með notendafyrirtækjum og þjónustusamningum býður hættunni heim. Opinn vinnumarkaður veldur því að erfiðara er að standa vörð um réttindi og kjör launafólks. Það er staðreynd að nokkur hópur atvinnurekenda notar tækifærið til að brjóta á réttindum launafólks. Í skjóli leyndar þrífast mannréttindabrotin. Áhrifin eru þegar farin

að segja til sín með lækkandi launum í vissum atvinnugreinum. Gegn því verður barist með oddi og egg.

Ályktun um opnun vinnumarkaðar 12.4 2006

 

"Fundur í Félagi járniðnaðarmanna haldinn þriðjudaginn 11. apríl varar eindregið við því að innlendur vinnumarkaður verði galopnaður fyrir milljónum íbúa átta þjóða í Austur Evrópu þann 1. maí nk.

Með því að falla frá skilyrði um atvinnuleyfi má búast við að fjöldi erlendra starfsmanna streymi á innlendan vinnumarkað. Sumir atvinnurekendur munu eflaust nýta sér þessa aðstöðu til að koma sér upp ódýru vinnuafli og pressa á lækkun þeirra launa sem hafa verið á vinnumarkaðnum. Hætta er á að hömlulaust framboð á starfsfólki frá þessum löndum ýti undir gerviverktöku, lækkun markaðslauna og atvinnuleysi.

Fundurinn telur að forsendur fyrir opnun vinnumarkaðar séu að lögfest verði ábyrgð fyrirtækja sem nota erlent starfsfólk varðandi kjör og skattskil og að settar verði skorður við gerviverktöku".

 

 Frétt sem birtist í fréttablaði Félags iðn- og tæknigreina í apríl 2006

" Eins og fram hefur komið í fréttum mun félagsmálaráðherra opna á frjálsa för launafólks sem kemur frá nýjustu aðildarríkjum Evrópusambandsins þann 1. maí n.k. Ljóst er að ekki náðist fram nema hluti þeirra krafna sem verkalýðshreyfingin setti fram og því líklegt að erfiðir tímar sér framundan. Mjög erfitt verður að hafa eftirlit með innflutningi á vinnuafli og sérstaklega bagalegt að verkkaupendum sé ekki gert skylt að ganga úr skugga um að verktakar fari að íslenskum lögum og reglum á vinnumarkaði. Hætt er við mikilli óánægju og jafnvel árekstrum ef þrengir að á íslenskum vinnumarkaði og ljóst að erfitt verður að verja þau launakjör sem menn hafa náð umfram kjarasamninga.

Félag iðn- og tæknigreina lagði mikla áherslu á að ASÍ legðist gegn frumvarpinu ef ekki næðist að tryggja að áherslur verkalýðshreyfingarinnar næðu fram að ganga."

Þessu til viðbótar sendu nokkur stéttarfélög umsagnir til félagsmálanefndar Alþingis Þar sem þau vöruðu eindregið við því að takmörkunum yrði aflétt.  Eins og hefur komið fram er óskiljanlegt að ASÍ skuli hafa studd það að takmörkunum yrði aflétt í ljósi þeirra staðreynda að fjöldi stéttarfélaga varaði við því að takmörkunum yrði aflétt.

07
Nov

Umræðan um frjálst flæði ber árangur !

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra tilkynnti á Alþingi í dag að ríkisstjórnin hefði ákveðið að nýta sér undanþágur frá frjálsu flæði vinnuafls um næstu áramót þegar Rúmenía og Búlgaría ganga í Evrópusambandið.

Að öllu óbreyttum hefðu ríkisborgarar þessara landa átt að fá frjálsan aðgang að vinnumarkaði Íslands í gegnum EES en ríkisstjórnin nýtir sér undanþágu frá því sem er til tveggja ára og því verður frjálst flæði vinnuafls frá Búlgaríu og Rúmeníu ekki heimilað fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2009.

 Ráðherra lét ummælin falla í utandagskrárumræðu um fjölgun útlendinga á Íslandi sem Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, hóf. Íslensk stjórnvöld nýttu sér sams konar undanþágu fyrir tveimur árum þegar tíu ný ríki gengu í Evrópusambandið en opnað var fyrir flæði vinnuafls frá þeim löndum þann 1. maí síðastliðinn.

Það er mat formanns félagsins að sú umræða sem nú er í gangi um málefni erlends vinnuafls er að skila árangri.  Það var mjög mikilvægt að íslensk stjórnvöld skyldu bera gæfu til þess að nýta þær heimildir sem takmarka frjálsa för launafólks frá Búlgaríu og Rúmeníu og það þvert á vilja Samtaka atvinnulífsins.

06
Nov

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar umræðunni um frjálst flæði launafólks frá ríkjum EES

Í vor ritaði formaður Verkalýðsfélags Akraness hér á heimasíðu félagsins að það væri svartur dagur hjá íslenskum launþegum þegar Alþingi Íslendinga samþykkti að afnema takmarkanir á frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkum EES.  Einnig ritaði formaður félagsins að það væri köld vatnsgusa sem íslenskir launþegar fengu frá Alþingi Íslendinga og það á sjálfan baráttudag launafólks 1. maí, en þá tóku lögin gildi.

Verkalýðsfélag Akraness varaði stórlega við því að takmörkunum yrði aflétt og gerði það m.a. í umsögn til félagmálanefndar Alþingis. Á það var því miður ekki hlustað.   Einnig bárust varnaðarorð frá stéttarfélögum vítt og breitt um landið um að aflétta ekki takmörkunum á frjálsri för launafólks frá ríkjum EES. Halda alþingismenn að stéttarfélögin hafa verið að vara við frjálsri för launafólks frá ríkjum EES að ástæðulausu?  Nei, aldeilis ekki. Stéttarfélögin sáu einfaldlega í hvað stefndi og áhyggjur stéttarfélagana hafa því miður ræst að langstærstum hluta.

Hvað var það sem Verkalýðsfélag Akraness hræddist við að takmörkunum yrði aflétt?  Jú, það var fyrst og fremst það að því markaðslaunakerfi sem við höfum haft hér við lýði undanfarin ár yrði stórlega ógnað með óheftum innflutningi á ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu.  Einnig óttaðist félagið að atvinnurekendur myndu í stórauknum mæli sækjast eftir ódýru erlendu vinnuafli á kostnað íslenskra launþega.  Því til viðbótar taldi félagið að íslensk stjórnvöld væru á engan hátt tilbúin til þess að taka við því gegndarlausa innstreymi á erlendu vinnuafli sem klárlega myndi fylgja í kjölfarið ef takmörkunum yrði aflétt.  Að lokum gagnrýndi félagið það að í nýju lögunum væri verið að takmarka eftirlit stéttarfélaganna með erlendu vinnuafli og færa það nánast alfarið til Vinnumálastofnunar.  Félagið sá að Vinnumálastofnun hafði ekki þann mannskap sem þarf til að sinna þessu eftirliti og ekki heldur þá sérþekkingu á íslenskum kjarasamningum sem þarf til. Sú þekking liggur að sjálfsögðu hjá stéttarfélögunum.

Margt af því sem Verkalýðsfélag Akraness varaði félagsmálanefnd Alþingis við hefur ræst eftir að lög um frjálsa för launafólks frá ríkjum EES voru sett þann 1. maí sl.

Það liggur fyrir að hart er sótt að þeim markaðslaunum sem nú eru greidd hér á landi.  Það bendir margt til þess að íslenskt verkafólk sé byrjað að missa vinnuna vegna þeirrar gríðarlegu sprengingar sem orðið hefur á innflutningi á erlendu vinnuafli til landsins eftir 1. maí, eins dæmin sýna hér á Akranesi.  Inní landið streymir ódýrt vinnuafl frá bláfátækustu ríkjum Evrópu og afar erfitt fyrir stéttarfélögin að sinna því eftirlitshlutverki sem þeim er í raun skylt að gera.  Allt eru þetta blákaldar staðreyndir sem ekki er hægt að þræta fyrir.  Það er mat formanns félagsins að þetta sé einfaldlega rétt að byrja.  Félagsleg undirboð eiga eftir að aukast enn frekar þegar samdráttur verður á íslenskum vinnumarkaði.  Formaður félagsins óttast það einfaldlega að íslenskt verkafólk verði undir í baráttunni við þau félagslegu undirboð sem fylgja óheftum innflutningi á ódýru vinnuafli frá Austur - Evrópu.

Nú um áramótin munu Rúmenía og Búlgaría ganga inní Evrópusambandið og ætla íslensk stjórnvöld virkilega að heimila þessum bláfátækustu ríkjum Evrópu óheftan aðgang að íslenskum vinnumarkaði? Alþingi þarf að vera búið að taka afstöðu til þess í desember.  Ef það gerist þá yrði það algert stórslys.  Við ráðum nú þegar ekki við þá sprengingu sem orðið hefur á innflutningi erlends vinnuafls frá aðildarríkjum EES á síðustu mánuðum, hvað þá að hleypa launafólki frá þessum tveimur fátækustu ríkjum Evrópu inn á íslenskan vinnumarkað.

Það er alveg klárt að það kraumar í mörgum íslenskum launþegum vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað eftir að frjáls för launafólks var heimiluð 1. maí.  Verkalýðsfélag Akraness hefur alls ekki mælt með því að landinu verði lokað fyrir erlendu vinnuafli, síður en svo, við þurfum á erlendu vinnuafli að halda til að geta haldið tannhjólum atvinnulífsins gangandi.  Hins vegar vill Formaður Verkalýðsfélags Akraness að við Íslendingar getum stjórnað flæði erlends vinnuafls sjálfir eftir ástandi á atvinnumarkaði hverju sinni.  Þannig var það fyrir 1. maí en á óskiljanlegan hátt ákvað Alþingi Íslendinga að aflétta takmörkunum á frjálsri för launafólks frá ríkjum EES þvert á vilja stéttarfélagana.

03
Nov

Er frjáls för launafólks frá hinum nýju aðildarríkjum EES farin að hafa áhrif á íslenska launþega?

Öllum nema tveimur starfsmönnum byggingarfyrirtækisins Sveinbjarnar Sigurðssonar sem starfa hér á Akranesi hefur verið sagt upp störfum.  Í heildina eru þetta alveg um 20 íslenskir starfsmenn sem eru flestir ef ekki allir með búsetu á Akranesi. Þessar uppsagnir koma þrátt fyrir að verkefnastaða fyrirtækisins sé mjög góð hér á Akranesi um þessar mundir. 

Eftir þeim upplýsingum sem formaður félagsins hefur aflað sér þá eru næg verkefni hjá umræddu fyrirtæki alla vega næstu tvö árin.  Formaður félagsins fór og hitti nokkra þeirra starfsmanna sem fengu uppsagnarbréf um mánaðarmótin og voru þeir afar hissa yfir þessum uppsögnum sé tekið tillit til þeirra verkefnastöðu sem nú þegar liggur fyrir.  

Þeir starfsmenn sem formaður ræddi við í morgun óttast að nú eigi að fá utanaðkomandi verktaka sem hafa óheftan aðgang að ódýru vinnuafli frá hinum fátæku ríkjum Austur - Evrópu  til að vinna við þær framkvæmdir sem nú þegar liggja fyrir hér á Akranesi.  Starfsmennirnir sögðu einnig að það væri gott að starfa hjá fyrirtækinu og verkefnastaða væri góð.  Á þeirri forsendu harma þeir að fyrirtækið skuli grípa til þessara uppsagna og óttast eins og áður sagði að ódýrt erlent vinnuafl verði fengið til að vinna þau störf sem þeir hafa unnið við.

Formaður félagsins sagði í vor þegar takmörkunum á frjálsu flæði launafólks frá hinum nýju ríkjum ESS var aflétt að það væri svartur dagur fyrir íslenskt launafólk.  Einnig að það væri köld vatnsgusa sem íslenskt verkafólk fengi framan í sig og það á sjálfan baráttudag verkalýðsins 1. maí, en þá tóku lögin gildi.

Umrætt fyrirtæki hefur alla tíð verið vel virt hér á Akranesi og ætíð komið vel fram við sína starfsmenn.   Vissulega óttast formaður VLFA að fyrirtæki sem greitt hafa sínum íslenskum starfsmönnum eftir þeim markaðslaunum sem í gildi eru séu einfaldlega ekki samkeppnisfær við þau fyrirtæki sem eingöngu eru með ódýrt vinnuafl í sinni þjónustu. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness óttast stórlega að 20 íslenskir verkamenn og iðnaðarmenn séu að missa vinnuna einfaldlega vegna þess að aðgengi fyrirtækja að ódýru vinnuafli er óheftur. 

Það er alveg á hreinu að sú þróun sem á sér nú stað á íslenskum vinnumarkaði er skelfileg fyrir íslenska launþega.   Inn í landið flæðir afar ódýrt vinnuafl frá bláfátækum ríkjum Austur - Evrópu sem gerir ekkert annað en að gjaldfella launakjör íslensks launafólks.  Formaður félagsins spyr hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera þegar Rúmenía og Búlgaría ganga inní Evrópusambandið um næstu áramót? Eiga þessi tvö bláfátækustu ríki Evrópu að hafa óheftan aðgang að íslenskum vinnumarkaði ?

Að sjálfsögðu vilja Samtök atvinnulífsins frjálst flæði frá Rúmeníu og Búlgaríu, alveg eins og þau börðust með hæl og hnakka fyrir frjálsri för launafólks frá hinum nýju ríkjum EES.  Samtök atvinnulífsins og ríkisstjórn Íslands nota frjálst flæði launafólks sem hagstjórnunartæki.  SA til að halda aftur af launaskriði og ríkisstjórnin til að reyna að hemja verðbólguna og er það gert á kostnað íslenskra launþega.

Það er rétt að vekja athygli á því að ef Alþingi Íslendinga hefði samþykkt að fresta frjálsri för launafólks frá hinum nýju aðildarríkjum EES eins og Verkalýðsfélag Akraness mælti með, þá væri fyrirtækum ekki heimilt að segja íslensku verkafólki upp störfum til þess eins að ráða ódýrt erlent vinnuafl.   Alþingi samþykkti hins vegar að aflétta takmörkunum þó svo að Alþingi hafi haft heimild til fresta frjálsri för launafólks frá ríkjum EES allt til ársins 2011.  Verkalýðsfélag Akraness varaði við því í umsögn til félagmálanefndar Alþingis að takmörkunum yrði aflétt, á það var því miður ekki hlustað.

Reyndar spyr formaður Verkalýðsfélags Akraness sig að því hvernig það geti staðist að verið sé að segja íslenskum verkamönnum upp störfum á sama tíma og það komu um 1000 erlendir starfsmenn til landsins og það bara í  september einum saman.  Það komu einnig um 700 erlendir starfsmenn í október samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. 

Samtals hafa komið yfir 7000 þúsund erlendir starfsmenn á þessu ári og eru þessar tölur byggðar á upplýsingum frá Vinnumálastofnun.  Einnig segir Vinnumálastofnun að 2000 þúsund erlendir starfsmenn sem starfa á íslensum vinnumarkaði hafi ekki verið tilkynntir til Vinnumálastofnunar eins og lögin kveða á um. 

Með öðrum orðum er ekkert vitað á hvaða launakjörum 2000 þúsund erlendir starfsmenn er á eða hvort verið sé að borga þeim eftir íslenskum kjarasamningum eða ekki.  Það er alveg ljóst eins og Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft bent á að íslenskur vinnumarkaður og íslenskt samfélag er og var á engan hátt tilbúið til að taka við þeim gríðarlega fjölda erlends vinnuafls.  Dæmin sýna það svo sannarlega.

02
Nov

Atvinnurekendur halda áfram að níðast á erlendu vinnuafli!

Eftirlit með atvinnurekendum sem eru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu heldur áfram að skila árangri fyrir hina varnarlausu erlendu starfsmenn sem hingað koma til að starfa.  Félagið hefur verið að vinna að máli fyrir pólskan verkamann sem hingað kom til starfa í maí sl.  

Pólski verkamaðurinn hafði frétt af því að Verkalýðsfélag Akraness væri afar virkt í því að gæta hagsmuna fyrir erlent verkafólk.  Hann sagðist ekki hafa þorað að koma fyrr en hann var búinn að láta af störfum hjá fyrirtækinu af ótta við að missa starfið.  Hann sagði einnig að samlandar sínir væru afar tregir til að leita réttar síns til stéttarfélagsins af ótta við að verða vísað úr vinnu og jafnvel úr landi. Óskaði Pólverjinn eftir því að farið yrði yfir launaseðla hans frá því hann hóf störf hjá fyrirtækinu.  Í þeirri skoðun kom í ljós að það vantaði 174.126 kr. uppá að laun hans næðu þeim lágmarkslaunum sem kjarasamningar kveða á um og var hér einungis um þriggja mánaða tímabil að ræða.

Til dæmis vann Pólverjinn 360 tíma í júní og var einungis með jafnaðarkaup uppá 800 kr. á tímann. Hann vann sem sagt 187 yfirvinnutíma í þeim mánuði.  Í þessum mánuði er verið að kolbrjóta á réttindum mannsins.  Verkalýðsfélag Akraness hefur haft samband við atvinnurekandann og hefur hann fallist á að greiða umræddum Pólverja mismuninn.  Hann taldi sig hins vegar vera að gera vel við starfsmanninn og nefndi jafnframt að hann hefði heyrt að mjög algengt væri að atvinnurekendur væru að greiða erlendum verkamönnum jafnaðarkaup frá 700 og uppí rétt rúmar 1000 kr.  

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er sannfærður um að þetta er rétt hjá umræddum atvinnurekanda. Það er verið að þverbrjóta á réttindum erlendra starfsmanna út um allt.  Formaður félagsins hefur einnig vitneskju um að einstaka atvinnurekendur sendi Vinnumálastofnun ráðningarsamninga þar sem lágmarks kjarasamningar eru uppfylltir, en gera upp við erlendu starfsmennina á allt öðrum kjörum en ráðningasamningar sem sendir eru til Vinnumálastofnunar segja til um.  Það er gríðarlega erfitt að hafa eftirlit með því hvort atvinnurekendur séu að brjóta á erlendum starfsmönnum eða ekki og sér í lagi eftir að lögin um frjálst flæði launafólks frá hinum nýju aðildarríkum EES tóku gildi 1. maí sl.

Það er engin spurning að sú sprenging sem orðið hefur á innflutningi á erlendu vinnuafli frá hinum fátæku ríkum Austur - Evrópu hefur nú þegar stórskaðað það markaðslaunakerfi sem hér hefur verið við lýði áratugum saman.  Það er ekki bara það að erlent vinnuafl er oftar en ekki sett á lágmarkskjör, heldur er líka verið að greiða þessu fólki langt undir gildandi samningum eins mýmörg dæmi sanna.  Framferði þeirra atvinnurekenda sem brjóta á réttindum erlends vinnuafls getur hæglega gert það að verkum að áratuga löng barátta íslenskrar verkalýðshreyfingar fyrir bættum kjörum verði að engu.   

Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness mun beita sér af alefli fyrir því að á þessum málum verði tekið í næstu kjarasamningum af fullri hörku þannig að það verði ekki ávinningur fyrir atvinnurekendur að ráða hér ódýrt vinnuafl á smánarlaunum.  Krafan verður einfaldlega að vera sú að lágmarkslaun verði hækkuð til að ná þeim markaðslaunum sem verið er að greiða vítt og breitt í samfélaginu og þar af leiðandi verður mun minni ávinningur fyrir óprúttna atvinnurekendur að ná sér í ódýrt erlent vinnuafl. 

Það skal þó tekið fram að það eru alls ekki allir atvinnurekendur sem níðast á erlendu vinnuafli.  En því miður sýna dæmin það að þeir eru alltof margir sem það gera.

01
Nov

Gífurleg fjölgun erlendra félagsmanna í Verkalýðsfélagi Akraness

Samkvæmt félagaskrá Verkalýðsfélags Akraness hefur orðið gífurleg fjölgun á erlendum félagsmönnum á síðasta ári.  Í heildina eru 200 erlendir starfsmenn sem tilheyra félaginu eða sem nemur 9% af fullgildum félagsmönnum.  Reyndar telur formaður félagsins að mun fleiri erlendir starfsmenn séu að starfa á okkar félagssvæði en þeir séu einfaldlega ekki tilkynntir til Vinnumálastofnunar.  Félagið reynir að halda úti reglulegu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  En eftir að takmörkunum á frjálsu flæði launafólks var aflétt 1. maí sl. hefur reynst afar erfitt að sinna þessu eftirliti.

Langflestir erlendu starfsmennirnir koma frá Póllandi eða 120 manns, 40 koma frá Litháen, 22 frá Portúgal og síðan dreifast 18 erlendir félagsmenn nokkuð jafn á önnur lönd.

Það er alveg ljóst að það er hart sótt að því markaðslaunakerfi sem hefur verið við lýði hér á landi á undanförnum árum og áratugum með þessu gífurlega flæði ódýrs vinnuafls frá Austur-Evrópu. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image