• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Jul

Kjarasamningur undirritaður við Launanefnd sveitarfélaga

Þessa dagana er mikið um vöfflubakstur hjá RíkissáttasemjaraRétt í þessu skrifaði formaður félagsins undir kjarasamning við Launanefnd Sveitarfélaga vegna félagsmanna sinna sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit. Samningurinn er að mörgu leyti sambærilegur þeim sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði, en reyndar var verið að breyta launatöflu þar sem lífaldurshækkanir voru lagðar af og í staðinn voru tekin upp svokölluð persónuálög. 

Í hinum nýja samningi eru lágmarkslaun fyrir fullt starf eða 173,33 stundir kr. 196.708,-. Verði samningurinn samþykktur munu starfsmenn fá eingreiðslu að upphæð kr. 50.000 og miðast það við starfsmann í fullu starfi í mánuðunum mars-maí. Einnig mun koma önnur eingreiðsla 1. febrúar 2012 og er sú greiðsla kr. 25.000 m.v. fullt starf.

Þriðjudaginn 19. júlí mun samningurinn verða kynntur fyrir félagsmönnum sem starfa eftir umræddum kjarasamningi og að aflokinni kynningu verður hægt að kjósa um samninginn. Hægt er að sjá samninginn í heild sinni síðar með því að smella hér.

06
Jul

Annríki vegna kjarasamningagerðar

Töluvert annríki hefur verið við kjarasamningagerð undanfarna daga en nú er verið að leggja lokahönd á kjarasamning fyrir starfsmenn sveitarfélaga. Það eina sem eftir á að ganga frá eru sérákvæði sem Verkalýðsfélag Akraness hafði og er allt útlit fyrir að skrifað verði undir kjarasamninginn á morgun. Í framhaldinu mun formaður kynna samninginn þá félagsmenn sem starfa eftir samningi VLFA við launanefnd sveitarfélaga en í þessu tilfelli er bæði um að ræða félagsmenn hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit.

Einnig er töluvert að gerast varðandi kjaradeilu Klafa, en Samtök atvinnulífsins og forsvarsmenn Klafa óskuðu eftir formanni og trúnaðarmanni í dag til að undirbúa fundin hjá Ríkissáttasemjara á morgun. En eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá skellur verkfall á hjá Klafa á hádegi næsta þriðjudag ef ekki verður búið að leysa deiluna fyrir þann tíma.

Krafa félagsins í þessari deilu er hvellskýr, það er að starfsmenn Klafa fái sömu launahækkanir og um var samið fyrir starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland og ríkir alger einhugur og samstaða á meðal starfsmanna um að hvika hvergi frá þeirri sanngjörnu kröfu. 

05
Jul

Engin stefnubreyting á meðal forsvarsmanna Norðuráls

Fundað var vegna launaliðar kjarasamnings Norðuráls í húsakynnum Ríkissáttasemjara í gær, og er skemmst frá því að segja að enginn niðurstaða hafa orðið af þeim fundi.

Það kom fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þeir væru að skoða þessi mál, en engin stefnubreyting hafi orðið af þeirra hálfu varðandi það tilboð sem fyrirtækið hafði lagt fram, en það tilboð byggðist alfarið á því sem um var samið á hinum almenna vinnumarkaði, en þar áttu starfsmenn að hækka um 4,25% á þessu ári, 3,5% árið 2012 og 3,25% árið 2013.

Þessu hefur Verkalýðsfélag Akraness algerlega hafnað og mun aldrei koma til greina að samið verði á þessum nótum því eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki í áliðnaði sem hefur notið áhrifa af gengisfalli íslensku krónunnar og stórhækkaðs afurðaverðs sé sett undir sama hatt og fyrirtækis sem eiga í rekstrarerfiðleikum eins og til dæmis í byggingariðnaðinum.

Formaður félagsins kynnti einnig á fundinum í gær fyrir forsvarsmönnum fyrirtækisins þann launasamanburð sem félagið hefur gert vegna þessa kjarasamnings sem gerður var fyrir starfsmenn Fjarðaáls, en sá samanburður sýnir að launamunur á milli Fjarðaáls og Norðuráls getur numið í sumum tilfellum allt að 30% sem gerir það að verkum að það er tug þúsunda launamunur á milli þessa tveggja fyrirtækja fyrir sama vinnustundafjölda enda eru vaktakerfi þessara verksmiðja nánast eins.

Þetta eru niðurstöður sem starfsmenn, trúnaðarmenn og Verkalýðsfélag Akraness munu aldrei sætta sig við og liggur fyrir að krafa félagsins fyrir hönd starfsmanna verður að sömu launahækkanir og um var samið í Fjarðaál munu koma til handa starfsmönnum  Norðuráls. Starfsmenn eru algerlega sammála því að það tilboð sem liggur fyrir mun aldrei verða samþykkt í fyrirtækinu enda gefur þetta tilboð starfsmönnum einungis 15-19 þúsund króna launahækkun á mánuði sem þýðir að starfsmenn munu einungis fá um 10 þúsund krónur í vasann.

Það hefur komið fram á fjölmennum fundum sem VLFA hefur haldið að starfsmenn ætla að standa þétt saman í þessari baráttu og eru frekar tilbúnir að bíða eins lengi og þörf krefur til að ná fram þeirri sjálfsögðu kröfu sem er að þeir njóti sömu launahækkana og um var samið í Fjarðaáli enda eru engar forsendur fyrir öðru.

Næsti fundur hefur ekki verið boðaður fyrr en 22. ágúst og má segja að það sé engin ástæða til að funda meðan ekki verður hugarfarsbreyting á meðal forsvarsmanna Norðuráls. Þennan slag mun Verkalýðsfélag Akraness taka alla leið.

05
Jul

Fundað með Launanefnd sveitarfélaga í dag

Nú klukkan 10 mun formaður félagsins eiga fund í húsakynnum Ríkissáttasemjara með launanefnd sveitarfélaga, en nú liggja fyrir drög að nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar sem eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness. Þessi drög veita starfsmönnum Akraneskaupstaðar álíka launahækkanir og um var samið á hinum almenna vinnumarkaði 5. maí sl. og reiknar formaður fastlega með því að skrifað verði undir nýjan kjarasamning í dag.

05
Jul

Fundur hjá ríkissáttasemjara á fimmtudaginn vegna Klafa

Í gærmorgun höfðu forsvarsmenn Klafa samband við formann félagsins og óskuðu eftir því að verkfallinu yrði frestað um eina viku vegna þess að eigendaskipti voru að eiga sér stað í fyrirtækinu. Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá áttu Elkem Ísland og Norðurál 50% hvort í Klafa, en Klafi sér um allar út- og uppskipanir og aðra þjónustu fyrir áðurnefnd fyrirtæki.

Að höfðu samráði við starfsmenn og trúnaðarmann ákvað Verkalýðsfélag Akraness að verða við þessari ósk og fresta verkfallsaðgerðum til hádegis 11. júlí, en ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar fimmtudaginn 7. júlí.

Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá er krafa starfsmanna Klafa að þeir fái sömu launahækkanir og eingreiðslu og um var samið við starfsbræður þeirra hjá Elkem Ísland, enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland og hafa ætíð verið með mjög sambærileg laun og greidd hafa verið í Járnblendiverksmiðjunni. Nú er bara að sjá og vona að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn Klafa sem fyrst og er formaður hóflega bjartsýnn á að það takist áður en til verkfallsaðgerða kemur. En það er morgunljóst að félagið og starfsmenn munu ekki hvika frá sinni sanngjörnu kröfu sem er sú sem hér hefur verið rakin.

01
Jul

Írskir dagar á Akranesi

Hér á Akranesi eru nú að ganga í garð Írskir dagar þar sem boðið verður upp á glæsilega dagskrá alla helgina og hvetur formaður félagsins alla félagsmenn sína til að taka þátt í þessari miklu fjölskylduhátíð.

Það er ljóst að strax eftir helgi mun alvara lífsins taka við á nýjan leik því eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni mun boðað verkfall hjá starfsmönnum Klafa hefjast á þriðjudaginn. Strax á mánudaginn verða tveir fundir í húsakynnum ríkissáttasemjara, annars vegar vegna kjarasamnings Klafa og hins vegar vegna launaliðar Norðuráls en mikið ber á milli samningsaðila í báðum þessum deilum. 

Einnig liggur fyrir að fljótlega eftir helgi muni félagið ganga frá kjarasamningi fyrir starfsmenn sveitarfélaga og verður sá samningur kynntur fyrir starfsmönnum um leið og hann hefur verið undirritaður.

Á þessu sést að það er mikið annríki framundan í næstu viku í hinum ýmsu málum er lúta að hagsmunum félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness. Á þeirri forsendu er mikilvægt að félagsmenn nýti sér þessa glæsilegu hátíð sem nú er að ganga í garð og geri sér glaðan dag í ljósi þeirra staðreynda að framundan eru hörð átök varðandi áðurnefndar kjaradeilur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image