• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fundur með starfsmönnum Norðuráls í Bíóhöllinni Frá fundi með starfsmönnum Norðuráls í júní 2011
26
Aug

Fundur með starfsmönnum Norðuráls í Bíóhöllinni

Það er ekki hægt að segja að útlitið sé ýkja bjart hvað varðar lausn á kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við forsvarsmenn Norðuráls. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá ber himin og haf á milli deiluaðila, miðað við það tilboð sem forsvarsmenn Norðuráls lögðu fram samningafundinum á mánudaginn var.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness og starfsmanna er jöfnuður á við verksmiðjur í sambærilegri starfsgrein, en launamunur á milli Alcan, Fjarðaál og Elkem Ísland er sláandi eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni.  Í fyrradag gekk Alcan frá samningi við sína starfsmenn og er launamunur Norðuráls og Alcan eftir samninginn orðinn 12% og ef tekið er tillit til stóriðjuskólans sem Alcan býður sínu starfsfólki uppá er launamunurinn 23%. 

Launamunurinn á milli Elkem Ísland og Norðuráls er 11% en búið er að semja fyrir starfsmenn Elkem og síðan er launamunurinn á milli Fjarðaáls og Norðuráls á bilinu 15% og uppí allt að 30%

Á þessu sést að staðan er ekki ýkja björt og lausn á þessari erfiðu deilu ekki í sjónmáli og það er formanni Verkalýðsfélags Akraness algerlega hulin ráðgáta hví í ósköpunum forsvarsmenn og eigendur Norðuráls halda að þeir komist upp með að greiða langtum lægri laun en sæmbærilegar verksmiðjur hér á landi.  Ef eigendur Norðuráls halda að formaður VLFA og starfsmenn hafi þolinmæði til að sætta sig við að rekin sé einhver láglaunastefna ár eftir ár í Norðuráli þá er það mikill misskilningur vegna þess að þolinmæðin er gjörsamlega að þrotum komin.

Eins og áður sagði þá var gengið frá nýjum kjarasamningi við Alcan í fyrradag og mun atkvæðagreiðslu um þann samning ljúka 8. september og í beinu framhaldi af þeirri niðurstöðu mun formaður Verkalýðsfélags Akraness boða til fundar með starfsmönnum í Bíóhöllinni þar sem sem farið verður yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin og það verða starfsmenn sjálfir sem munu taka ákvörðun um hvert framhaldið verður í þessum viðræðum.  En það hefur verið gríðarlega jákvætt að finna þá miklu samstöðu sem ríkir á meðal starfsmanna í þessari erfiðu deilu og greinilegt að starfsmenn Norðuráls sætta sig ekki við þessa mismunun stundinni lengur.

Rétt er að geta þess að sú bókun sem Verkalýðsfélag Akraness náði í gegn í síðasta samningi er gríðarlega mikilvæg í þessari erfiðu deilu.  En bókunin tryggir með afgerandi hætti að ávalt skuli launaliðir kjarasamnings Norðuráls gilda frá þeim tíma sem samningar renna út. Með öðrum orðum, starfsmenn eru tryggðir fyrir því að þótt samningar dragist á langinn þá munu þeir gilda frá þeim tíma sem fyrri samningur rann út.

Fundurinn í Bíóhöllinni verður auglýstur mjög vel þegar nákvæm dagsetning liggur fyrir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image