• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
May

1. maí ræða formanns VLFA og SGS

Kæru félagar

Ég vil byrja á því að óska okkur öllum innilega til hamingju með baráttudag verkalýðsins. Það er afar ánægjulegt að við getum nú komið saman en síðustu tvö ár hefur þurft að fresta 1. maí hátíðarhöldum vegna Covid.

Það verður ekki hjá því komist að byrja á því að minnast á þann hrylling sem íbúar Úkraínu þurfa að búa við eftir að Rússar tóku þá ótrúlegu ákvörðun að ráðast með her sinn inn í fullvalda og frjálst ríki. Það er með ólíkindum að við séum að horfa upp á dráp á börnum, konum og gamalmennum á 21. öldinni og það í miðri Evrópu. Í dag kom t.d. fram í fréttum að bara í Maríupól er talað um að 20 þúsund almennir borgar hafi fallið.

Það er svo sorglegt að sjá forseta Rússlands sturta niður í holræsið öllum siðferðisgildum þjóða sem lúta að því að virða landamæri sem og alþjóðalög. Það er einnig ömurlegt að sjá mennskuna breytast í ómennsku í þessu stríði. Að sjálfsögðu hefur verkalýðshreyfingin fordæmt innrás Rússlands sem er skýrt brot á alþjóðalögum.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað grundvelli mannúðarsjónarmiða að félaginu sé skylt að bregðast við og aðstoða flóttafólk sem hingað kemur. Stjórn VLFA ákvað því að leggja sitt lóð á vogarskálarnar við móttöku flóttafólks frá Úkraínu til Íslands með fjárstuðningi og með því að lána tímabundið sumarhús sitt í Ölfusborgum í þetta brýna verkefni.

Ég veit að nánast heimsbyggðin öll á sér enga ósk heitari en að þessu tilgangslausa stríði ljúki án tafar.

Ágætu félagar.

Það er engum vafa undirorpið að íslensku þjóðinni er stórkostlega misboðið vegna útboðs í Íslandsbanka, en enn og aftur koma stjórnvöld og leggja út rauðan dregil fyrir yfirstéttarelítuna á kostnað almennings.

Það er sorglegt að sjá að stjórnvöld dekka upp allsnægtaborð fyrir marga sem voru leikendur og gerendur bankahrunsins með því að bjóða þeim að kaupa hlut í Íslandsbanka sem íslenska þjóðin á og það á „góðu“ undirverði.

En nú liggur fyrir að hluturinn var seldur á 117 krónur en í þetta skipti var 23% hlutur í Íslandsbanka seldur en söluverð nam tæpum 53 milljörðum. Í dag stendur hluturinn í 124 krónum og hefur því hækkað um 6% sem þýðir að þessir 209 aðilar hafa hagnast á nokkrum dögum á kostnað almennings um 3,2 milljarða,

En rifjum líka upp söluna á Íslandsbanka frá því í júní 2021 en þá seldu stjórnvöld 35% hlut í bankanum fyrir rúma 50 milljarða og var hver hlutur seldur þá á 77 krónur en í dag stendur hluturinn í 124 krónum sem þýðir að þeir sem tóku þátt í útboðinu í júní í fyrra hafa hagnast um 34 milljarða á tæpu einu ári.

Með öðrum orðum þá eru stjórnvöld búin að gefa yfirsnobbelítunni tæpa 37 milljarða með þessum gjörningi sínum og það sumum aðilum sem báru ábyrgð á gríðarlegum hörmungum sem bankahrunið olli íslenskum heimilum.

Ég vil minna á að það kostaði skattgreiðendur um 450 milljarða að endurreisa fjármálakerfið á sínum tíma en núna eru þessir aðilar sem voru gerendur og leikendur í hruninu verðlaunaðir ríkulega með því að fá að kaupa hlut í bankanum með gríðarlegum afslætti!

Hvenær verður nóg, nóg hjá þessum græðgispungum? Eitt er víst að íslensk alþýða þessa lands hefur fengið nóg og núna er kominn tími til að þeir sem bera ábyrgð á þessum gjörningi axli ábyrgð. Að selja eign þjóðarinnar með 37 milljarða ávinningi til handa þessum aðilum er einn risastór skandall!

Ágætu félagar

Nú erum við á kjarasamningsári og stéttarfélögin vítt og breitt um landið eru byrjuð að hefja undirbúning að kröfugerð sinni.

Það er mitt persónulega mat að hugmyndafræðin sem lífskjarasamningurinn var byggður á hafi heppnast nokkuð vel og ég tel að við eigum að byggja áfram á þeirri hugmyndafræði í komandi kjaraviðræðum.  

Enda sýna allar kjararannsóknir að okkur tókst bara nokkuð vel til við að auka ráðstöfunartekjur verkafólks í síðasta samningi.

Já, það var stigið jákvætt skref í átt að því að lagfæra kjör lágtekjufólks í lífskjarasamningnum og nú liggur fyrir að svokallaður hagvaxtarauki sem samið var um í síðasta samningi mun koma til útborgunar 1. maí.

Við þurfum að leggja ofuráherslu á að samið verði í komandi kjarasamningum með krónutöluhækkunum eins og gert var í síðasta samningi. Enda liggur fyrir að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Tökum dæmi: Gefum okkur það að samið yrði um 6% launahækkun. Þá myndi lágmarkstaxti verkafólks hækka um 21.000 kr. á mánuði. en forstjórar í kauphöllinni sem er með 5,6 milljónir í meðallaun myndu hækka um 336.000 kr. á mánuði. Takið eftir, almenningi og launafólki er talin trú um að bæði verkamaðurinn og forstjórnar í kauphöllinni hafi fengið jafn mikla launahækkun því þeir fengu sömu prósentuhækkun. Staðreyndin er að forstjórinn fékk 315 þúsundum fleiri krónur í sitt launaumslag en verkamaðurinn.

Á þessu sést sú blekking sem á sér stað þegar samið er með prósentum og munum að ekkert okkar fer með prósentur út í búð. Við greiðum allt með krónum ekki prósentum!

Það er ljóst að við verðum að fá stjórnvöld myndarlega að borðinu í komandi kjarasamningum en í síðasta kjarasamningi var aðgerðapakki stjórnvalda metinn á 80 milljarða. Í komandi kjarasamningum verðum við að vera með skýlausa kröfu á stjórnvöld að létta enn frekar á skattbyrði lágtekjufólks og koma þarf mun betur til móts við tekjulágar fjölskyldur í formi hærri barnabóta-, húsaleigubóta, og vaxtabóta.

Það er morgunljóst að það þarf þjóðarátak í húsnæðismálum enda eru fasteignamarkaðurinn og leigumarkaðurinn eins og vígvöllur um þessar mundir.

Við verðum einnig að tryggja að vaxtastig hér á landi verði stöðugt enda eru vaxtagjöld heimilanna afar stór kostnaðarliður. En okkur tókst í síðustu samningum að skapa forsendur fyrir stýrivaxtalækkun en þeir fóru úr 4,25% niður í 0,75% þótt vissulega séu vextir á uppleið að nýju, sem er áhyggjuefni en núna standa þeir í 2,75%

Við skulum muna að þúsundir heimila juku ráðstöfunartekjur sínar á árunum 2020 og 2021 með því að endurfjármagna húsnæðislán sín og mörgum tókst að losna úr hlekkjum og viðjum verðtryggingar í kjölfar lækkandi vaxtakjara. Á þeirri forsendu verðum við að setja sömu skilyrði í komandi kjarasamningum um vaxtalækkun eins og gert var í lífskjarasamningnum.

Það er eins og áður sagði mitt mat að við þurfum að halda áfram að stíga þétt skref í að lagfæra kjör verkafólks og þau skref þurfa svo sannarlega að verða fleiri og kröftugri á næstu misserum. Enda er það lýðheilsumál að lágmarkslaun dugi frá mánuði til mánaðar og lágtekjufólk geti haldið mannlegri reisn á launum sínum. 

Þótt ágætlega hafi tekist til í síðustu kjarasamningum má alltaf gera betur og munum að kjarabarátta launafólks er eilífðarverkefni sem lýkur aldrei!

Grátkór auðvaldsins

En kæru félagar. Munum að þegar kjarasamningar verkafólks eru að losna þá hefur aldrei verið svigrúm til launahækkana, ALDREI. Það er ekki bara að ekkert svigrúm sé til staðar, heldur er grátkór auðvaldsins ræstur út í hvert sinn og kemur að kjarasamningsgerð fyrir verkafólk. Við sem tökum þátt í kjarasamningsgerð fyrir hönd okkar félagsmanna þekkjum þennan grátkór vel.

Því þessari rispuðu plötu grátkórsins er ætíð skellt á fóninn, um að verkafólk þurfi að axla ábyrgð til að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagi.

Þessi rammfalski grátkór syngur hátt, „ætlar verkafólk að ógna stöðugleikanum, stuðla að hækkun vaxta og skapa óðaverðbólgu með óraunhæfum kröfum?“

En takið eftir félagar, þeir einu sem ekki datt til hugar að fara eftir því sem samið var um í lífskjarasamningnum voru efri lög samfélagsins.

Auðvaldsstéttin hefur haldið áfram að skammta sér ofurhækkanir og bónusa eins og enginn sé morgundagurinn. En þessir hræsnarar eru síðan að öskra á öllum torgum hvað verkalýðshreyfingin sé ofboðslega óábyrg!

Ég veit að flestir muna þegar fulltrúar seðlabankans héldu blaðamannafund fyrir skemmstu og húðskömmuðu verkalýðshreyfinguna fyrir að hafa gengið frá kjarasamningum og sögðu þá „úr takti við raunveruleikann“ og þeir sögðu einnig að það væri óheppilegt að það væri að koma til greiðslu á hagvaxtarauka!

Hafa þessir aðilar sem eru alltaf að öskra á verkafólk um að sýna hófsemi í sínum launakröfum gert það? Nei, svo sannarlega ekki!

Í því samhengi er rétt að benda á að meðallaun í seðlabankanum hafa hækkað um 113.000 kr. á meðan verkafólk fékk 65 þúsund kr.

Hvað með þingmenn sem hafa líka verið að gagnrýna hvað við erum frek og óábyrg. Jú, þingfararkaupið hefur hækkað um 184 þúsund á mánuði meðan verkafólk hefur hækkað um 65 þúsund.

Takið eftir kæru félagar, í frétt frá 15. mars um hækkun á mánaðarlaunum nokkurra forstjóra sem kom til framkvæmdar á síðasta ári kom eftirfarandi fram um launahækkanir hjá nokkrum forstjórum:

  • • Forstjóri Icelandair: Hækkun á mánaðarlaunum um 1,8 milljón
  • • Bankastjóri Kviku: Hækkun á mánaðarlaunum um 1 milljón
  • • Forstjóri Síldarvinnslunnar: Hækkun á mánaðarlaunum um 840 þúsund
  • • Forstjóri OR: Hækkun á mánaðarlaunum um 600 þúsund
  • • Forstjóri Eimskips: Hækkun á mánaðarlaunum um 500 þúsund

Þessu til viðbótar liggur fyrir að meðal­laun for­stjóra þeirra 20 félaga sem skráð voru í Kauphöll Íslands á síð­asta ári voru rúm­lega 5,6 millj­ónir króna á mánuði. Alls hækk­uðu laun þeirra að með­al­tali um 444 þús­und krón­ur á mánuði á síðasta ári.

Rétt er að geta þess að á sama tíma og þessar ofurhækkanir áttu sér stað hækkuðu laun verkafólks á launatöxtum um 24.000 kr. á mánuði! Hugsið ykkur hræsnina sem veltur upp úr þessu fólki.

Ég verð að rifja upp það sem forstjóri Icelandair Group sagði í ljósi þess að þetta er maður sem hækkaði í launum um tæpar 2 milljónir á mánuði. En í fréttum í fyrra sagði hann orðrétt: „Launahækkanir hér á Íslandi hafa verið, leyfi ég mér að segja, algjörlega út úr kortinu miðað við samkeppnislöndin.“ Maðurinn sem lét þessi orð falla er með 7 milljónir á mánuði og hækkaði um tæpar 2 milljónir í mánaðarlaunum. Þvílík hræsni.

Ekki má heldur gleyma hótuninni frá forstjóra Festi sem rekur ELKO, Krónuna og N1 sem kom fram í fréttum í lok síðasta árs. En orðrétt sagði forstjóri Festi að „það séu bara tvær leiðir til að takast á við greiðslu á hagvaxtaraukanum, það er annaðhvort að hækka vöruverð eða að fækka starfsfólki.“

Þessi maður er með 6,1 milljón í mánaðarlaun og hækkaði um 1 milljón á mánuði árið 2021. Það er greinilegt að siðferðiskompás þessara manna er verulega vanstilltur.

Hugsið ykkur kæru félagar.

Svo koma svona græðgispungar og væla yfir því að fólkið á gólfinu sem skapar arðinn hjá fyrirtækinu sé að fá of miklar launahækkanir.

Ég krefst þess að forstjórar stórfyrirtækja hafi framvegis vit á því að „steinhalda kjafti“ þegar kemur að því að semja um kaup og kjör verkafólks á íslenskum vinnumarkaði enda sýna þessi bláköldu dæmi að þeim sé það hollast.

Arðgreiðslur

Já, nú hefur þessi rammfalski grátkór verið ræstur út til að kyrja sinn ömurlega söng eins og vanalega um að ekkert sé til skiptanna og hvort við ætlum að ógna hinum margfræga stöðugleika. En þessi rammfalski grátkór sér ekkert athugavert við þessar gríðarlegu launahækkanir hjá æðstu stjórnendum fyrirtækja sem ég fór hér yfir.

En hvað með arðgreiðslurnar til eigenda fyrirtækja. Í fyrra námu þær 80 milljörðum og kom fram í fréttum að áætlað sé að þær geti numið 200 milljörðum á þessu ári. Já takið eftir 200 milljörðum en það kostar ca 50 til 60 milljarða að ganga frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Þessa daganna eru arðgreiðslur byrjaðar að streyma til eigenda og hvað segir elítan við þessum arðgreiðslum sem nema 60 milljörðum svona í fyrsta gang? Jú, orðrétt segir í frétt sem Hörður Ægisson skrifaði inni á Vísi: Fjárfestar eiga von á 60 milljörðum í arðgreiðslur og það gæti virkað sem vítamínsprauta fyrir markaðinn.

 

Já, arðgreiðsla sem nemur jafn hárri upphæð og það kostar að ganga frá kjarasamningum virkar núna sem vítamínsprauta fyrir eigendur og fjárfesta fyrirtækja!

En þessi sami fréttamaður gagnrýndi verkalýðshreyfinguna harðlega í síðustu kjarasamningum og fann forystunni allt til foráttu. Hann sagði meðal annars að verkalýðsforystan væri á villigötum – engar lausnir, aðeins hótanir og hann hefur sagt að þegar lífskjarasamningurinn var undirritaður vorið 2019 hafi verið fallist á meiri launahækkanir en innistæða var fyrir.

Málið er að arðsemisgræðgin er búin að heltaka eigendur stórfyrirtækja og sjáið hagnaðinn hjá viðskiptabönkunum þremur en hann nam 81 milljarði á síðasta ári og hafa viðskiptabankarnir hagnast um 1000 milljarða frá hruni. Munum að þessi hagnaður kemur m.a. vegna okurvaxta og himinhárra þjónustugjalda á heimili og neytendur.

Það þýðir ekkert fyrir okkur í verkalýðshreyfingunni að horfa framhjá ábyrgð lífeyriskerfisins þegar fjallað er um arðsemisgræðgi. Enda eru lífeyrissjóðirnir orðnir aðaleigendur á matvæla- eldsneytis-trygginga- fjarskipta- og flutningamarkaði og nemur eignahlutur þeirra þetta á bilinu 50 til 70% í þessum atvinnugreinum. En eins og allir vita þá öskra lífeyrissjóðirnir á aukna arðsemi daginn út og inn og þeir vilja meiri arðsemi í gegnum þessi fyrirtæki í dag en þeir fengu í gær.

Þetta kallar á hærra vöruverð, þjónustugjöld, hærri vexti, verðtryggingu, lægra kaupgjald og svona mætti lengi telja. Það eru jú alltaf neytendur sem á endanum greiða fyrir alla arðsemi sem fyrirtækin þurfa að skila.

Með öðrum orðum, launafólk er lamið fram og til baka á meðan það er á vinnumarkaði vegna arðsemisgræðgi stórfyrirtækja sem lífeyrissjóðirnir eiga að stærstum hluta og svo þegar fólk kemst á eftirlaun þá er það svo lúbarið að það stendur vart undir sjálfu sér.

Verkalýðshreyfingin þarf og verður að taka á þessari arðsemisgræðgi stórfyrirtækja í gegnum lífeyrissjóðina og taka stöðu með launafólki og neytendum enda er arðsemisgræðgin að tröllríða íslensku samfélagi á kostnað launafólks og neytenda!

En hver er arðsemiskrafa verkafólks? Jú, hún er að það sé lágmarkskrafa að laun dugi í það minnsta fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og verkafólk geti staðið við sínar skuldbindingar og búið við tryggt búsetuöryggi á viðráðanlegum kjörum.

Að lokum þetta kæru félagar.

Við verðum að halda áfram að stíga þétt og kröftug skref í baráttunni fyrir bættum kjörum verkafólks. Það er hins vegar mikilvægt að allt verkafólk átti sig á því að réttinda- og kjarabarátta er eilífðarverkefni sem lýkur aldrei, hvorki í komandi kjarasamningum eða í kjarasamningum framtíðarinnar

Það er hins vegar ekkert náttúrulögmál að lágmarkslaun dugi ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar, eða að hér viðgangist okurvextir, okurleiga, húsnæðisskortur og hátt vöruverð á öllum sviðum. 

Nei, ekkert af þessu er náttúrulögmál heldur mannanna verk sem hægt er að breyta. Það eina sem þarf er kjarkur, vilji og þor!

 

28
Apr

1. maí á Akranesi

Verkalýðsfélag Akraness, VR, Sameyki, FIT, Kennarasamband Íslands og Sjúkraliðafélag Íslands standa fyrir dagskrá á hátíðar og baráttudegi verkalýðsins 1. maí 2022.

Byrjað verður á því að safnast saman við Skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness að Þjóðbraut 1 klukkan 14:00 og genginn hringur að bæjarskrifstofum Akraneskaupstaðar þar sem hátíðardagskrá hefst í sal eldri borgara á Akranesi.

Dagskrá:

  • Kvennakórinn Ymur syngur nokkur lög
  • Formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambands Íslands flytur ræðu
  • Fjöldasöngur
  • Boðið verður uppá glæsilegt kaffihlaðborð sem er í umsjón Línudagsfélags eldri borgara

Frítt verður í bíó fyrir börnin í Bíóhöllinni og verða tvær sýningar í boði önnur klukkan 13:00 og síðari klukkan 16:00. ATH! Foreldrar þurfa að nálgast rafræna frímiða hér.

20
Apr

Hópuppsögn Eflingar er á ábyrgð lýðræðislega kjörinnar stjórnar félagsins

Eðlilega hefur hópuppsögn á skrifstofu Eflingar vakið upp mikla undrun og gremju víða innan verkalýðshreyfingarinnar.

Enda blasir það við stéttarfélögin vítt og breitt um landið geta ekki stutt hópuppsagnir af þessum toga, enda hefur það verið eitt af baráttumálum stéttarfélaganna að berjast gegn slíkum hópuppsögnum á hinum íslenska vinnumarkaði.

Það er skoðun formanns félagsins að það hafi verið mistök hjá lýðræðis kjörinni stjórn Eflingar að velja hópuppsögn til að ráðast í þær nauðsynlegu skiplagsbreytingar sem þau höfðu boðað í sinni kosningabaráttu. Það er mat formanns að stjórn Eflingar hefði getað náð fram þeim skiplagsbreytingum án þess að grípa til þessara hópuppsagna.

Það hefur vart farið framhjá neinum sem fylgjast með verkalýðsbaráttu að það eru búnar að vera væringar inná skrifstofu Eflingar um allanga hríð og því má segja að það hafi legið í loftinu að gerðar yrðu skiplagsbreytingar á starfsemi skrifstofunnar eins og Baráttulistinn boðaði í sinnu kosningabaráttu. Hins vegar kom það formanni VLFA á óvart að þessi róttæka leið skildi hafa verið farin eins og hópuppsögn

Að því sögðu liggur fyrir að formaður félagsins getur ekki stutt hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar eða aðrar hópuppsagnir sem eiga sér stað á íslenskum vinnumarkaði enda ganga hópuppsagnir algerlega gegn hans gildum og baráttu fyrir atvinnuöryggi og lífsafkomu launafólks á íslenskum vinnumarkaði.

Það er alltaf ömurlegt og hræðilegt þegar launafólk missir atvinnuöryggi og lífsviðurværi sitt og ekkert annað hægt að gera en að harma þegar slíkt gerist.

Þessi aðgerð að beita þessu vafasama tæki sem hópuppsögn er liggur alfarið á ábyrgð lýðræðis kjörinnar stjórnar Eflingar og það er hún ein sem ber ábyrgð á þessari ákvörðun. En formaður ítrekar að það er hans bjargfasta skoðun að hér hafi verið gerð mistök enda hefði verið hægt að ná fram þeim skipulagsbreytingum sem stjórn taldi nauðsynlegar án hópuppsagna.

Í öll þau skipti sem uppsagnir eiga sér stað og er sama hvort það eru hóp- eða einstaklingsuppsagnir þá er það skilda stéttarfélaga að standa vörð um réttindi sinna félagsmanna og tryggja að farið sé í hvívetna eftir lögum, reglum og að kjarasamningsbundin réttindi séu virt.

Þetta mál er allt hið ömurlegasta og vonast formaður til þess að allir starfsmenn sæki aftur um starf og eins margir og kostur er fái endurráðningu. En eins og staðan er í dag veit enginn hvort allir verði endurráðnir eða enginn og því erfitt að vera að fabúlera um hvað muni gerast þegar ekkert liggur fyrir í þeim efnum þessa stundina.

Til að svara spurningunni aftur um hvort formaður styðji þessa hópuppsögn hjá Eflingu, þá er stutta svarið að sjálfsögðu, nei, ekkert frekar en aðrar hópuppsagnir sem eru á íslenskum vinnumarkaði og vill formaður ítreka að hans mat er að hægt hefði verið að ná fram skipulagsbreytingum með öðrum hætti en hópuppsögn.

Þessari skoðun vill formaður koma á framfæri því sumar fyrirsagnir í fjölmiðlum hafa ekki verið í samræmi við það sem formaður hefur sagt. Formaður VLFA ber svo sannarlega traust til Sóveigar Önnu hvað baráttu fyrir kjörum þeirra sem höllustum fæti standa en með því er hann ekki að styðja þessar hópuppsagnir og hann er ekki að taka upp hanskann hvað þessar hópuppsagnir varðar.  En hann tekur hanskann upp fyrir henni sem öfluga baráttukonu fyrir að standa vörð um þá sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði.

Formaður hefur einnig sagt í fjölmiðlum að hann og Sólveig Anna séu alls ekkert alltaf sammála en eitt eru þau algjörlega sammála um og það er það sem lýtur að því að tryggja að lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og lágtekjufólk geti haldið mannlegri reisn. Þar er formaður VLFA og formaður Eflingar algerir samherjar og er það formanni til efs að til sé meiri hugsjónarmanneskja en Sólveig Anna þegar kemur að því að berjast fyrir kjörum þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Þetta er staðreynd sem ekki er hægt að véfengja enda talar barátta og árangur Sólveigar Önnu hvað það varðar algerlaga fyrir sig.

06
Apr

Hagvaxtarauki tók gildi 1. apríl sl.

Samið var í síðustu kjarasamningum, í fyrsta skipti, um viðauka sem tæki mið af stöðu hagkerfisins. Með þessu móti myndi launafólk fá fasta krónutölu í launahækkun á mánaðarlaun sín ef ákveðin hagvaxtarauki næðist. Til þess að hagvaxtaraukinn virkist þurfti hagvöxtur á mann að verða meiri en 1%. Fyrir árið 2021 hækkaði hagvöxtur á mann um 2,53% milli ára. Þar með var félagsfólki sem tekur laun eftir kjarasamningum SGS tryggð hækkun á mánaðarlaunataxta um 10.500 kr. og hækkun á almenn laun um 7.875 kr. á mánuði skv. kjarasamningi.

Samið var um að hækkunin kæmi til greiðslu 1. maí og því hækka taxtar og mánaðarlaun frá 1. apríl.

Rétt er að geta þess að þessi 10.500 kr. hækkun er til viðbótar þeim taxtahækkunum samkvæmt kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitafélag og ríkið sem hækkuðu taxtar um 25 þús. kr. 1. Janúar 2022 en almenn hækkun var 17.250 kr.

Hér er er hægt að sjá uppfærða launataxta 

26
Mar

Formaður VLFA kosinn formaður Starfsgreinasambands Íslands

Í gær á þingi SGS var Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness kosinn formaður Starfsgreinasambands Íslands en rétt er að geta þess að SGS er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ með samtals um 72 þúsund félagsmenn.

Kosið var á milli hans og Þórarins Sverrissonar formanns stéttarfélags Öldunnar í Skagafirði. Vilhjálmur fékk 54% atkvæða og kom fram í ræðu hans eftir að kjörinu hafi verið lýst að hann væri djúp snortinn yfir þessum stuðningi og traust sem þingfulltrúar SGS hefðu sýnt honum við að gegna þessu krefjandi verkefni sem er að gegna forystu SGS.

Vilhjálmur fór yfir í ræðu sinni um hvaða mál hann hefur lagt mestu áherslu á, á undanförnum árum en þau hafa m.a. verið eftirfarandi:

En hver eru helstu áherslumálin mín sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni á liðnum 17 árum?

Jú, þau hafa verið eftirfarandi:

  • Ég hef ætíð lagt ofuráherslu á að samið sé í formi krónutöluhækkana, enda liggur fyrir að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gera ekkert annað en að auka ójöfnuð á íslenskum vinnumarkaði.
  • Það þarf að tryggja réttarstöðu launafólks gagnvart grófum kjarasamningsbrotum með skýrum févítis ákvæðum í lögum og/eða í kjarasamningum. Einnig er brýnt að tryggja að launafólk tapi ekki launakröfum sínum á grundvelli „tómlætis“ fyrir dómstólum.
  • Það þarf að berjast áfram gegn okurvöxtum, verðtryggingu og græðgisvæðingu fjármálakerfisins.
  • Það þarf að styrkja húsnæðismarkaðinn og stöðu leigjenda m.a. með því að setja á leiguþak.
  • Það þarf að endurskoða lífeyrissjóðskerfið þar sem hagsmunir sjóðsfélaga verði hafðir að leiðarljósi og tryggja þarf að lífeyrissjóðirnir komi að þjóðarátaki í uppbyggingu á húsnæði fyrir tekjulágt fólk á íslenskum húsnæðismarkaði.
  • Það er einnig mikilvægt að halda áfram að létta á skattbyrði þeirra tekjulægstu.
  • Taka þarf á arðsemisgræðgi fyrirtækja enda eru það á endanum launafólk og neytendur sem þurfa að greiða fyrir arðsemismarkmið fyrirtækja í formi hærra vöruverðs og lægra kaupgjalds.
  • Síðast en ekki síst hef ég ætíð barist gegn öllum hugmyndum um að komið verði á nýju vinnumarkaðsmódeli í anda Salek samkomulagsins, enda gengur það út á að skerða og takmarka samnings- og verkfallsrétt launafólks. Mikilvægt er fyrir launafólk að muna að samningsfrelsi og verkfallsréttur launafólks er hornsteinninn í íslenskri verkalýðshreyfingu og þann rétt þarf að verja með öllum tiltækum ráðum.

Í lok ræðurnar sem kom að við verðum að halda áfram að stíga þétt og kröftug skref í baráttunni fyrir bætum kjörum verkafólks. Það er hins vegar mikilvægt að allt verkafólk átti sig á því að réttinda- og kjarabarátta er eilífðarverkefni sem lýkur aldrei, hvorki í komandi kjarasamningum eða í kjarasamningum framtíðarinnar

Það er hins vegar ekkert náttúrulögmál að lágmarkslaun dugi ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar, eða að hér viðgangist okurvextir, okurleiga, húsnæðisskortur og hátt vöruverð á öllum sviðum. 

Nei, ekkert af þessu er náttúrulögmál heldur mannanna verk sem hægt er að breyta. Það eina sem þarf er kjarkur, vilji og þor!

10
Mar

Verkalýðsfélag Akraness veitir úkraínsku flóttafólki neyðaraðstoð

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fordæmir innrás Rússlands í frjálst og fullvalda ríki Úkraínu sem er skýrt brot á alþjóðalögum og við styðjum allar friðsamlegar aðgerðir sem bundið geta enda á stríðið.

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness telur á grundvelli mannúðarsjónarmiða að félaginu sé skylt að bregðast við og aðstoða flóttafólk sem hingað kemur vegna stríðsástandsins sem nú geisar í þeirra landi. Stjórn VLFA hefur því ákveðið að leggja sitt lóð á vogarskálarnar við móttöku úkraínsk flóttafólks til Íslands með fjárstuðningi og með því að lána tímabundið sumarhús sitt í Ölfusborgum í þetta brýna verkefni.

Auk þessa mun félagið styrkja hjálparstarf vegna flóttafólksins frá Úkraínu um eina evru fyrir hvern félagsmann eða um 500.000 kr.

Stjórn VLFA skorar jafnframt á önnur stéttarfélög hér á landi að leggja sín sumarhús t.d. í Ölfusborgum fram í þetta mannúðarverkefni En í Ölfusborgum eru 38 heilsárs sumarhús fullbúin og klár til notkunar ef þörf er á.

Það er mat stjórnar VLFA að mikilvægt sé að verkalýðshreyfingin sé samstíga í að bjóða fram þessa aðstoð, en með samstilltu átaki stéttarfélaga í Ölfusborgum væri hægt að skapa 38 fjölskyldum eða um 190 manns húsaskjól. Stjórn VLFA er sannfært um að það væri líka styrkur og stuðningur fyrir þetta fólk að vera allt saman á sama stað, enda getum við vart sett okkur í spor þessa fólks.

Á grundvelli mannúðar og manngæsku eigum við í verkalýðshreyfingunni að bjóða m.a. fram þennan möguleika að lána byggðina í Ölfusborgum til að hjálpa þessu fólki sem er að takast á við hörmungar sem ekkert okkar getur ímyndað sér, en eins og fram hefur komið í fréttum er flóttafólk frá Úkraínu að meirihluta konur og börn.

Samþykkt af stjórn Verkalýðsfélags Akraness 9. mars 2022.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image