• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Oct

Frá aldamótum hafa launahækkanir ekki haft áhrif á verðbólgu

Ásgeir Daníelsson, fyrrverandi forstöðumaður á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands, var með vægt til orða tekið afar fróðlega kynningu á málstofu í Seðlabanka Íslands 13. september sl.
Þessi kynning var m.a. um áhrif launahækkana á þróun verðlags á Íslandi og niðurstöðurnar eru sláandi. En fram kom í þessu erindi frá Ásgeiri að frá árinu 2000 hefur ekki verið hægt að greina tölfræðilegt samband milli launahækkana sem samið hefur verið um á íslenskum vinnumarkaði og verðlags.
Takið eftir að frá aldamótum hefur ekki verið hægt að sýna fram á samband milli verðlags og launahækkana. Það kemur einnig fram í þessu erindi að ekki sé lengur tekið tillit til launabreytinga í þjóðhagslíkani Seðlabankans. Ekki hægt að skilja annað en að ástæðan sé sú að ekki sé hægt að byggja á tölfræðilegu sambandi milli launahækkana og verðlags og er því sleppt.
Það er algjörlega magnað að fyrrverandi forstöðumaður á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands skuli upplýsa að á síðustu 22 árum hafi alls ekki verið hægt að sýna fram á að launahækkanir leiði til hækkunar á verðlagi.
Hugsið ykkur að á verkalýðshreyfingunni hefur dunið ár eftir ár að ef við semjum ekki um afar hóflegar hækkanir þá muni það leiða til óðaverðbólgu og ógna stöðugleikanum og þessum óhróðri hafa Seðlabankinn, stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins haldið úti linnulaust í hvert sinn sem kjarasamningar eru lausir.
Núna afhjúpast ósannindin þar sem fram kemur að ekkert tölfræðilegt samband sé á milli launahækkana og verðlags frá árinu 2000 en samt er þessum óhróðri ætíð haldið hátt á lofti.
Þessi niðurstaða frá Ásgeiri Daníelssyni, fyrrverandi forstöðumanni á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands ætti að vera fyrsta frétt í öllum fjölmiðlum, enda stórmerkileg tíðindi.
Eins og allir vita er búið að hræða þjóðina með víxlverkun verðlags og launa stanslaust þegar kjarasamningar eru lausir en sannleikurinn er sá að Seðlabankinn hefur ekki fundið tölfræðilegt samband milli launahækkana og verðlags frá árinu 2000!
Eru stjórnvöld, Seðlabankinn og Samtök atvinnulífsins vísvitandi búin að ljúga að þjóðinni um samband á milli launahækkana og verðlags á liðnum áratugum? Miðað við þessi tíðindi er ekki annað að sjá en að svo sé!
14
Oct

Verkalýðsfélag Akraness er 98 ára í dag

Í dag fagnar Verkalýðsfélag Akraness 98 ára afmæli en félagið var formlega stofnað í Báruhúsinu á Akranesi þann 14. október 1924. Þar var lagður mikilvægur grunnur að sterku félagi sem hefur vaxið og dafnað í gegnum miklar samfélagslegar breytingar í næstum heila öld og ber aldurinn vel. 

Þrátt fyrir allar þær breytingar sem hafa orðið á lífskjörum fólks og atvinnuháttum eru meginverkefni Verkalýðsfélags Akraness að mestu leyti þau sömu og í upphafi - að bæta hag félagsmanna sinna og vinna þannig gegn óréttlæti og misskiptingu. Til að ná árangri í kjarabaráttu skiptir samstaða öllu máli og það eru félagsmennirnir sem mynda þá mikilvægu heild sem skapar slíka samstöðu á hverjum tíma fyrir sig.

Til hamingju með daginn!

 

 

 

12
Oct

Átök á 45. þingi ASÍ

Á mánudaginn hófst 45. þing Alþýðusambands Íslands og er skemmst frá því að segja að formaður VLFA bar gríðarlega miklar vonir til þess að þetta þing yrði upphafið að mikilli samstöðu og sátt innan hreyfingarinnar. En eins og allir vita hafa hatrammar deilur, persónulegt níð og hatur einkennt starfsemina á liðnum árum.

Það er ljóst að fyrir þingið lá fyrir tillaga um að stilla upp öflugri forystusveit innan Alþýðusambands Íslands skipaða reynslumiklu forystufólki sem hefur látið mikið til sín taka í íslenskri verkalýðsbaráttu. Til forseta ASÍ bauð Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sig fram og í embætti 1. varaforseta Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ, til 2. varaforseta Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og til 3. varaforseta Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA og Starfsgreinasambands Íslands.

Þessi hópur var tilbúinn til að taka þetta erfiða verkefni að sér ef það myndi ríkja full samstaða um að snúa bökum saman og tryggja að þingið yrði notað til að lægja þær miklu öldur sem hafa einkennt starf ASÍ. Vonin var að takast myndi að ljúka þinginu þannig að allir kæmu út sem ein risastór heild með mikinn slagkraft, íslensku launafólki til hagsbóta.

Það var hinsvegar ömurlegt og dapurlegt að verða vitni að því strax á fyrsta degi þingsins að þar voru aðilar sem voru svo sannarlega ekki komnir þangað með það að markmiði að sætta ólík sjónarmið og stilla upp öflugri forystusveit Alþýðusambands Íslands. Þvert á móti var persónulega níðið og hatrið allsráðandi frá fyrstu mínútu. Nægir að nefna í því samhengi þá fordæmalausu tillögu sem Ólöf Adolfsdóttir, ritari Eflingar, ásamt 16 þingfulltrúum frá 11 aðildarfélögum lagði fram um að kjörbréf Eflingar, samtals 54 talsins, yrðu dæmd ólögleg. Það hefði þá þýtt að öllum fulltrúum Eflingar hefði verið vísað út af þinginu. Eins og áður sagði var þetta fordæmalaus tillaga og stóðst ekki eina einustu skoðun, hvorki lagalega né siðferðislega. En tónninn sem var sleginn með tillögunni var algjörlega kristalskýr, tilgangurinn var að valda frekari úlfúð og leiðindum. Það sorglega í þessu var að það voru formenn sumra aðildarfélaga ASÍ sem voguðu sér að skrifa undir þessa tillögu sem staðfesti þær áhyggjur að þarna væri fólk ekki mætt til að hafa hagsmuni launafólks að leiðarljósi og ná sáttum.

Síðan gerist það til viðbótar að formaður stéttarfélagsins Bárunnar skrifar stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún lýsir því að formenn SGS, VR og Eflingar hafi ástundað ofbeldismenningu innan hreyfingarinnar og hafi í hyggju að hreinsa út af skrifstofu Alþýðusambands Íslands. Þessum fræjum var sáð um þingsalinn eins og enginn væri morgundagurinn og á þessum tímapunkti var orðið ljóst að tilgangur þessa ágæta fólks var að viðhalda þessu hatri, persónulega níði og rógburði. Því var það niðurstaða formanna VLFA og VR að sætta sig ekki við að sitja undir svo alvarlegum ávirðingum dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Niðurstaðan eftir allt þetta var að þeir tóku ákvörðun um að afturkalla framboð sín í ljósi þess að engan vilja var að sjá til sátta og samstöðu. Tilkynntu þeir formanni Eflingar þessa niðurstöðu sem sagðist vera sammála greiningu þeirra og ákvað hún í kjölfarið að gera slíkt hið sama.

Í framhaldi af þessari ákvörðun var öllum þingfulltrúum VR og VLFA hóað saman þar sem formenn félaganna gerðu grein fyrir henni. Á þessum fundi voru miklar tilfinningar enda gríðarleg vonbrigði að sjá að sátt og samstaða voru ekki til staðar á þinginu. Það var 100% eining og samstaða á þessum fundi og skildu þingfulltrúarnir fullkomlega afstöðu Vilhjálms og Ragnars þó vissulega hafi fjölmargir biðlað til þeirra um að endurskoða þessa ákvörðun og reyna að ná sátt innan hreyfingarinnar. Þeir fóru ítarlega yfir þessa baráttu sem hefur verið háð, ekki bara í núinu heldur er þetta áralöng barátta og von þeirra var að hægt yrði að labba út af þinginu sem risastórt afl þar sem farið yrði í kjarasamningana með breiðri samstöðu allra aðildarfélaga ASÍ. Sú tilraun mistókst illilega vegna þess persónulega haturs sem ríkir í garð einstakra forystumanna. Var niðurstaðan sú að fulltrúar þessara félaga myndu víkja af þinginu og það gerði stór hluti þeirra. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort hægt verði að laga ástandið en eins og staðan er í dag eru áðurnefndir formenn ekki bjartsýnir á að vilji sé til slíks.

06
Oct

Komandi kjarasamningar

Starfsgreinasamband Íslands er búið að halda fjóra fundi með Samtökum atvinnulífsins þar sem hin ýmsu mál hafa verið rædd en það skal alveg segjast eins og er að það mun ekki fara fullur kraftur í þessar viðræður að mati formanns SGS fyrr en að afloknu þingi Alþýðusambands Íslands sem hefst þann 10. október og stendur til 13. október. Starfsgreinasambandið lagði fram kröfugerð 11. júní þannig að okkar viðsemjendur hafa haft góðan tíma til að meðtaka hana og fara yfir hana. En það er ljóst miðað við þær gríðarlegu kostnaðarhækkanir sem launafólk hefur þurft að þola að undanförnu í formi vaxtahækkana, hækkunar á matarverði, bensínverði og öðrum kostnaði sem sérhvert heimli þarf að standa straum af að það mun verða erfitt að ná saman.

 

Það liggur fyrir að greiðslubyrði þúsunda heimila hefur aukist um tugi þúsunda um hver mánaðarmót vegna vaxtahækkana Seðlabankans og það liggur fyrir samkvæmt úttekt sem Alþýðusambandið gerði á útgjöldum heimilanna að nánast allur ávinningurinn af því sem náðist í lífskjarasamningnum er horfinn vegna þessara kostnaðarhækkana. Það er og verður hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að verja stöðu launafólks og það verður gert með krafti í komandi kjarasamningum ef þurfa þykir.

06
Oct

Fundað með Atvinnufjelaginu

Fulltrúar frá Atvinnufjelaginu óskuðu eftir fundi með formanni og varaformanni Starfsgreinasambands Íslands og var sá fundur haldinn á skrifstofu VLFA mánudaginn 26. september. En Atvinnufjelagið er undir forystu Sigmars Vilhjálmssonar veitingamanns og kom hann ásamt öðrum stjórnarmönnum á þennan fund. Fundurinn var svosem ágætur þar sem þau fóru yfir áherslur félagsins en þeir sem eru aðilar að þessu félagi eru lítil og meðalstór fyrirtæki. Kom meðal annars fram að þau vilja fá breytingu á svokölluðu dagvinnutímabili ásamt vaktaálögum en það kom skýrt fram frá SGS að slíkar breytingar væru ekki fyrirhugaðar í þessum samningum og samningsaðili SGS væru Samtök atvinnulífsins.

Vissulega er það stefna SGS að hlusta á raddir allra atvinnurekenda og meðtaka áherslur þeirra og einnig að nýta tækifærið og koma áherslum SGS á framfæri er lúta að hagsmunum launafólks hér á landi. Það eru reyndar fleiri baráttumál sem þetta umrædda félag stendur fyrir en þau mál lúta meira að stjórnvöldum og má þar nefna þrepaskipt tryggingagjald og að einyrkjar greiði ekki tryggingagjald. Eins og áður sagði var fundurinn ágætur en formenn SGS komu því skýrt á framfæri hver stefna SGS væri í þessum málum og því var algjörlega hafnað að breyta dagvinnutímabili og lækka hér álagsgreiðslur hjá þeim sem vinna um kvöld, helgar og á nóttunni.

09
Sep

Frábær ferð með eldri félagsmenn VLFA farin í gær

Í gær var loks komið að því að fara í ferðalag með eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en þessi ferð sem venjulega er árlegur viðburður hefur fallið niður síðustu tvö ár vegna samkomutakmarkana. Um 60 félagsmenn tóku þátt í ferðinni í ár auk nokkurra fulltrúa félagsins bæði úr stjórn og af skrifstofu. Þess má geta að elsti félagsmaðurinn sem var með í ferðinni að þessu sinni var kona sem fædd er árið 1927 og gekk í félagið 7. mars 1944. Hún hefur því verið félagsmaður í 78 ár.

Að þessu sinni var ferðinni heitið til Reykjavíkur og Bessastaða en áður en lagt var í hann var tekinn hringur innanbæjar á Akranesi til að sjá þau vegglistaverk sem hafa nýlega verið gerð víða um bæinn. Leiðsögumaður í ferðinni var Gísli Einarsson og sá hann um að fræða fólk um hina ýmsu staði og viðburði auk þess að taka reglulega lagið enda var hann með nikkuna góðu meðferðis.

Fyrsti viðkomustaður var hið sögufræga hús Höfði í Borgartúni þar sem leiðtogafundur Reagan og Gorbatsjov átti sér stað árið 1986. Þar fékk hópurinn frábæra leiðsögn og fékk að skoða sig um á þessum merka stað. Að því loknu lá leiðin í Mosfellsbæ á veitingastaðinn Blik Bistro þar sem snæddur var hádegisverður í rúmgóðum sal með glæsilegu útsýni.

Eftir matinn var komið að því að heimsækja Bessastaði og byrjaði hópurinn á að fá fræðslu í kirkjunni á staðnum. Kl. 14 hófst svo móttaka á Bessastöðum og tók forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, vel á móti gestunum ásamt starfsfólki Bessastaða. Guðni heilsaði öllum með handabandi og bauð fólki að skoða sig um. Hann spjallaði á léttum nótum við hópinn og boðið var upp á kaffi, pönnukökur og kleinur. Mikil ánægja var með þessar móttökur.

Að lokinni Bessastaðaheimsókn var haldið í Perluna þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti á efstu hæðinni. Hópurinn endaði á að skoða þær náttúrusýningar sem staðsettar eru í Perlunni og má þar nefna íshelli og norðurljósasýningu.

Eftir góða stund í Perlunni var komið að heimferð og rúturnar renndu inn í bæinn um kl. 18 eftir skemmtilega ferð. Það var sérstaklega ánægjulegt að ná aftur að fara í slíka dagsferð eftir hlé undanfarinna ára enda er þetta alltaf einn af hápunktum starfs félagsins.

 

Hér má sjá myndir úr ferðinni

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image