• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Dec

Helstu atriði nýs kjarasamnings

Kynningarfundur verður haldin í Gamla Kaupfélaginu, fimmtudaginn 15. desember kl.17.

Þar mun Vilhjálmur kynna samninginn ásamt því að svara spurningum úr sal.

Einnig er nú komin upplýsingasíða um nýja kjarasamninginn, og slóðin er hér:  

(Íslenska) https://www.sgs.is/media/1918/kjarasamningur-3-des-2022-undirritadur.pdf

(pólska) https://www.sgs.is/media/1927/kjarasamningur-sgs-og-sa-2022_pl.pdf                                                                                                                                                                 (enska) https://www.sgs.is/media/1934/helstu-atridi-um-nyjan-kjarasamning_en.pdf 

Þarna má m.a. finna upplýsingar um helstu atriði samningsins og um  atkvæðagreiðsluna sem fer fram dagana 9.-19. desember.

 

Félagsmenn VLFA munu kjósa rafrænt á forsíðu  www.vlfa.is

Við hvetjum félagsmenn eindregið til að mæta.  

Helstu atriði um nýjan kjarasamning    Capture2Captureleidr

06
Dec

Nýr kjarasamningur SGS við Samtök atvinnulífsins undirritaður

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur undirritað nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði. 17 af 19 aðildarfélögum SGS undirrituðu samninginn í húsakynnum ríkissáttasemjara á fimmta tímanum í dag. Um er að ræða svokallaðan skammtímasamning en gildistími samningsins er frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem kjarasamningur á almennum vinnumarkaði gildir frá sama tíma og sá eldri rennur út og í því eru fólgin mikil verðmæti fyrir launafólk. 

Kauptaxtar hækka frá 1. nóvember 2022 um að lágmarki 35.000 kr. Að auki felur samningurinn í sér lagfæringu á launatöflunni, sem gerir það að verkum að hækkun getur orðið allt að 52.000 kr. á mánuði. Laun þeirra sem ekki taka laun eftir kauptöxtum, þ.e. eru á mánaðarlaunum, hækka um 33.000 kr. frá 1. nóvember. Desember- og orlofsuppbætur taka jafnframt hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót verður 56.000 kr. á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2023. Kjaratengdir liðir samningsins hækka um 5% frá 1. nóvember og þá hækka bónusar og akkorð í fiskvinnslu um 8% sem mun skila fiskvinnslufólki á bilinu 6.000 - 34.000 kr. hækkun á mánuði. 

Einnig náðist samkomulag um flýtingu hagvaxtarauka sem þýðir að hagvaxtaraukinn sem átti að koma til greiðslu 1. maí 2023 verður flýtt og verður hann að fullu efndur með hækkun 1. nóvember. Það mun skila ávinningi sem nemur 78.000 kr. eða tæpum 6.000 kr. á mánuði og er hann meðtalinn í áðurnefndum taxta- og mánaðalaunahækkunum. Jafnframt var gert samkomulag um að með þessari hækkun og flýtingu komi ekki til frekara endurmats á hagvaxtarauka skv. kjarasamningnum frá 2019. 

Kjarasamningurinn er framlenging á Lífskjarasamningnum sem gilti frá 2019-2022. Samningsaðilar eru sammála um að samningurinn styðji við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Samningurinn geti þannig byggt undir stöðugleika og skapað forsendur fyrir langtímasamningi. 

Nú tekur við kynning og atkvæðagreiðsla um samninginn meðal félagsmanna. Niðurstaða afgreiðslu samningsins á að liggja fyrir ekki síðar en mánudaginn 19. desember næstkomandi. 

Eftirfarandi félög eiga aðild að samningnum: 
AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélagið Hlíf og Stéttarfélag Vesturlands. 

Samninginn má nálgast hér.

28
Nov

Auglýsing frá Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar

Iðan fræðslusetur ásamt Slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar halda námskeið í brunaþéttingum.

Við hvetjum alla okkar félagsmenn sem starfa við byggingarframkvæmdir að skoða þetta.

Minnum einnig á að þeir sem ekki eru félagsmenn Iðunnar geta sótt um endurgreiðslu á námskeiðsgjaldi hjá okkur.

 

Skráning og frekari upplýsingar eru á heimasíðu Iðunar

https://www.idan.is/fraedsla/nanar-um-namskeid/allotment/2022/12/02/Brunathettingar/?flokkur=Bygginga-+og+mannvirkjagreinar

Fullt verð er 25.000 kr

Verð til aðildarfélaga Iðunnar 5.000 kr

16
Nov

Skóflustunga tekin að 24 íbúða húsi við Asparskóga 3

Fyrsta skóflustunga við Asparskóga 3 á Akranesi var tekin í gær, 15. nóvember þar sem byggðar verða 24 íbúðir í þremur sjálfstæðum húsum á tveimur hæðum. Húsin mynda eins konar hring, með garði í miðju, opinn til suðvesturs. Íbúðirnar verða tveggja til fimm herbergja, allar með sérinngangi frá svalagangi. Húsið verður byggt með svokallaðri box aðferð, með þeim hætti að einingar eru smíðaðar í verksmiðju og nánast fullunnar þar að innan. Íbúðirnar raðast svo saman á byggingastað og eru að lokum klædd að utan á staðnum.

Fyrstu íbúðir verða afhentar á fjórða ársfjórðungi 2023 og þær síðustu á öðrum ársfjórðungi 2024. Opnað verður fyrir umsóknir í byrjun árs 2023.

Þetta er frábærar fréttir enda er Bjarg íbúðarfélag óhagnaðardrifið leigufélag sem verkalýðshreyfingin stendur að en rétt er að geta þess að Bjarg hefur nú þegar byggt og er með í útleigu 33 íbúðir á Akranesi.

 

Úthlutun geta þeir einir hlotið sem hafa verið virkir á vinnumarkaði og fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB í a.m.k. 16 mánuð, litið til sl. 24 mánuði við úthlutun. Fullgildir félagsmenn sem eru tímabundið frá vinnu, í allt að 12 mánuði, vegna fæðingarorlofs eða veikinda halda réttindum sínum.

 

Greiðslubyrði leigu skal að jafnaði ekki fara umfram 25%-30% af heildartekjum leigutaka að teknu tilliti til húsnæðisbóta, barnabóta og meðlags.

14
Nov

Starfgreinasamband Íslands, VR og LÍV vísa kjaraviðræðum til ríkissáttasemjara

Íslenskt atvinnulíf stendur styrkum fótum og staða fyrirtækja hefur sjaldan verið betri. Hvert fyrirtækið á fætur öðru skilaði methagnaði á síðasta ári og allt bendir til þess að árið í ár verði ekki síðra. Útflutningsgreinarnar – undirstöður atvinnulífsins – standa afar vel. Sjávarútvegurinn skilaði tugmilljarða króna hagnaði í fyrra og ferðaþjónustan hefur náð flugi á nýjan leik eftir Covid.

 

Vinnuframlag launafólks, þekking þess og kunnátta liggja að baki þessum gríðarlega góða árangri og launafólk á kröfu á umbun í samræmi við það. Um það snúast kjarasamningar – réttláta skiptingu.

 

Lífskjarasamningurinn, sem undirritaður var árið 2019, rann út um síðustu mánaðamót. VR, Landssamband ísl. verzlunarmanna og Starfsgreinasamband Íslands hafa staðið þétt saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins síðustu vikur og freistað þess að ná nýjum samningi. Fundað hefur verið stíft en nú blasir við að of mikið ber í milli. Samningur er ekki í sjónmáli og engar forsendur til að halda viðræðum áfram að óbreyttu.

 

Hrina kostnaðarhækkana skellur nú á launafólki; húsaleiga hefur hækkað, vextir, bensín, matvara og þjónustugjöld svo fátt eitt sé nefnt. Stéttarfélögin krefjast kaupmáttaraukningar launa á samningstímanum en atvinnurekendur segja ekkert svigrúm til þess.

 

 Stéttarfélögin kalla eftir markvissum aðgerðum til að ná niður verðbólgu en atvinnurekendur hafa ekkert fram að færa. Það er holur hljómur í málflutningi atvinnurekenda þegar þeir halda því fram að launahækkanir keyri upp verðbólguna – það er búið að sýna fram á að svo sé ekki.

 

VR/LÍV og SGS eru í forsvari fyrir stóran hluta launafólks á almennum vinnumarkaði og gera kröfu um sanngirni. Á meðan atvinnurekendur hlusta ekki á raddir tugþúsunda einstaklinga sem fyrir þá starfa í samningaviðræðum eins og þeim sem staðið hafa yfir síðustu vikur verður að leita annarra leiða. Því hafa stéttarfélögin tekið þá ákvörðun að vísa viðræðum VR/LÍV og SGS við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjar

 

14. nóvember 2022

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar Landssambands ísl. verzlunarmanna

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands

28
Oct

Fyrsti fundur LÍV og SGS með Samtöku atvinnulífsins

Eins fram hefur komið ákváðu stærstu landssambönd launafólks á vinnumarkaði, Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) og Starfsgreinsamband Íslands (SGS), að taka höndum saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning.

Forystufólk úr þessum samböndum áttu fyrsta fund um nýjan kjarasamning með Samtökum atvinnulífsins, fimmtudaginn 27. október 2022. Fundurinn gekk vel og voru aðilar sammála að funda þétt næstu vikurnar með það að markmið að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Á myndinni sem tekin var við þetta tækifæri eru frá vinstri:

Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis
Hjördís Þóra Sigþórsdóttir, formaður AFLs – starfsgreinafélags
Eiður Stefánsson, formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni
Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður LÍV og VR
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS og Verkalýðsfélags Akraness

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image