• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Dec

Aðalfundur sjómannadeildar

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness minnir félagsmenn sem tilheyra deildinni á aðalfund sjómannadeildar sem haldinn verður fimmtudaginn 29. desember klukkan 14:00 í fundarsal félagsins að Þjóðbraut 1.

Dagskrá:

  • Venjubundin aðalfundarstörf
  • Komandi kjarasamningar 
  • Önnur mál. 

Félagsmenn í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness eru eindregið hvattir til að mæta

21
Dec

Nýr kjarasamningur milli SGS og SA á hinum almenna vinnumarkaði samþykktur

Kosningu um nýgerðan kjarasamning milli Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði lauk á hádegi þann 19. desember.

Niðurstöður kosninganna voru afgerandi en kjarasamningurinn var samþykktur hjá þeim 17 félögum sem eiga aðild að honum og yfir heildina kusu tæp 86% þeirra sem greiddu atkvæði með samningnum. Hjá Verkalýðsfélagi Akraness urðu niðurstöður kosninga þannig að samningurinn var samþykktur með tæplega 92% greiddra atkvæða sem er gríðarlega hátt hlutfall.

Þessi niðurstaða sýnir svo ekki verður um villst að þeir sem vinna eftir samningnum eru ánægðir með hvernig til tókst og það er það sem skiptir máli. Þessi niðurstaða fékkst þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir forystumanna Eflingar til að hafa neikvæð áhrif á kosningarnar með því að tala samninginn niður og dreifa villandi upplýsingum um hann í ýmsum fjölmiðlum.

Eins og áður hefur komið fram er um að ræða skammtímasamning sem gildir til 31. janúar 2024 og er mikill kostur að þessi nýi samningur nær að taka við í beinu framhaldi af þeim kjarasamningi sem rann út þann 1. nóvember síðastliðinn. Nýja kauptaxta má sjá hér.

19
Dec

Sigrún Clausen - minningarorð

Sigrún Clausen, heiðursfélagi í Verkalýðsfélagi Akraness, er látin 92 ára að aldri en hún var fædd þann 20. október 1930.

Sigrún gekk formlega í félagið 8. maí 1969 þegar hún hóf störf við fiskvinnslu. Ýmislegt varðandi aðstöðu og réttindi fiskvinnslukvenna kom Sigrúnu á óvart og í kjölfarið fór hún að láta til sín taka í ýmsum baráttumálum í gegnum félagið. Hún var mjög virk í starfi félagsins og gegndi stjórnarstörfum fyrir það í þrjá áratugi. Meðal annars var hún í aðalstjórn frá 1972 til ársins 2000 og varð fyrsti formaður fiskvinnsludeildarinnar árið 1988. Sigrún sat líka um árabil í stjórn sjúkrasjóðs eða allt til ársins 2002 en það ár var hún einmitt gerð að heiðursfélaga VLFA.

Einnig starfaði Sigrún stundum í afleysingum fyrir Herdísi Ólafsdóttur á skrifstofu félagsins eða aðstoðaði hana þar þegar álagið var mikið en skrifstofan var þá staðsett að Kirkjubraut 40. Þá vann hún jafnvel fyrir hádegi í frystihúsinu og á skrifstofunni eftir hádegi og líkaði vel en á þessum tíma var mikil handavinna fólgin í að afgreiða umsóknir úr sjúkrasjóði og jafnframt fór afgreiðsla atvinnuleysisbóta fram í gegnum félagið.

Eitt af því sem Sigrún tók þátt í á vegum félagsins var að skipuleggja ásamt Herdísi ferðir fyrir eldri félagsmenn. Slíkar dagsferðir hafa verið árvissar um langt skeið og felst mikil vinna í að undirbúa þær. Eftir að Sigrún hætti að vinna kom hún svo sjálf með í fjölmargar af ferðum félagsins.

Sigrún fylgdist alla tíð mjög vel með starfsemi félagsins og bar hag þess fyrir brjósti. Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness þakkar henni fyrir vel unnin störf og sendir aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur.

14
Dec

Kosning um nýjan samning iðnaðarmanna hefst í dag

Atkvæðagreiðsla um nýgerðan kjarasamning fyrir iðnaðarmenn hefst í dag. Verkalýðsfélag Akraness er aðili að Samiðn og þeir félagsmenn sem vinna eftir þeim samningi geta kosið um hann á skrifstofu félagsins.

Kosningin hefst kl. 12 á hádegi í dag, miðvikudaginn 14. desember og henni lýkur á hádegi miðvikudaginn 21. desember. Félagið hvetur alla félagsmenn sína í iðnsveinadeild til að nýta sinn atkvæðarétt og koma við á skrifstofu félagsins til að kjósa.

Samninginn má skoða nánar hér.  Kynningarefni er hér

13
Dec

Gengið frá kjarasamningi við iðnaðarmenn

Í gær var skrifað undir kjarasamning Samiðnar við Samtök atvinnulífsins en Verkalýðsfélag Akraness er aðili að Samiðn enda er félagið með iðnsveinadeild. Kjarasamningurinn gekk út á að þeir sem ekki taka laun eftir kauptöxtum hækka um 6,75% en kauptaxtar hækka hlutfallslega með sambærilegum hætti og í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands. Kosning um kjarasamninginn verður auglýst síðar og einnig kynning um hann. Sjá má kjarasamninginn hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image