• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Apr

Orlofs og desemberuppbætur starfsmanna Norðuráls hækkuðu um 112.488 við undirskrift samningsins (139%)

Kynningarfundirnir héldu áfram í morgun á nýgerðum kjarasamningi við Norðurál.  Það voru iðnaðarmenn, starfsmenn í Kerfóðrun, skautsmiðju og skrifstofufólk sem fengu sína kynningu í morgun og stóð kynningin til hádegis.  Það er ljóst að það eru nokkuð skiptar skoðanir með samninginn og er það sérstaklega vaktakerfið sem starfsmenn eru ekki á eitt sáttir með.  Hvað varðar launaliðina í kjarasamningum þá virðast starfsmenn almennt vera nokkuð sáttir með þann þátt samningsins.  Hagfræðingur ASÍ hefur látið það koma skýrt fram á öllum kynningarfundunum að þessi kjarasamningur sé einn sá besti sem gerður hefur verið í þessari samningalotu.  Vissulega hefði samninganefnd stéttarfélaganna viljað ná lengra í þessum áfanga en lengra var ekki komist og miðað við aðstæður er Verkalýðsfélag Akraness ánægt með samninginn.  Eitt lítið dæmi sem náðist í þessum kjarasamningi er hækkun á  orlofs og desemberuppbótum.  Fyrir samning voru þær.  40.458 kr. eða samtals 80.916 kr.  Eftir kjarasamning verða þær 96.704 kr. eða samtals 193.404 kr. sem er hækkun upp á 112.488 kr við undirskrift samningsins, hækkun sem nemur 139%

06
Apr

Byrjað var í dag að kynna nýjan kjarasamning fyrir starfsmönnum Norðuráls

Fyrstu tveir kynningarfundirnir voru haldnir í dag þar sem nýr kjarasamningur fyrir starfsmenn Norðuráls var kynntur.  Það voru C -og A vaktirnar sem fengu sína kynningu í dag.  Ólafur Darri hagfræðingur ASÍ fór yfir samninginn fyrir starfsmenn.  Að því loknu svaraðu fulltrúar samninganefndar stéttarfélaganna  spurningum frá starfsmönnum.  Það kom fram í máli hagfræðings ASÍ að þessi samningur væri vissulega stórt skref í átt til jöfnunar á við aðrar sambærilegar verksmiðjur.  Einnig kom fram í máli hagfræðingsins að þessi kjarasamningur væri einn af þeim betri sem gerður hefur verið á undanförnum vikum og mánuðum.  Hægt er að skoða myndir fá fundunum með því að smella á myndir og síðan Norðurál

05
Apr

Kynningafundirnir byrja á morgun C- vakt kl.14:00 og A-vakt kl. 16:00

Byrjað verður að kynna fyrir starfsmönnum nýgerðan kjarasamning við Norðurál á morgun.  Kynningarfundirnir verða sem hér segir:

Þessir fundir verða báðir í Framsóknarhúsinu að Sunnubraut Akranesi

  1. Miðvikudaginn 6. apríl kl. 14:00 C vakt
  2. Miðvikudaginn 6. apríl kl. 16:00 A vakt

Þessir fundir verða allir fjórir haldnir í Fræðslusetri Norðuráls

  1. Fimmtudaginn 7.apríl kl. 08:00 Iðnaðarmenn
  2. Fimmtudaginn 7.apríl kl. 10:00 Skautsmiðja
  3. Fimmtudaginn 7.apríl kl. 12:00 Kerfóðrun
  4. Fimmtudaginn 7.apríl kl. 14:00 Skrifstofa

Þessir fundir verða haldnir í Framsóknarhúsinu að Sunnubraut Akranesi

  1. Föstudaginn 8.apríl kl. 14:00 B vakt
  2. Föstudaginn 8.apríl kl. 16:00 D vakt

Hægt verður að greiða atkvæði um nýgerðan kjarasamning á öllum kynningarfundunum.  Einnig verður hægt að kjósa hjá aðaltrúnaðarmanni Norðuráls.

04
Apr

Kynningarfundir verða haldnir í þessari viku á nýjum kjarasamningi Norðuráls

Samninganefnd stéttarfélaganna mun að öllum líkindum hittast á miðvikudaginn kemur til að leggja lokahönd á  kynningu á nýjum kjarasamningi  sem stéttarfélöginn standa sameiginlega að.   Hagfræðingur ASÍ er að vinna að því að setja upp fyrir samninganefndina nokkur dæmi sem mun sýna hvernig launakjör starfsmanna eru fyrir samning og hvernig þau verða eftir samning.  Reiknað er með að fyrstu kynningarnar verði á miðvikudaginn kemur.  Hægt er að skoða samninginn í heild með því að smella á meira.  Einnig er hægt að fá samninginn á skrifstofu félagsins.

Kjarasamningur

milli

Norðuráls ehf. annars vegar

og

Félags iðn- og tæknigreina, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðsfélags Borgarness, Verkalýðsfélagsins Harðar, Hvalfirði, Verslunarmannafélags Reykjavíkur, og Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðildarfélaga hins vegar.

 

1. gr.

Gildistími

9.01.1 Gildandi kjarasamningur aðila framlengist til 31. desember 2009 með þeim breytingum og fyrirvörum sem í samningi þessum felast og fellur þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar.

 

2. gr.

Grunnlaunabreytingar

3.02.1 Frá gildistöku samnings þessa, þann 1. janúar 2005, verða grunnlaun eftirfarandi:

Launa-           Grunnlaun

flokkur               kr./mán.

112/212[1]          126.780

113/213              135.012

114                     144.463

115/215              154.575

116/216              165.396

Í ofangreindri töflu er innifalin 3,25% almenn hækkun launa auk 6,4% hækkunar í tengslum við tilfærslu úr árangurstengdum launum inn í grunnlaun.  Auk þess bætast kr. 600. við grunnlaun skv. launaflokki 112/212.

Laun skv. launaflokki 112/212 taka sérstökum hækkunum með 3 árlegum viðbótargreiðslum að fjárhæð kr. 500 hinn 1. janúar hvert sinn, í fyrsta sinn 1. janúar 2006 sem leggst við hina almennu grunnlaunahækkun.

3.03.1 1. janúar 2006 hækka grunnlaun og kjaratengdir liðir um 3,0%, þann 1. janúar 2007 um 3,0%, og þann 1. janúar 2008 um 3,0%.

3.03.2 Grunnlaunahækkanir eftir árið 2008

 Aðilar eru sammála um að laun taki að meðaltali sömu breytingum og laun sem samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í orkufrekum iðnaði, að undanskildum slíkum iðnaði á Austurlandi, sem um kann að vera samið vegna ársins 2009, þ.e.  til loka gildistíma samnings þessa, náist ekki samkomulag um annað.  Þetta ákvæði hefur ekki áhrif á friðarskyldu  aðila.

  

 

3. gr.

Orlofs- og desemberuppbót

 

3.09.1 og 3.10.1 Orlofs- og desemberuppbót hækka hvor um sig í kr.  96.704. Upphæð orlofs og desemberuppbótar skal hækka í samræmi við hækkun grunnlauna skv. gr. 3.03.1..

4. gr.

Iðgjöld til lífeyrissjóða

7.01.2Iðgjöld til lífeyrissjóða greiðist vegna allra starfsmanna 16 ára og eldri í samræmi við staðfestar reglugerðir viðkomandi lífeyrissjóða. Skulu iðgjöld vera 11 % af öllum launum frá 1. janúar 2005. Þar af greiði félagið 7%, en starfsmaður 4%. Frá 1. janúar 2007 skulu iðgjöld vera 12%. Þar af greiði félagið 8% en starfsmaður 4%.

Greiðsla í séreignarsjóð, 2,5%, sem áður var hluti af árangurstengdum launum, verður fast framlag í séreignarsjóð þannig að gegn 1% framlagi starfsmanns í séreignarsjóð greiðir félagið samtals 4,5%.

7.01.4Frjáls viðbótarframlög starfsmanna umfram það sem greinir í gr. 7.01.2 í séreignarsjóð verði með þeim hætti að á móti 2% viðbótarframlagi starfsmanns í séreignarsjóð greiðir félagið 2% og hlutfallslega ef starfsmaður greiðir minna.

 5. gr.

Árangurstengd laun

3.14.1Árangurstengd laun geta að hámarki numið 4% af grunnlaunum, vaktaálagi og yfirvinnu. Aðilar eru sammála um að kerfið byggist á eftirfarandi þáttum:

·        Kostnaður á framleitt tonn af áli (vegi 40% af árangurstengdum launum).

·        Framleiðslumagn (vegi 15% af árangurstengdum launum).

·        Gæði (járn í málmi frá kerskála) (vegi 10% af árangurstengdum launum).

·        Öryggismál (vegi 15% af árangurstengdum launum).

·        Deildartengd markmið (vegi 20% af árangurstengdum launum).

Settar skulu viðmiðanir til tveggja ára en að þeim tíma loknum skulu þær endurskoðaðar á tveggja ára fresti ef annar samningsaðila óskar þess.

 

6. gr.

Laun til fyrirliða

3.16.1 5% fyrirliðaálag til fyrirliða I hættir að greiðast í séreignarlífeyrissjóð og greiðist þess í stað út með launum, óski viðkomandi starfsmaður eftir því.

 

7. gr.

Vaktakerfi

 

2.04.1 til 2.04.4 Tekið verður upp nýtt vaktakerfi þar sem unnið er á 12 tíma vöktum allan sólarhringinn alla daga ársins. Vaktahópar verða fjórir en hver starfsmaður vinnur einungis 12 vaktir af hverjum 14. Vöktum verður raðað þannig að fyrst koma tvær dagvaktir, síðan tvær næturvaktir og loks fjórar frívaktir. Sjá Viðauka I með samningi þessum sem telst hluti hans. 

Starfsmönnum er þó heimilt að skrá sig reglulega á allt að 14 vaktir á hverju 28 daga tímabili til eins árs í senn.  Starfsmenn skulu tilkynna félaginu fyrir 1. júní ár hvert hversu margar vaktir þeir hyggjast vinna reglulega næsta árið.  Miðast vaktaárið við 1. september ár hvert.

Í skautsmiðju verða teknar upp vaktir sem eru annars vegar frá 7:30 til 16:00 og hins vegar frá 16:00 til 00:30. Félagið mun segja upp vaktakerfi og dagvinnutímafyrirkomulagi að því er skautmiðjuna varðar með þriggja mánaða fyrirvara og tekur nýtt vaktakerfi gildi að uppsagnartíma liðnum.  Nánar verður samið um vaktakerfi í skautsmiðju við þá starfsmenn sem þar starfa.

 

8. gr.

Vinnutími dagvinnumanna

 

2.01.2 Dagvinnutími er frá kl. 7:30 til 16:00 mánudaga til fimmtudaga. Á föstudögum er dagvinnutími frá kl. 7:30 til 16:00, en starfsmenn taka frí einn dag aðra hvora viku, að jafnaði á föstudögum.  Ákvæði þetta er sett til bráðabirgða og gildir frá 1. janúar 2006 til 31. desember 2006. Hafi meirihluti þeirra starfsmanna sem að jafnaði vinna dagvinnu sagt upp þessu fyrirkomulagi varðandi vinnutíma á föstudögum fyrir 1. nóvember 2006, skulu teknar upp viðræður um breytingar á þessu fyrirkomulagi á föstudögum. 

9. gr.

Tilfærsla fimmtudagsfría

Við grein 2.10.1. bætist: Aðilar eru sammála um að náist um það samkomulag við starfsmenn geti fimmtudagsfrí vegna sumardagsins fyrsta og uppstigningadags flust  til næsta föstudags þar á eftir.

10. gr.

Frí vegna yfirvinnu

3.06.2.Starfsmenn geta tekið frí í stað greiðslu fyrir vinnu sem fellur utan reglubundins vaktaskipulags, þannig að einungis yfirvinnuálagið sé greitt, en frí tekið tíma á móti tíma. Þeir sem vilja nýta þennan rétt sinn skulu tilkynna það stjórnanda hverju sinni ekki síðar en næsta föstudag eftir að yfirvinnan er unnin. Frí samkvæmt grein þessari skulu tekin í samráði við stjórnanda. Uppsafnað frí vegna yfirvinnu getur ekki orðið meira en sem samsvarar 72 vinnustundum. Frí samkvæmt þessari grein skulu tekin utan sumarorlofstíma, nema samkomulag sé um annað (2. maí – 15. sept.).

11. gr,

Orlof fastráðinna starfsmanna

 

5.01.1 og 5.01.3 Orlof fastráðinna starfsmanna skal vera sem hér segir:

 

Fyrstu 5 árin                                         20 dagar á orlofstíma og 5 utan orlofstíma.

Næstu 5 árin                                         20 dagar á orlofstíma og 8 utan orlofstíma.

Eftir það                                               20 dagar á orlofstíma og 10 utan orlofstíma. 

 

 

5.01.2 Starfsmenn skulu auk þess fá 10,64% orlofsfé af breytilegri yfirvinnu fyrstu 5 árin, 12,07% af yfirvinnu næstu 5 árin, en síðan 13,04%.  Um orlof fer að öðru leyti eftir ákvæðum laga um orlof nr. 30/1987 með síðari breytingum.  Með samkomulagi starfsmanna og viðkomandi stjórnanda er heimilt að skipta orlofi og taka það hvenær sem er ársins.

 

12. gr.

Launalaust leyfi

4.05.1.Starfsmenn skulu eiga rétt á leyfi án launa í allt að 12 mánuði í einu lagi eftir 5 ára starf. Leyfi af þessu tagi er einungis veitt hverjum starfsmanni einu sinni nema um sé að ræða endurmenntun sem tengist starfi viðkomandi starfsmanns fyrir félagið. Leyfið skal veitt að fullnægðum eftirfarandi skilyrðum.

4.05.3.Ekki er skylt að veita fleirum en einum starfsmanni úr hverju liði í senn launalaust leyfi og miða skal við að ekki séu fleiri en 1 af hverjum 30 starfsmönnum félagsins í slíku leyfi á sama tíma. Starfsmaður skal eiga rétt á að ganga inn í fyrra starf sitt, þegar leyfi lýkur skv. framansögðu.

4.05.5.Starfsmaður skal tilkynna þremur mánuðum áður en leyfi lýkur hvort hann muni koma til starfa að nýju eða ekki.

 

13. gr.

Þóknun vegna aukinnar starfshæfni

 

Við 3.15.1 bætist Eftir 10 ára starf hjá félaginu 10% álag á grunnlaun.

 

14. gr.

Hjúkrunargögn

8.07.1Nauðsynlegustu sjúkragögn og lyf skulu vera tiltæk á vinnustað, bæði úti í verksmiðjunni og í móttökuherbergjum læknis og hjúkrunarfræðings.

 

15. gr.

Trúnaðarmenn og öryggistrúnaðarmenn

8.08.1.Félagar í þeim stéttarfélögum sem eru aðilar að samningi þessum munu velja sér trúnaðarmenn úr hópi starfsmanna. Trúnaðarmenn skulu vera 6, einn frá hverju stéttarfélagi, nema stéttarfélögin semji um annað fyrirkomulag sín á milli.

8.08.7. Öryggistrúnaðarmenn skulu vera 5, einn úr skautsmiðju, einn úr kerskála, einn úr steypuskála, einn úr viðhaldsdeild og einn fyrir önnur svæði sameiginlega.  Starfsmenn viðkomandi deilda skulu kjósa öryggistrúnaðarmenn úr sínum röðum, til tveggja ára í senn. Verkefni öryggistrúnaðarmanna skal vera að fylgjast með og vinna að því að aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi í verksmiðjunni og á verksmiðjusvæðinu sé í samræmi við lög og reglugerðir þar um, svo og í samræmi við starfsleyfi félagsins og ákvæði í kjarasamningi starfsmanna.

8.08.8.Öryggistrúnaðarmenn skulu starfa í samvinnu við öryggisfulltrúa félagsins og hafa lausn frá venjulegri starfsskyldu hæfilegan tíma til að sinna störfum sínum í samráði við framkvæmdastjórn félagsins og skipa þeir öryggisnefnd álbræðslunnar í samræmi við ákvæði 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað. Leitast skal við að allir starfsmenn séu meðvitaðir um öryggismál og komi á framfæri við nefndina þeim ábendingum og tillögum sem þeir hafa fram að færa. Öryggistrúnaðarmenn tilnefna tvo úr sínum hópi til setu í öryggisnefnd.

 

16. gr.

Fæðingarorlof

6.05.1.Samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 skal fæðingarorlof reiknast til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Sama gildir ef kona þarf að öryggisásæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.

Fæðingarorlof telst til unnins tíma við útreikning orlofsréttar, þ.e. réttar til frítöku en ekki orlofslauna. Að öðru leyti fer eftir lögum nr. 95/2000.

Eftir eins árs starf hjá félaginu teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar.

Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.

17. gr.

Atkvæðagreiðsla

Samningur þessi skal borinn undir atkvæði starfsmanna í einu lagi.  Niðurstöðu atkvæðagreiðslu skal tilkynna til Norðuráls ehf. fyrir kl. 12:00 15. apríl 2005, ella skoðast samningurinn samþykktur.

 

Reykjavík 1. apríl 2005

 

f.h. Norðuráls ehf.                                                         f.h. stéttarfélaga

 

 

 


 

Bókun I

Aðilar samningsins eru sammála um að störf sem tengjast lestun og losun á skipum í Grundartangahöfn, sem og flutningar til og frá hafnarsvæðinu og inn á lóð Norðuráls, falli ekki undir gildissvið samningsins. 

 

Bókun II

Aðilar samningsins eru sammála um að með léttri máltíð sé átt við súpu, skyr eða sambærilegt ásamt samloku eða ávexti. Með heitum mat fyrir dagvinnumenn og nesti fyrir starfsmenn á vöktum er átt við tilbúinn matarskammt til upphitunar, sem miðast við fulla máltíð.

 

Bókun III

Aðilar samningsins munu útfæra sameiginlega reglur um frestun starfsloka fyrir þá starfsmenn sem hefja störf hjá félaginu eftir 45 ára aldur.

 

Bókun IV

Aðilar eru sammála um að árangurstengd laun, verði 2,4% á fyrsta ársfjórðungi 2005. Þá eru aðilar sammála um, þrátt fyrir niðurlagsákvæði gr. 3.14.1, að fyrsta endurskoðun á viðmiðunum árangurstengdra launa, geti farið fram eftir eitt ár frá gildistöku samningsins, ef annar samningsðila óskar þess.

 

Bókun V

Aðilar eru sammála um að skoða þurfi útfærslu á gildistöku nýrra reglna um orlof.

 

 

_____________________________________________ 

[1] Launaflokkur 112 tekur ekki til verslunarmanna.

02
Apr

Skrifað var undir nýjan kjarasamning við Norðurál í nótt, samningurinn gefur um 24.5% á samningstímabilinu

Skrifað var undir nýjan kjarasamning við Norðurál kl. 02:00 í nótt.  Heildarkostnaðaráhrif samningsins á samningstímabilinu er um 24.5%.  það liggur því alveg ljóst fyrir að það hefur verið  stigið mikilvægt skref í átt til jöfnunar  á við sambærilegar verksmiðjur með þessum kjarasamningi.  Farið verður í að kynna kjarasamninginn fyrir starfsmönnum fljótlega eftir helgi.   Hægt er að skoða myndir sem formaður Verkalýðsfélags Akraness tók í húsakynnum ríkissáttasemjara, þegar gengið var frá nýjum kjarasamningi  við forsvarsmenn  Norðuráls 2. apríl sl.  Smellið á myndir og síðan á Norðurál.

01
Apr

Félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness fjölgar um 190 á milli ára

Félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness fjölgaði um 190 á síðasta ári.  Félagsmenn voru alls árið 2003 1.617.   Árið 2004 voru félagsmenn orðnir alls 1.807.  Stjórn Verkalýðsfélags Akraness er afar ánægð með þá fjölgun sem í félaginu hefur orðið á þessu eina starfsári sem liðið er frá því hún tók við stjórn félagsins.  Greinilegt er að Verkalýðsfélag Akraness er á hraðri uppleið og á eftir að verða enn sterkara afl heldur en það er nú þegar orðið. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image