• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Sep

Fundur um bónusmál starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins

Fundur var haldinn í endurskoðunarnefnd sem fjallar um hið nýja bónuskerfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins á föstudaginn sl.  Í síðasta kjarasamningi sem gerður var við Íslenska járnblendið var tekið upp nýtt bónuskerfi fyrir starfsmenn fyrirtækisins. Í samningum segir  komi í ljós að bónuskerfin séu ekki að skila verulega bættum árangi og þar með hækkandi bónusgreiðslum  til handa starfsmönnum Íj skal fara fram endurskoðun á bónuskerfinu.  Þetta endurskoðunarákvæði nýtti Verkalýðsfélag Akraness sér og fundaði ásamt aðaltrúnaðarmanni með forsvarsmönnum Íj.  Fundurinn  var afar ganglegur og eru aðilar að skoða þá þætti bónussins sem ekki hefur verið að skila því sem samningsaðilar vonuðust til.  En flestir þættirnir í bónusnum hafa gefið það sem samningsaðilar vonuðust til.  Því miður var einn þáttur í nýja bónuskerfinu sem ekkert hefur gefið  starfsmönnum, en það er hreinsaður málmur- milli seljanlegs efnis og útsteypt hreinsaðs efnis.  Eins og áður sagði eru samningsaðilar að reyna að finna út vegna hvers þessi þáttur bónussins hefur ekki virkað sem skildi. 

22
Sep

Forstjóri vinnumálastofnunar í heimsókn á skrifstofu félagsins

Gissur Pétursson forstjóri vinnumálastofnunar kom í heimsókn á skrifstofu félagsins ásamt Guðmundi Páli Jónssyni  forseta bæjarstjórnar og Guðrúnu Gísladóttur forstöðumanni Svæðisvinnumiðlunar Vesturlands.  Formaður félagsins ræddi við forstjóra vinnumálastofnunar um þá þróun sem átt hefur sér stað á síðustu misserum og snýr að erlendum starfsmönnum sem eru ráðnir í gegnum erlendar starfsmannalegur.  Formaður félagsins gerði forstjóra Vinnumálastofnunar grein fyrir áhyggjum félagsins með þá  þróun sem er að eiga sér stað í kringum erlendar starfsmannaleigur.   Oft á tíðum er verið að greiða þessum erlendu starfsmönnum sem koma í gegnum erlendar starfsmannaleigur langt undir gildandi kjarasamningum. Gissur Pétursson  sagði að Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun hafi ákveðið í samráði við ráðuneyti dómsmála og félagsmála að breyta verklagi við afgreiðslu umsókna frá ríkisborgurum hinna átta nýju aðildarríkja EES samningsins.  Í þessu felst að afgreiðsla umsóknanna mun taka mun skemmri tíma en áður. Þannig er  áréttaður forgangur ríkisborgara þessara landa að íslenskum vinnumarkaði umfram ríkisborgara landa utan EES svæðisins.  Með þessari ráðstöfun er einnig á skemmri tíma en áður unnt að koma til móts við  óskir atvinnulífsins um leyfi  til að ráða erlent vinnuafl.  Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessu breyta verklagi Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar við afgreiðslu á umsóknum um atvinnuleyfi.

21
Sep

Samtök atvinnulífsins segja að íslenskir kjarasamningar gildi ekki að öllu leiti fyrir erlenda starfsmenn sem starfa hér tímabundið

Lögmaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið að fara yfir svarið sem yfirlögfræðingur Samtaka atvinnulífsins sendi félaginu vegna dönsku smiðina sem starfa hjá Ístak.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa forsvarsmenn Ístaks neitað að standa skil á stéttarfélagsgjöldum af dönsku smiðunum eins og kjarasamningar kveða á um.  Einnig neituðu þeir að afhenda launaseðla og ráðningasamninga af dönsku smiðunum.  Í kjölfarið vísaði Ístak málinu til SA.    Eins og fram hefur komið þá hefur yfirlögfræðingur SA svarað Verkalýðsfélagi Akraness, í svarinu frá SA er margt mjög forvitnilegt.  SA vísar í lög nr.54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra atvinnumiðlunar (starfsmannaleiga)  Samtök atvinnulífsins segja að lög nr. 54/2001 gildi um umrædda starfsmenn og einungis þurfi að tryggja lágmarkslaun, yfirvinnugreiðslur, réttindi til orlofs, hámarksvinnutíma og lágmarksvinnutíma.  Einnig segir í svarbréfinu frá SA

Önnur ákvæði þeirra laga gilda því ekki um þá starfsmenn sem hér er um að ræða og koma hingað tímabundið á vegum vinnuveitanda síns. 

Þessi túlkun SA þýðir að allir erlendir starfsmenn sem koma hingað í gegnum erlendar starfsmannaleigur og vinna hér tímabundið hafa til að mynda ekki veikindarétt, slysarétt, uppsagnarfrest, ásamt ótal öðrum kjaraatriðum sem eru í íslenskum kjarasamningum. 

Það er hins vegar mat Verkalýðsfélags Akraness að allir erlendir starfsmenn sem hingað koma  til starfa vinni eftir íslenskum kjarasamningum að öllu leiti, ekki einungis að litlum hluta eins og SA heldur fram. 

Verkalýðsfélag Akraness trúir ekki að það geti verið að lögin nr. 54/2001 séu með þessu hætti eins SA heldur fram.  Ef það er reyndin þá er  íslenskum launþegum illilega ógnað og er þar vægt til orða tekið

21
Sep

Kynningarfundur með atvinnuleitendum um réttindi og skyldur á vinnumarkaðinum var haldinn í morgun

Formaður félagsins hélt kynningu fyrir atvinnuleitendur um réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði.  Einnig var farið yfir þá þjónustu sem Verkalýðsfélag Akraness er að veita sínum félagsmönnum.  Farið var ítarleg yfir þá  styrki  sem fullgildir félagsmenn eiga rétt á út úr sjúkrasjóðfélagsins eftir að greiðsluskyldu atvinnurekanda lýkur.  Formaðurinn svaraði fjölmörgum spurningum sem upp komu á fundinum.  Verkalýðsfélag Akraness er ekki í neinum vafa um að kynningarfundur af þessum toga hefur mjög jákvæð áhrif og mun hjálpa atvinnuleitendum þegar þau fara aftur út á vinnumarkaðinn

20
Sep

Forsvarsmenn Fangs munu loksins leggja fram drög að nýjum fyrirtækjasamningi fyrir starfsmenn Fangs

Ákveðið hefur verið að funda um nýjan fyrirtækjasamning fyrir starfsmenn Fangs ehf þriðjudaginn  27. september.  Starfsmenn Fangs hafa verið samningslausir frá því 30. nóvember 2004 og hefur Verkalýðsfélag Akraness gagnrýnt þennan seina gang harðlega.  En mjög erfiðlega hefur gengið að fá forsvarsmenn að samningsborðinu.  En eins og áður sagði þá verður fundurinn á næsta þriðjudag.   Krafa starfsmanna er skýr það er að þau réttindi sem áunnist hafa á liðnum árum og eru í kjarasamningi Íslenska járnblendifélagsins verði í hinum nýja fyrirtækjasamningi.  Einnig vilja starfsmenn fá álíka launahækkanir og starfsmenn Klafa og Íslenska járnblendifélagsins  fengu í vor.

19
Sep

Samtök atvinnulífsins hafa svarað Verkalýðsfélagi Akraness og segja að það sé ekki hlutverk Ístaks að standa skil á stéttarfélagsgjöldum af dönsku smiðunum

Ístak hf. fól Samtökum atvinnulífsins að svara kröfu Verkalýðsfélags Akraness.  Krafan var sú að Ístak skilaði stéttarfélagsgjöldum af dönskum smiðum og afhenti  ráðningarsamninga og launaseðla til að hægt væri að ganga úr skugga um að dönsku smiðirnir væru að fá greitt eftir íslenskum kjarasamningum.  Þessu hafnaði Ístak og vísaði málinu til SA.  Í dag barst bréf frá Samtökum atvinnulífsins undirritað af Hrafnhildi Stefánsdóttur yfirlögfræðingi SA.  Svarið frá SA er skýrt þeir segja að það sé ekki hlutverk Ístaks að standa skil á stéttarfélagsgjöldum til Verklýðfélags Akraness.  Einnig segir í svarbréfinu að um réttindi og skyldur dönsku smiðina gildi lög, nr. 54/2001 um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlenda fyrirtækja, þ.e lög um útsenda starfsmenn.  Þessu er Verkalýðsfélag Akraness ekki sammála og hefur nú þegar sent lögmanni félagsins bréfið til skoðunar og allt eins líklegt að málið fari fyrir dómstóla.  Íslenskri verkalýðshreyfingu er illilega ógnað ef það er staðreynd að  hægt sé að ráða erlenda verkamenn og smiði í gegnum starfsmannaleigur,  til þess eins að komast hjá því að greiða lögbundin gjöld sem og önnur ákvæði sem í kjarasamningum gilda.  Við þessu verður brugðist af fullri hörku og eins og áður sagði er allt eins líklegt að málið fari  fyrir dómstóla

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image