• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Aug

Met þátttaka í hinni árlegu ferð sem Verkalýðsfélag Akraness býður eldri félagsmönnum í !

Met þátttaka er í ferðina sem Verkalýðsfélag Akraness býður eldri félagsmönnum í.  Það hafa um 130 eldri félagsmenn nú þegar  skráð sig í ferðina sem farin verður á morgun og sjaldan eða aldrei verið fleiri sem ætla þiggja boð félagsins.   Leiðin mun liggja um Snæfellsnesið og verða áhugaverðustu staðirnir á Snæfellsnesinu skoðaðir.   Borðaður verður hádegisverður að Búðum og síðan verður stoppað í Bjarnarhöfn og smakkað á hákarli og harðfiski.  Leiðsögumaður í ferðinni verður hinn geðþekki leiðsögumaður Björn Finsen sem þekkir Snæfellsnesið eins og lófana á sér.

26
Aug

Forsvarsmenn Fangs ehf óska eftir lengri fresti til að ganga frá nýjum fyrirtækjasamningi

Framkvæmdastjóri Fangs ehf. hafði samband við formann Verkalýðsfélags Akraness í morgun.  Óskaði framkvæmdastjórinn eftir því við stéttarfélagið að það sýndi enn meiri biðlund hvað varðar nýjan fyrirtækjasamning handa starfsmönnum Fangs.  Ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að gera drög að nýjum fyrirtækjasamningi er vegna mikilla anna hjá Samtökum atvinnulífsins að sögn forsvarsmanna Fangs.  Einnig kom fram hjá framkvæmdastjóranum að eigendur Fangs hefðu mikinn vilja til að klára fyrirtækjasamning fyrir 15. september.  Ef það tekst þá hafa starfsmenn verið samningslausir í tæpt ár.  Verkalýðfélag Akraness mun heyra í starfsmönnum eftir helgi og fara yfir stöðuna og ákveða hvað gera skuli.   Þessi framkoma eigenda Fangs ehf. er til háborinnar skammar og er þar vægt til orða kveðið, en Fang er í 100% eigu Íslenska járnblendifélagsins.  Verkalýðsfélag Akraness hefur ítrekað reynt að fá eigendur Fangs að samningaborðinu til að klára samning fyrir starfsmenn Fangs eins og aðra starfsmenn á Grundartangasvæðinu en ekkert hefur gengið.  Hjá Fangi ehf. eru 12 starfsmenn sem allt eru konur sem starfa við ræstingar og í mötuneyti Íslenska járnblendifélagsins.  Rétt er að það komi fram að gengið var frá kjarasamningum fyrir starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins og starfsmenn Klafa ehf. snemma í vor.  En kjarasamningar Íslenska járnblendifélagsins, Klafa og Fangs runnu allir út á sama tíma eða 1. desember 2004.   En það virðist vera að konurnar í ræstingu og mötuneyti skipti ekki eins miklu máli og aðrir starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins.  Enn og aftur er það mat Verkalýðsfélags Akraness þetta sé eigendum Fangs ehf. (Íslenska járnblendifélagsins á Fang ehf 100%) til mikilla vansa.

25
Aug

Enn bíða starfsmenn Fangs ehf eftir nýjum fyrirtækjasamningi !

Verkalýðsfélag Akraness bíður enn eftir drögum að nýjum fyrirtækjasamningi frá eigendum Fangs ehf.  En kjarasamningur starfsmanna rann út 1. desember 2004 og hafa starfsmenn því verið samningslausir í 9 mánuði sem er með öllu óásættanlegt.  Starfsmenn Fangs sjá um mötuneyti og ræstingu fyrir Íslenska járnblendifélagið og einnig um ræstingu og þvott fyrir Norðurál.  Töluvert er síðan forsvarsmenn fyrirtækisins lofuðu Verkalýðsfélagi Akraness tillögum að nýjum fyrirtækjasamningi og er því þolinmæði félagsins algerlega á þrotum.  Félagið vísaði deilunni til sáttasemjara fyrir um tveimur mánuðum og var einn fundur  haldinn hjá sáttasemjara.  Því fljótlega eftir fundinn hjá sáttasemjara lofuðu forsvarsmenn Fangs ehf. að koma með drög að nýjum fyrirtækjasamningi og eins og áður sagði hefur ekkert gerst í þeim málum.  Stéttarfélagið hefur gert eigendum Fangs ehf. grein fyrir því að komi ekki drög að nýjum fyrirtækjasamningi fyrir helgi, muni stéttarfélagið íhuga það sterklega að grípa til einhverja aðgerða.

24
Aug

Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar í heimsókn

Jóhann Ársælsson þingmaður Samfylkingarinnar kom í heimsókn á skrifstofu félagsins og átti formaður félagsins um klukkustundar spjall við þingmanninn.  Þau mál sem helst báru á góma voru málefni er líta að erlendu vinnuafli og þau undirboð sem er að eiga sér stað á vinnumarkaðinum samhliða erlendu vinnuafli.   Að sjálfsögðu ræddi formaðurinn við þingmanninn um málefni HB Granda og þann samdrátt sem orðið hefur á starfssemi fyrirtækisins hér á Akranesi og þær áhyggjur sem félagið hefur af þeim samdrætti.

23
Aug

Fundað um málefni Síldar-og fiskimjölsverksmiðjunnar með starfsmönnum og stéttarfélaginu í dag

Forsvarsmenn HB Granda funduðu með starfsmönnum og formanni VLFA um  framtíðarskipan Síldar-og fiskimjölverksmiðjunar í dag.  Fram kom í máli forsvarsmanna HB Granda að verksmiðjan hér á Akranesi er ætlað að gegna veigamiklu hlutverki á loðnuvertíðinni, en því miður kom líka fram að ekki er útlit á að kolmuna verði landað hér á Akranesi eins og gert hefur verið á liðnum árum.  Starfsmenn bræðslunnar voru ófeimnir við að láta í ljós óánægju sína með þá þróun sem átt hefur sér stað hvað varðar löndun á uppsjávarafla fyrirtækisins.  Starfsmenn bentu á að verksmiðjan hér á Akranesi er sú eina sem framleiðir hágæðamjöl.  Um þessar mundir fæst 10% meira fyrir hágæðamjöl miðað við standardmjöl.  Því er það mat félagsins og starfsmanna að það geti verið hagkvæmara að láta skipin sigla með aflann til bræðslu hér á Akranesi þar sem ekki er hægt að framleiða hágæðamjöl á Vopnafirði.   Nú eru aðilar að leita leiða til að halda í þá starfsmenn sem eftir eru í verksmiðjunni, því sú sérþekking sem starfsmennirnir búa yfir er eigendum HB Granda nauðsynlegur til að hægt sé að starfrækja síldarbræðsluna.  Ef eigendur fyrirtækisins ætla að halda í þá starfsmenn sem eftir eru verða þeir að koma til móts við þá með einum eða öðrum hætti.  Verkalýðsfélag Akraness lagði fram tillögu í þeim efnum á fundinum í dag og ætla forsvarsmenn HB Granda að svara þeirri tillögu eftir helgi.

22
Aug

Fundað um starfsemi Síldar-og fiskimjölsverksmiðjunnar á morgun

Forsvarsmenn HB Granda ætla að funda með starfsmönnum síldarbræðslunnar og formanni Verkalýðsfélagsins á morgun.  Tilefni fundarins er sú mikla óánægja starfsmanna með þann samdrátt sem orðið hefur á starfsemi síldarbræðslunnar á liðnu ári.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa tekjur starfsmanna dregist saman um allt að 56% á milli ára, er það vegna þess að megnið að uppsjávarafla fyrirtækisins hefur verðið landað á Vopnafirði en ekki hér á Akranesi . Nú þegar hafa 5 starfsmenn af 12 hætt störfum og þeir sem eftir eru eru að íhuga einnig að gera það sama.  Sú sérþekking sem starfsmenn Síldar-og fiskimjölsverksmiðjunnar búa yfir er fyrirtækinu afar mikilvæg.  Formaður félagsins og  trúnaðarmaður nefndu því við forsvarsmenn HB Granda á fundinum á miðvikudaginn, að fyrirtækið verði að mæta þeim mikla samdrætti á launum starfsmanna  með einum eða öðrum  hætti.  Væntanlega munu forsvarsmenn fyrirtækisins svara þessari beiðni félagsins á morgun.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image