• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Oct

Hluti stjórnarmanna VR styður tillögu Verkalýðsfélags Akraness sem lögð verður fyrir ársfund ASÍ

Skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness barst rétt í þessu stuðningsyfirlýsing vegna tillögu VLFA um stóraukið lýðræði við val á stjórnarmönnum lífeyrissjóðanna. Yfirlýsingin er frá hluta af stjórnarmönnum VR, sem er eitt stærsta félagið innan Alþýðusambands Íslands.

Það er afar ánægjulegt að fá þessa stuðningsyfirlýsingu nú þegar einungis þrír dagar eru þar til ársfundur Alþýðusambands Íslands hefst. Þar mun tillaga VLFA einmitt verða tekin til umfjöllunar og afgreiðslu.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur tekið tillögu VLFA til umsagnar og samþykkir því miður einungis fyrri hluta tillögunnar og leggur til að staðið verði fyrir almennri umræðu aðildarfélaga ASÍ með það að markmiði að leggja drög að endurskoðaðri stefnu ASÍ í lífeyrismálum.

Seinni hluta tillögu VLFA, sem skiptir hvað mestu máli og lýtur að breytingu á reglugerðum sjóðanna þannig að sjóðsfélagar kjósi stjórnarmenn beinni kosningu, er miðstjórn ASÍ ekki tilbúin til að samþykkja. Þessi afstaða miðstjórnar er stjórn VLFA óskiljanleg. Í umsögn miðstjórnar ASÍ er lagt til að seinni hluti tillögu VLFA verði ekki tekinn fyrir sérstaklega á ársfundinum en tillagan verði hins vegar til umfjöllunar í almennri umræðu meðal aðildarfélaga ASÍ um lífeyrismál. Miðstjórn telur hins vegar ekki ástæðu til að gefa sér fyrirfram neina niðurstöðu í þeirri vinnu er lýtur að breytingum á stjórnarskipun lífeyrissjóðanna.

Hægt er að lesa tillögu stjórnar og trúnaðarráðs VLFA hér.

Hægt er að lesa umsögn ASÍ hér.

Hægt er að lesa stuðningsyfirlýsingu fulltrúa VR hér.

14
Oct

Verkalýðsfélag Akraness er 85 ára í dag

Í dag eru liðin 85 ár frá stofnun Verkalýðsfélags Akraness. Í tilefni afmælisins hefur veglegu afmælisblaði verið dreift í öll hús á Akranesi. Stjórn og starfsmenn óska félagsmönnum öllum innilega til hamingju með daginn.

Hér á eftir fer frásögn af stofnun félagsins:

Það var fimmtudaginn 9. okt. 1924, að allmargir sjómenn og verkamenn og ein kona, komu saman til fundar í Báruhúsinu á Akranesi, í þeim tilgangi að vinna að undirbúningi að stofnun verkalýðsfélags á Akranesi.

 Það fólk sem hér var samankomið, var hert í miskunnarlausri baráttu fyrir lífshagsmunum sínum og heimila sinna.  Þetta voru menn, sem sóttu sjóinn á litlum vélbátum og sumir á opnum árabátum, af miklu kappi, - verkamenn sem báru daginn út og daginn inn, og kona sú, sem getið er í fundargerðinni, vann við fiskþvott, en slíkt starf var að mestu unnið í óupphituðu húsnæði, og stundum undir beru lofti, og kom fyrir að brjóta þurfti ís af þvottakörunum áður en fiskþvottur gæti hafist.

 Fundarstjóri á þessum fundi var kjörinn Sveinbjörn Oddsson, og fundarritari Sæmundur Friðriksson.  Frummælandi á þessum undirbúningsfundi var Oddur Sveinsson á Akri.        

 Hann flutti snjallt erindi um alþýðuhreyfinguna í Evrópu, og lýsti starfi hennar og stefnu, og hversu miklu hún gæti komið til leiðar með starfsemi sinni.  Hvatti Oddur eindregið til stofnunar verkalýðsfélags hér á Akranesi. 

 Þá ræddi Sæmundur Friðriksson, um stofnun verkalýðsfélags, og lýsti því hversu mikla þýðingu slíkur félagsskapur gæti haft fyrir verkalýðinn á sjó og landi, bæði í kaupgjalds- og atvinnumálum.    

 Sveinbjörn Oddsson kvað ekki hægt á einu kvöldi, að sýna fram á hvernig best væri ráðin bót á öllu því sem umbóta þurfti með, og lýsti á hvern hátt hann hyggði, að verkalýðsfélag gæti náð árangri ef stofnað yrði.  

 Auk þess töluðu þeir Þorsteinn Benediktsson og Sigurður Jörundsson, og mæltu þeir báðir með stofnun verkalýðsfélags.  Þess ber að geta, að bræðurnir frá Teig, Ásgrímur, Sigurjón og Stefán, stuðluðu mjög að stofnun félagsins.      

 Á fundi þessum var kosin 5 manna nefnd, til þess að vinna að frekari undirbúningi.  Kosningu hlutu eftirtaldir menn:  Sveinbjörn Oddsson, Sæmundur Friðriksson, Jörgen Hansson, Indriði Jónsson og Oddur Sveinsson.      

 Þá var kosin 9 manna nefnd til þess að gera tillögur um stjórn fyrir væntanlegt félag og hlutu kosningu eftirtaldir:  Indriði Jónsson, Sigurjón Sigurðsson, Sigurður Björnsson, Eiríkur Guðmundsson, Jónas Guðmundsson, Ólafur Kristjánsson, Gísli Einarsson, Halldór Sigurðsson og frú Sveinsína Sveinsdóttir.  Síðan var fundi frestað og framhaldsfundur boðaður hinn 14. okt. 1924.      

 

Framhaldsfundur var haldinn boðaðan fundardag, og þá lagt fram frumvarp að lögum fyrir félagið og það samþykkt samhljóða á fundinum.  Stofndagur Verkalýðsfélags Akraness er því 14. október 1924.  Stofnendur munu hafa verið alls 108 að tölu.

1. grein laganna hljóðaði svo:

Félagið heitir:  Verkalýðsfélag Akraness. Starfssvið: Ytri Akraneshreppur.

2. grein:

Tilgangur félagsins er að efla og styðja hag og menningu alþýðunnar á því svæði, sem félagið nær yfir, með því að vinna að sjálfsbjargarviðleitni almennings, ákveða vinnutíma og kaupgjald, og með sjálfstæðri þátttöku alþýðunnar í stjórnmálum lands og sveitarfélags, allt í samræmi við önnur verkalýðsfélög og Alþýðusambandið. 

 Fyrsta stjórn félagsins var skipuð eftirtöldum mönnum:  Formaður:  Sæmundur Friðriksson; ritari:  Oddur Sveinsson og féhirðir Eiríkur Guðmundsson, Tungu.  Meðstjórnendur:  Jörgen Hansson og Ágúst Ásbjörnsson; varaformaður:  Sveinbjörn Oddsson; vararitari:  Gísli Gíslason og varaféhirðir:  Jónas Guðmundsson.

 

Formenn Verkalýðsfélags Akraness frá stofnun þess á árinu 1924.

1924-1925         Sæmundur Friðriksson

1925-1937         Sveinbjörn Oddsson

1937-1961         Hálfdán Sveinsson

1961-1966         Guðmundur Kristinn Ólafsson

1966-1981         Skúli Þórðarson

1981-1986         Agnar Jónsson

1986-1989         Guðmundur M. Jónsson

1989-2003         Hervar Gunnarsson

2003-                Vilhjálmur Elías Birgisson

14
Oct

Formaður VLFA í þættinum Hrafnaþingi

Formaður félagsins var gestur í þættinum Hrafnaþingi á sjónvarpsstöðinni Inn hjá Ingva Hrafni Jónssyni í gær.

Formaðurinn kom víða við í viðtalinu m.a endurskoðun kjarasamninga frá því vor, fyrirhugaðan Orku- umhverfs og auðlindaskatt sem mun stofna störfum í stóriðju í hættu ef af honum verður.  Einnig kom formaðurinn inn á lífeyrissjóðina og hugmyndina að stórauknu lýðræði við stjórnarval sjóðanna.  Hægt að sjá þáttinn því að smella hér.

14
Oct

Baráttan um sólarkísilflöguverksmiðju tapast endanlega ef

Baráttan um að fá nýja sólarkísilflöguverksmiðju á Grundartanga sem Elkem Ísland er að berjast fyrir mun tapast endanlega ef nýr Orku-, umhverfis- og auðlindaskattur verður að veruleika. Þetta kom meðal annars fram í máli forstjóra Elkem Íslands, Einars Þorsteinssonar, á fundi með þingmönnum Norðvestur kjördæmis á föstudaginn var.

Elkem Ísland er í baráttu um að fá þessa verksmiðju hingað til lands við Kanada og eitt Asíuríki. Þessi nýja verksmiðja myndi skila 350 nýjum störfum, þar á meðal yrði töluvert af hátæknistörfum verksmiðjunni tengdri. Það kom einnig fram í máli Einars að ef þessi skattur verður að veruleika er verið að setja núverandi störf starfsmanna Elkem Ísland í umtalsverða hættu. Þessi nýi skattur mun þýða um tveggja milljarða aukaskatt á fyrirtækið en eins og fram hefur komið á heimasíðunni hefur fyrirtækið aldrei skilað slíkum hagnaði frá stofnun þess.

Það kom að lokum fram í máli Einars að fyrirtækið hefur fjárfest hér á landi á undanförnum misserum fyrir um 8 milljarða króna og nýverið var tekin ákvörðun um að ráðast í gagngerar endurbætur á ofni 3 sem er stærsti ofninn. Hann tjáði einnig á fundinum að ef þessi fyrirhugaði skattur hefði verið til staðar þegar ákvörðun um viðhald á ofni 3 var tekin hefðu eigendur fyrirtækisins að öllum líkindum tekið ákvörðun um að slökkva á ofninum sem hefði þýtt að rúmlega 30 manns hefðu hugsanlega misst atvinnu sína.

Þessi vanhugsaði skattur er formanni Verkalýðsfélags Akraness óskiljanlegur í ljósi þess að verið er að setja rekstrargrundvöll stóriðjufyrirtækja í stórhættu og þar af leiðandi störf starfsmannanna líka. Það er mat formanns að hér sé Ríkisstjórn Íslands að kasta meiri hagsmunum fyrir minni.

12
Oct

Störf í stóriðju sett í hættu

Hitafundur á Akranesi um Orku-, umhverfis- og auðlindaskatt.Hitafundur á Akranesi um Orku-, umhverfis- og auðlindaskatt.Verkalýðsfélag Akraness og bæjaryfirvöld stóðu fyrir fundi á föstudaginn var þar sem fjallað var um fyrirhugaðan nýjan skatt sem nefnist Orku-, umhverfis- og auðlindaskattur. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi nýi skattur eigi að geta skilað ríkissjóði 16 milljörðum króna.

Til fundarins voru boðaðir allir þingmenn Norðvesturkjördæmis ásamt iðnaðarráðherra, einnig var forstjórum stóriðjufyrirtækjanna Norðuráls, Elkem Ísland og Sementsverksmiðjunnar boðið á fundinn. Því miður sáu einungis þrír þingmenn sér fært að mæta en það voru þeir Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, Einar Kr. Guðfinnsson og Ásbjörn Óttarsson.

Fram kom í máli Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls, að honum fyndist óskiljanlegt að mæting þingmanna væri ekki betri í ljósi þess alvarleika sem þetta mál væri. Það kom einnig fram í máli hans að verið væri að stefna rekstraröryggi verksmiðjunnar í hættu ef þessi áform yrðu að veruleika. Einar Þorsteinsson, forstjóri Elkem Íslands, sagði að sú mikla uppbygging sem verið hefur hjá fyrirtækinu á undanförnum misserum hefði ekki orðið að veruleika ef tillögur sem nú er getið um í fjárlagafrumvarpinu hefðu verið fram komnar þegar ákvörðun var tekin um stækkun verksmiðjunnar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness tók til máls á fundinum og bað stjórnvöld vinsamlegast um að endurskoða þennan nýja skatt sem á að setja á stóriðjufyrirtækin einfaldlega í ljósi þess að verið er að setja störf starfsmanna í stóriðjum í umtalsverða hættu með slíkri skattlagningu. Formaðurinn sagði einnig að hægt væri að ná meira út úr stóriðjunum til ríkisins með því að hækka laun starfsmanna en slíkt skilar sér að sjálfsögðu í auknum skatttekjum til ríkis og sveitarfélaga.

Það kom einnig fram á fundinum að áform stjórnvalda eru fordæmalaus í sögu landsins og ganga auk þess þvert á gerða alþjóðasamninga. Fyrirtækin eru með langtíma orkusamninga og Norðurál er til að mynda nýbúið að undirrita fjárfestingarsamning sem fyrirtækin vinna sínar áætlanir útfrá. Með þessum hugmyndum er verið að skapa stórhættu með að nokkur erlendur fjárfestingaraðili hafi áhuga á að fjárfesta hér á landi.

08
Oct

Kjör stjórnar Verkalýðsfélags Akraness

Samkvæmt 29. gr. laga Verkalýðsfélags Akraness ber að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu um kjör stjórnar.

Framboðslistum til stjórnarkjörs í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2009, ásamt meðmælendum skv. reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslur, ber að merkja kjörstjórn og skila á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 fyrir kl. 12:00 þann 23. október nk.

Hvert það framboð er gilt sem fram kemur innan þess tíma og hefur skriflegt samþykki þeirra sem framboðslistann skipa.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur lagt fram framboðslista til stjórnar. Berist kjörstjórn ekki aðrir listar telst framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs sjálfkjörinn til næstu tveggja ára.

Framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs er nú til kynningar hér á heimasíðu félagsins, hægt er að skoða listann með því að smella á meira.

 

Framboðslisti stjórnar og trúnaðarráðs

 

Aðalstjórn    

Formaður           

Vilhjálmur Birgisson     

050865-5339

Varaformaður

Bryndís Ó. Guðjónsdóttir      

160859-3859

Ritari

Guðmundur R. Davíðsson

150254-4939

Vararitari

Þórarinn Helgason               

200350-4489

Meðstjórnandi

Júlíus Pétur Ingólfsson               

080159-3079

Varameðstjórnandi          

Skúlína Guðmundsdóttir     

310760-3239

                          

Formenn deilda

Stóriðjudeild          

Oddur Kristinn Guðmundsson

060966-4869

Almenn deild

Elí Halldórsson

301246-2699

Opinber deild

Sigríður Sigurðardóttir

280647-4119

Matvæladeild

Guðrún Linda Helgadóttir

100865-5489

Iðnsveinadeild

Sigurður Guðjónsson

170342-4379

Sjómanna- og vélstjórad.

Jóhann Örn Matthíasson

020945-2579

Varaformenn deilda

Stóriðjudeild

Jón Jónsson

131038-4299

Almenn deild

Tómas Rúnar Andrésson

050559-4169

Opinber deild

Guðrún Guðbjartsdóttir

181175-5759

Matvæladeild

Alma M. Jóhannsdóttir

220856-4459

Iðnsveinadeild           

Þórólfur Guðmundsson

230674-4859

Sjómanna og vélstjórad.  

Svavar S. Guðmundsson

050569-3579

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image