• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Jun

Ráðið í stöðu skrifstofumanns

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur ráðið í stöðu skrifstofumanns.  Alls voru 17 sem sóttu um starfið, það var afar vandasamt fyrir stjórn félagsins að velja úr svo hæfum hópi umsækjenda.

En niðurstaða stjórnar var að ráða Auði Finnbogadóttur í starfið.  Auður hefur starfað hjá Haraldi Böðvarssyni sem launafulltrúi í 28 ár, og er því með gríðarlega reynslu af skrifstofustörfum.  Hún mun hefja störf 18. júlí.  Haraldur Ingólfsson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri félagsins, og vill stjórn félagsins þakka Haraldi kærlega fyrir frábært starf í þágu Verkalýðsfélags Akraness.  Hugrún Olga Guðjónsdóttir hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Verkalýðsfélags Akraness.

07
Jun

Ríkissamningurinn samþykktur

Rétt í þessu var að ljúka félagsfundi þar sem kosið var um kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkisjóðs sem undirritaður var 7. apríl 2004. Á kjörskrá voru 80, alls greiddu 25 atkvæði eða 31% félagsmanna.

Já sögðu 22 félagsmenn eða 88%
Nei sögðu 2 félagsmenn eða 8%
Auðir og ógildir seðlar voru 1 eða 4%

Niðurstaða liggur fyrir, kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkisjóðs frá 7. apríl er samþykktur í Verkalýðsfélagi Akraness. 
 

05
Jun

Sjómenn til hamingju með daginn

Verkalýðsfélag Akraness óskar öllum sjómönnum til hamingju með daginn.  Með von um að kjaradeilu ykkar ljúki sem allra fyrst.

03
Jun

Tveir starfsmenn Klafa fá leiðrétt laun uppá kr. 689,854.

Verkalýðsfélag Akraness vann stóran sigur í dag þegar forsvarsmenn Klafa hörfuðu frá fyrri túlkun sinni á kjarasamningi, og féllust á túlkun félagsins.   Ágreiningurinn var sá að forsvarsmenn Klafa,  töldu sig geta greitt eftir tveimur kjarasamningum þ.e.a.s þeir starfsmenn sem störfuðu áður hjá Íslenska Járnblendifélaginu myndu halda óbreyttum launum, en þeir starfsmenn sem síðar kæmu til starfa hjá fyrirtækinu myndu fá greitt eftir kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands, sem eru umtalsvert lakari kjör.  Þetta var sem sagt túlkun forsvarsmanna Klafa.
 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness leitaði til lögmanns félagsins, þegar það kom í ljós að stjórnendur Klafa neituðu að leiðrétta laun tveggja starfsmanna sem ekki voru að fá greitt eftir gildandi kjarasamningi.  Lögmaður félagsins  var fyllilega  sammála túlkun stjórnar félagsins um að einungis væri einn kjarasamningur í gildi milli Klafa og Verkalýðsfélag Akraness, og í honum stendur orðrétt.
“Í tengslum við stofnun Klafa ehf. hefur eftirfarandi orðið að samkomulagi hvað varðar kjaraatriði fyrir starfsmenn hins nýja félags Klafa.  Kjarasamningur Íslenska járnblendifélagsins hf. gildir hvað varðar öll kjaraatriði og gildistíma, með þeim fyrirvörum sem í samkomulagi þessu greinir.” Skýrara gat það vart verið.

Verkalýðsfélag Akraness var staðráðið í að leita til dómstóla með þetta mál til að varðveita rétt okkar félagsmanna, en eins og að ofan greinir kom ekki til þess þar sem stjórnendur Klafa féllust á að leiðrétta laun tveggja starfsmanna aftur í tímann hljóðar sú leiðrétting uppá 689.854, krónur til þessa tveggja starfsmanna sem nánast skiptist í tvennt milli þeirra. Því til viðbótar munu þeir fá sömu laun og aðrir starfsmenn Klafa
sama hvort þeir hafi verið fyrrverandi starfsmenn ÍJ eða ekki, munar það vel á annan tug þúsund króna í laun á mánuði.  Það er og verður stefna stjórnar Verkalýðsfélags Akraness, ef við teljum og höfum fengið mat á því að það sé verið að brjóta á réttindum okkar félagsmanna þá mun stjórn VLFA  fylgja þeim málum eftir af fullum þunga.

02
Jun

Lausar vikur í orlofsíbúðum félagsins

Nú hefur farið fram úthlutun og endurúthlutun á orlofshúsum/íbúðum félagsins.  Enn eru þó nokkrar vikur lausar til útleigu.  Yfirlit yfir lausar vikur er hægt að skoða ef smellt er á "orlofshús" hér til hliðar.  Hægt er að hringja á skrifstofu félagsins og semja um leigu, síminn er 430-9900, eða koma á Sunnubraut 13, opið er frá kl. 9-16.  Fyrstur kemur fyrstur fær!

31
May

Félagsfundur um ríkissamninginn

Viljum minna á fundinn um ríkissamninginn þriðjudaginn 1. júní kl 20:00 að Kirkjubraut 40. 3, hæð.  Þeir sem vinna eftir ríkissamningum eru eindregið hvattir til að mæta.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image