• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Jan

Verulegur launamunur á milli starfsmanna Reykjavíkurborgar og starfsmanna Akraneskaupstaðar fyrir sambærileg störf !

Verkalýðsfélag Akraness hefur haldið áfram að bera saman kjör starfsmanna Reykjavíkurborgar sem vinna eftir nýgerðum  kjarasamningi Eflingar og starfsmanna Akraneskaupstaðar en þeir vinna eftir kjarasamningi Launanefndar sveitafélaga.

Það er verulega sláandi þegar rýnt er í samanburð á launatöxtum þessara tveggja sveitafélaga, en í þessum samanburði er um að ræða mjög sambærileg störf.  Hér á heimsíðunni var bent á launamun almennra verkamanna og skólaliða og var launamunurinn hjá verkamönnum 9.2% og skólaliðum 12.5%

Verkalýðsfélag Akraness hefur nú borið saman launamun þeirra starfsmanna sem starfa við heimaþjónustu, flokkstjórn við bæjarframkvæmdir, Matráð (yfirmaður) og ræstingu.  Launamunurinn milli starfsmanna Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar fyrir áðurnefnd störf er eftirfarandi:

Heimaþjónusta I Rvk. 136.599 Akrn 109.355 mism 24.9%

Heimaþjónusta II Rvk. 147.177 Akrn 130.748 mism 12.5%

Heimaþjónusta III Rvk. 156.208 Akrn 134.700 mism 16%

Verkamaður(flokkstjóri) Rvk 163.344 Akrn 128.816 mism 26%

Matráður(yfirmaður) Rvk 163.344 Akrn 151.738 mism 7.6%

Aðstoðarmaður í eldhúsi Rvk 119.485 Akrn 107.740 mism 11%

Ræsting Rvk 117.720 Akrn 107.740 mism 9.2 %

Eins og sést á þessari samantekt á launkjörum starfmanna Akraneskaupstaðar og Reykjavíkurborgar er verulegur launamunur sem Verkalýðsfélag Akraness á verulega erfitt með að sætta sig við og vart hægt að láta átölulaust.

Félagið bíður eftir viðbrögðum bæjarráðs vegna bréfs sem félagið sendi inn þar sem óskað var eftir viðbrögðum bæjaryfirvalda á þeim mikla launamun sem orðin er á milli Reykjavíkurborgar og Akraneskaupstaðar.  Erindi félagsins var tekið fyrir á bæjarráðsfundi í gær. 

Formaður Eflingar Sigurður Bessason hefur hælt Steinunni Valdísi borgarstjóra í hástert  fyrir það að hækka laun þeirra sem hafa lægstu launin og undir það tekur formaður Verkalýðsfélags Akraness.  Mættu önnur sveitafélög fara að fordæmi Reykjavíkurborgar, hvað það varðar.

11
Jan

Formaður félagsins fór í hefðbundna eftirlitsferð um stækkunarsvæði Norðuráls í morgun

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fór í hefðbundna eftirlitsferð inn á stækkunarsvæði Norðuráls í morgun.  Eftirlitið lítur m.a að aðbúnaði og kjörum erlendra starfsmanna sem starfa við stækkun Norðuráls.   

Það sem kannað var í morgun lítur að hóp erlendra starfsmanna sem koma frá Slóvakíu og munu vinna við niðursetningu á ofnum í Skautsmiðjunni. 

Formaður félagsins fékk allar þær upplýsingar sem óskað var eftir hjá verktakanum sem sér um verkið og er það afar ánægjulegt þegar verktakar eru jafn samvinnufúsir eins reyndist í morgun.  En ekkert bendir til annars en aðbúnaður og kjör Slóvakana séu í samræmi við íslenska kjarasamninga.

Eigendur Norðuráls funduðu með Verkalýðsfélagi Akraness fyrir jól um málefni erlends vinnuafls á stækkunarsvæði Norðuráls.  Það kom skýrt fram hjá forsvarsmönnum Norðuráls á þeim fundi að ekki yrði liðið að verkatakar myndu hunsa þær leikreglur sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

Þessi afstaða eiganda Norðuráls hefur gert það að verkum að verktakar sem vinna við stækkun Norðuráls reyna eftir fremsta megni að hafa hlutina í lagi.  Það er allavega mat formanns félagsins eftir eftirlitsferðina í morgun.

09
Jan

Verkalýðsfélag Akraness hefur óskað eftir fundi með bæjarráði

Verkalýðsfélag Akraness hefur sent bæjarráði Akranesskaupstaðar bréf þar sem óskað er eftir fundi.  Í bréfinu er óskað eftir viðbrögðum bæjarráðs vegna nýgerðs kjarasamnings Eflingar við Reykjavíkurborg. 

Kjarasamningurinn sem Efling undirritaði 4. des felur í sér mun hagstæðari tengingu við  við launatöflu fyrir starfsmenn borgarinnar en samningur sem Starfsgreinasamband Íslands gerði 29. maí við Launanefnd sveitarfélag gagnvart starfsmönnum annarra sveitarfélaga.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar þeirri stefnu sem Reykjavíkurborg hefur tekið í að bæta kjör þeirra sem lægstu hafa launin.  Vonandi munu önnur sveitarfélög fylgja að fordæmi Reykjavíkurborgar og lagfæra kjör þeirra sem lægstu hafa launin.

Hér eru tvö dæmi um hvernig kjörin eru mismunandi eftir því hvort starfsmenn vinna eftir kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga eða kjarasamningi Reykjavíkurborgar en um mjög sambærileg störf er um að ræða:

Almennur verkamaður hjá Reykjavíkurborg er með í byrjunarlaun 123.097 hjá Akraneskaupstað 112.661 mismunur 10.436 þúsund eða 9.2%

Skólaliði hjá Reykjavíkurborg er með í byrjunarlaun 134.599

hjá Akraneskaupstað eru byrjunarlaunin 119.575 mismunur 15.024 þúsund á mánuði eða 12.5%

Verkalýðsfélag Akraness gerir ráð fyrir, að það geti ekki verið vilji forsvarsmanna Akraneskaupstaðar að starfsmenn kaupstaðarins, hafi allt önnur og lakari launakjör en starfsmenn Reykjavíkurborgar sem sinna sambærilegum störfum.  Á þeirri forsendu er óskað eftir fundi með bæjarráði, til að ræða hvernig brugðist skuli við þessari stöðu sem upp er komin. Félagið telur að verði tenging starfsmats við launatöflu og símenntunarflokka ekki samræmd milli þessara hópa, þá hafi öll vinnan við starfsmatið verið til einskis unnin.

Hægt er að lesa bréfið til bæjarráðs með því að smella á meira.

Bæjarráð Akraneskaupstaðar

Stillholti

300 Akranes                                                                           Akranesi 9. janúar 2005

 

Efni: Viðbrögð við nýgerðum kjarasamningi Eflingar og Reykjavíkurborgar

Efling Stéttarfélag og Reykjavíkurborg undirrituðu kjarasamning 4. desember sl., sem færir þeim hópum starfsmanna borgarinnar sem hafa haft hvað lökust kjör, verulegar launahækkanir. Þessu ber að fagna og jafnframt því að með þessum samningi eru lagfærð laun þeirra sem starfa við umönnun barna og aldraðra. Oftast eru það konur sem þessum störfum sinna og löngu orðið tímabært að meta þeirra störf að verðleikum.

Starfsgreinasamband Íslands og Launanefnd sveitarfélaga undirrituð kjarasamning 29. maí sl. sem byggður er á sama starfsmatskerfi og samningur Eflingar og Reykjavíkurborgar og hefur mikil vinna verið lögð í að koma því kerfi á. Tilgangurinn hefur verið m.a. að þróa aðferðir til að greiða sömu laun fyrir jafn verðmæt störf, óháð kyni eða því hjá hvaða sveitarfélagi þau væru unnin. Við þessa vinnu hefur verið mjög gott samstarf milli aðila, bæði mismunandi stéttarfélaga, þ.e. ASÍ og BSRB félaga og launanefndar.

Kjarasamningurinn sem undirritaður var 4. des. felur í sér mun hagstæðari tengingu við  við launatöflu fyrir starfsmenn borgarinnar en samningurinn frá 29. maí gera gagnvart starfsmönnum annarra sveitarfélaga.

Verkalýðsfélag Akraness gerir ráð fyrir, að það geti ekki verið vilji forsvarsmanna Akraneskaupstaðar að starfsmenn kaupstaðarins, hafi allt önnur og lakari launakjör en starfsmenn Reykjavíkurborgar sem sinna sambærilegum störfum. Hér með er óskað eftir fundi með bæjarráði, til að ræða hvernig brugðist skuli við þessari stöðu sem upp er komin. Félagið telur að verði tenging starfsmats við launatöflu og símenntunarflokka ekki samræmd milli þessara hópa, þá hafi öll vinnan við starfsmatið verið til einskis unnin.

Einnig þarf að ræða um sérákvæði sem félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness voru með í sínum kjarasamningi og lítur að sumaruppbót og fermetragjaldi í flatarmældri ákvæðisvinnu.  En ekki var tekið tillit til þessara sérákvæða þegar gengið var frá nýjum kjarasamningi við Launanefnd sveitarfélaga 29. maí 2005

Virðingarfyllst,

Vilhjálmur Birgisson

formaður

06
Jan

Verkalýðsfélag Akraness mun gefa út dagbók fyrir félagsmenn

Verkalýðsfélag Akranes mun gefa út dagbók fyrir félagsmenn og mun  dagbókin einnig gilda sem félagskírteini.  Ýmsar hagnýtar upplýsingar verða í dagbókinni eins t.d um veikindarétt félagsmanna og margt fleira.  Dagbókin er komin í prentun og mun verða póstlögð seinni partinn í næstu viku til félagsmanna.

04
Jan

Viðurkennum að almennt verkafólk sat illilega eftir í síðustu kjarasamningum miðað við aðra hópa !

Verkalýðsfélag Akraness hefur að undanförnu verið að benda á hversu illa verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fór út úr sínum kjarasamningi, sé tekið mið af öðrum kjarasamningum. 

Í frétt sem birtist hér á heimasíðunni á þriðjudag undir fyrirsögninni af hverju gat Starfsgreinasambandið ekki samið fyrir verkafólk á almenna markaðinum... var sýndur samanburður á þeim kjarasamningum sem gerðir hafa verið á íslenskum vinnumarkaði frá því að samningurinn á almenna markaðnum var gerður 7. mars 2004.  Þennan samanburð vann hagfræðingur ASÍ Ólafur Darri Andrason. 

Samanburðurinn vakti þó nokkra athygli þar sem hann sýndi svart á hvítu og staðfesti um leið hvernig kjarasamningurinn á almenna markaðnum var langtum lakari heldur en aðrir kjarasamningar sem gerðir voru. 

Fréttamaður af Blaðinu hafði samband við formann félagsins þar sem þeim á Blaðinu þótti þetta nokkuð athygli verðar upplýsingar um kostnaðaráhrif kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði.  

Tekið var viðtal við formann félagsins um þennan samanburð sem hagfræðingur ASÍ hafði unnið og birtist fín frétt um málið í Blaðinu á þriðjudaginn var. 

Í Blaðinu í dag birtist hins vegar frétt við formann Starfsgreinasambands Íslands þar sem hann er spurður útí þennan samanburð sem birtist hér á heimasíðunni.

Formaður SGS sagði að ekki væri sanngjarnt að bera kjarasamninga saman með þessum hætti, það yrði að taka tillit til gildistíma samninganna annars væru menn að bera saman epli og appelsínur.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill að það komi skýrt fram að hagfræðingur ASÍ tók akkúrat tillit til þess í þessum samanburði á kostnaðaráhrifum kjarasamninganna. 

Í samanburðinum miðaði hagfræðingurinn við 48 mánuði eins og gildistími samningsins á almenna markaðinum er. Hann umreiknaði þá kjarasamninga sem gilda í skemmri eða lengri tíma,  einmitt til að gera samanburðinn sambærilegan. 

Því miður er það bláköld staðreynd að verkafólk á hinum almenna markaði fékk langtum minna heldur en aðrir hópar og er það eitthvað sem við í Starfsgreinasambandi Íslands eigum viðurkenna og læra af.

Samanburðurinn frá hagfræðingi ASÍ lítur svona út eftir að tekið hefur verið tillit til gildistíma kjarasamninganna

Kostnaðaráhrif þeirra kjarasamninga sem Starfsgreinasamband Íslands gerði voru eftirfarandi:

Almenni markaðurinn.                   15.8%

Við ríkið.                                          24.0%

Við Sveitarfélögin                             23.9%   

 

Kostnaðaráhrif annarra kjarasamninga

BSRB félög við Sveitarfélögin             23.6%

BSRB við ríkið                                  20.8%

KÍ framhalds                                    25.8%

KÍ grunnskóli                                   30.0%

KÍ leikskóli                                      37.0%

Efling við Reykjavíkurborg                30.0%

Eins og sést á þessum launasamanburði hagfræðings ASÍ þá sitja þeir sem lægstu hafa launin enn og aftur eftir og er það sorglegt.

Það er líka undarlegt að við endurskoðun  á forsendum kjarasamninga var ekkert tillit tekið til þess að kjarasamningur á almenna markaðinum var langtum rýrari en aðrir samningar eins samanburðurinn sannar.  Að sjálfsögðu átti forsendunefnd ASÍ og SA að grípa til sérstakar leiðréttingar fyrir almennt verkafólk.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness mótmælti á formannafundi SGS harðlega þeirri niðurstöðunni sem kom frá forsendunefndinni á sínum tíma.   

Það eina sem hægt er að gera í þessu er að læra af þessu og láta þessu líkt aldrei gerast aftur.  Því er rétt að nota slagorð Starfsgreinasambandsins þegar gengið verður til kjarasamningagerðar í árslok 2007, Sameinuð til sóknar !

03
Jan

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar nýjum tillögum dómsmálaráðherra um skipan lögreglumála

Embætti lögreglustjórans á Akranesi verður lykilembætti en ekki embættið í Borgarnesi eins og tillögur höfðu verið gerðar um. Þetta kom fram í tillögum sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Sem kunnugt er lagði nefnd um nýskipan lögreglumála það til í haust að embætti lögreglustjórans í Borgarnesi yrði svokallað lykilembætti. Jafnframt yrði stofnuð þar rannsóknardeild en rannsóknardeild sem starfað hefur um áratuga skeið á Akranesi yrði jafnframt lögð niður.   Stjórn Verkalýðsfélags Akraness mótmælti þessari tillögu á sínum tíma harðlega og sendi frá sér ályktun vegna þess.  Nú hefur dómsmálaráðherra ákveðið að embætti lögreglustjórans á Akranesi verði lykilembætti og fagnar Verkalýðsfélag Akraness þessum nýju tillögum dómmálráðherra.  Ályktunin sem stjórn VLFA sendi frá sér á sínum tíma vegna þessa máls hljóðaði eftirfarandi:

Ályktun

Akranesi 23. nóvember 2005

 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness mótmælir harðlega fyrirhugaðri skerðingu á starfsemi lögreglunnar á Akranesi. Telur stjórnin varhugavert með hliðsjón af stærð bæjarfélagsins að flytja rannsókn mála í annað umdæmi. 

Samskipti félagsins við lögregluyfirvöld í Borgarnesi vegna atvika á starfssvæði félagsins á Grundartanga styrkja þessa skoðun.

Telur stjórn félagsins mun eðlilegra að starfsemi lögreglunnar á Akranesi verði efld og umdæmi hennar stækkað og látið m.a. ná til Grundartanga, en mikill meiri hluti þeirra sem þar starfa búa á Akranesi.

Það er mat stjórnar félagsins að tillögur um skerðingu á löggæslu á Akranesi sé mjög svo óeðlilegt.  Sé tekið mið af því að í næsta nágreni við umdæmi lögreglunar á Akranesi er mesta umferðarsvæði landsins bæði á sjó og landi.  Einnig hefur á síðustu árum orðið gríðarleg aukin á allri starfsemi á stóriðjusvæðinu á Grundartanga.

Stjórn Verkalýðsfélag Akraness skorar á dómsmálaráðherra sem og þingmenn Norðurvesturkjördæmis að tryggja að fyrirhuguð skerðing á löggæslumálum Akurnesinga verði ekki að veruleika.

Einnig skorar stjórn Verkalýðsfélag Akraness á dómsmálaráðherra og þingmenn Norðurvesturkjördæmis að beita sér fyrir því að lögreglan á Akranesi verði efld til muna og umdæmi hennar stækkað.

F.h stjórnar, Verkalýðsfélags Akraness

______________________________________

Vilhjálmur Birgisson, formaður

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image