• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Apr

Svartur dagur hjá íslensku launafólki

Það er svartur dagur í dag hjá íslenskum launþegum vegna þeirra ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands að falla frá takmörkunum á innflutningi vinnuafls frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins.  Ríkisstjórnin samþykkti í morgun lagafrumvarp Jóns Kristjánssonar, félagsmálaráðherra, um að aflétt verði takmörkunum á innflutningi vinnuafls frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins frá og með 1. maí. Samkvæmt því verður ríkisborgurum viðkomandi ríkja heimilt að koma hingað í atvinnuleit og ráða sig í vinnu án atvinnuleyfis en vinnuveitendur verða að tilkynna um ráðningu til Vinnumálastofnunar.

Í dag virkar þetta þannig að atvinnurekendur þurfa að sækja um atvinnuleyfi fyrir erlent vinnuafl frá hinum nýju aðildarríkjum EES.  Til að fá atvinnuleyfi í dag fyrir erlent vinnuafl er alger grunnforsenda að ekki séu Íslendingar til í þau störf sem óskað er eftir að manna með erlendu vinnuafli.  Einnig þurfa atvinnurekendur að leggja fram til stéttarfélaganna ráðningarsamninga til umsagnar.  Með því er tryggt að stéttarfélögin hafa góða yfirsýn yfir það sem er að gerast á viðkomandi starfssvæði.  Með frumvarpinu sem félagsmálaráðherra lagði fram í morgun kemur fram að atvinnurekendur þurfa ekki að leggja fram ráðningarsamninga til stéttarfélaganna sem er klárlega mikil afturför og gerir stéttarfélögunum mun erfiðara að fylgjast með því hvort verið sé að brjóta á réttindum erlendra starfsmanna.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr hví í ósköpunum er verið að afnema takmarkanir á frjálsri för launafólks frá nýjum aðildarríkum EES á sama tíma og það blasir við að 600 Íslendingar eru að missa atvinnu sína á Keflavíkurflugvelli? 

Það liggur líka fyrir að forstjóri Vinnumálastofnunar hefur sagt að íslensk stjórnvöld eigi að fara sér hægt í því að afnema takmarkanir þar sem hann telji að menn séu ekki alveg tilbúnir með það regluverk sem til þarf.  Einnig hefur ASÍ lagt til að farin yrði svokölluð danska leið en í þeirri leið hefði  áfram þurft að sækja um atvinnuleyfi fyrir erlenda starfsmenn frá hinum nýju aðildarríkjum EES.  

Það er líka hægt að benda á að íslensk stjórnvöld hafa ekki séð sóma sinn í því að láta þýða íslenska kjarasamninga yfir á tungumál umræddra landa.  Þannig að það er afar erfitt fyrir erlenda starfsmenn frá ríkjum EES að vita hver sé réttindi þeirra á íslenskum vinnumarkaði.  

Það er einnig alveg ljóst að frjálst flæði erlends vinnuafls mun stórskaða það markaðslaunakerfi sem viðgengst hefur á íslenskum vinnumarkaði á liðnum árum og áratugum.  Í viðtali við varaformann Eflingar í Fréttablaðinu í gær kom fram að tímakaup byggingarverkafólks hefur lækkað umtalsvert á liðnum misserum vegna aðkomu erlends vinnuafls á íslenskan vinnumarkað.  Ekki mun það batna þegar erlent vinnuafl mun flæða inná íslenskan vinnumarkað með þeim félagslegum undirboðum sem því munu fylgja.  Reynslan sýnir að það eru til atvinnurekendur sem víla ekki fyrir sér að misbjóða erlendu vinnuafli bæði hvað varðar aðbúnað sem og önnur launakjör.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image