• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Oct

Kæru félagsmenn, stjórn félagsins vill minna á afmælisfagnaðinn á morgun, dagskráin hefst kl. 14:00

Haldið verður upp á 80 ára afmæli félagsins á morgun í sal Fjölbrautaskóla Vesturlands.  Dagskrá afmælisins er m.a. á þá leið að Grétar Þorsteinsson forseti ASÍ og Kristján Gunnarsson, formaður SGS munu flytja ávörp, KK mun taka nokkur lög, sýndar verða myndir úr félagsstarfinu bæði gamlar og nýjar.  Kaffiveitingar. 

Félagar og aðrir velunnarar eru hvattir til að mæta og fagna 80 ára afmæli félagsins.

22
Oct

Kjaradeilu við Íslenska járnblendifélagið vísað til Ríkissáttasemjara í dag

Fundur í samningarnefnd stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi við Íslenska járnblendifélagið samþykktu í gær að vísa kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara.  Allir í samninganefndinni skrifuðu undir samþykktina. 

21
Oct

Fundað um nýjan kjarasamning Norðuráls

Samningafundur var haldinn í dag með forsvarsmönnum Norðuráls.  Til umræðu var gildissvið kjarasamnings og breytingar á vaktafyrirkomulagi.  Fyrirhugað er að funda með vaktavinnumönnum á næstu dögum og kynna tillögur um breytingu á vaktafyrirkomulagi sem forsvarsmenn Norðuráls eru tilbúnir að gera.  Ákveðið var að funda næst fimmtudaginn 28. október.

19
Oct

Neituðu að ræða við formenn stéttarfélaganna

Ótrúleg uppákoma átti sér stað rétt áður en fyrsti formlegi samningafundur með forsvarsmönnum Íslenska járnblendifélagsins átti að hefjast í dag. Formaður Verkalýðsfélags Akraness og formaður FIT, voru mættir til að vera trúnaðarmönnum Íj til halds og trausts á fyrsta samningafundi við forsvarsmenn Íj. Á fundinum átti að kynna hverjir myndu sitja í viðræðunefnd fyrir hönd stéttarfélaganna í komandi kjarasamningagerð, eins átti að leggja fram kröfur starfsmanna, aðrar en sérkröfur einstakra hópa. Þegar formenn áðurnefndra félaga voru mættir ásamt trúnaðarmönnum fyrirtækisins og biðu eftir að forsvarsmenn fyrirtækisins kæmu til fundar þá birtist allt í einu aðstoðarframkvæmdastjóri Íj og spurði með  töluverðum þjósti "hvað eru þessir menn að gera hérna" og átti hann þar við formenn áðurnefndra stéttarfélaga. 

Sagði aðstoðarframkvæmdastjórinn, að hann myndi ekki funda með þessum mönnum. Óskaði hann eftir að fá að ræða einslega við aðaltrúnaðarmann Íslenska járnblendifélagsins.

Kom aðaltrúnaðarmaður Íj til baka með þau skilaboð að forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins neituðu að hefja fund ef formenn stéttarfélaganna ætluðu að sitja fundinn.

Til að hægt væri að uppfylla lagalegar skyldur um að leggja fram kröfugerð ákváðu formenn umræddra félaga að víkja úr húsi og gat þá fundurinn  hafist.

Sú framkoma sem formönnum þessara tveggja stéttarfélaga var sýnd í dag af aðstoðarframkvæmdastjóra Íj er með hreinum ólíkindum. Formenn þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi Íj munu funda og ræða þá alvarlegu stöðu sem upp er komin. Því þegar viðsemjendur okkar loka sig inn í herbergi og neita að tala við forvarsmenn stéttarfélaganna  verður að skoða hvernig bregðast skuli við. Eitt er víst að þessi framkoma sem formönnum félaganna var sýnd í dag verður  ekki liðin. Verkalýðsfélag Akraness er einungis að gæta  hagsmuna félagsmanna sinna, og að forsvarsmenn Íj reyni að koma í veg fyrir það með jafn grófum hætti og gerðist í dag verður ekki liðið. Á það skal bent að það eru stéttarfélögin sem hafa samningisumboðið og bera ábyrgð á kjarasamningum

18
Oct

Fyrsta samningafundi við forsvarsmenn Norðuráls lokið

Fyrsti samningafundur við forsvarsmenn Norðuráls var haldinn í morgun.  Fundurinn var haldinn í Mörkinni sem er húsnæði í eigu Íslenska járnblendifélagsins.  Það sem var til umræðu á þessum fyrsta formlega fundi var gildissvið kjarasamningsins.  En það er skýlaus krafa stéttafélaganna og starfsmanna að kjarasamningur Norðuráls verði lágmarkssamningur á starfssvæði Norðuráls.  Lögmaður Verkalýðsfélag Akraness sat fundinn einnig og gaf samninganefndinni lögfræðileg álit, þegar þess þurfti við.

Stéttafélögin og starfsmenn Norðuráls ætla ekki að horfa upp á það sem  gerst hefur hjá Íslenska járnblendifélaginu, þar sem störfum hefur verið úthýst, með það eitt að markmiði að lækka launakostnað.  Eins var komið lítillega inn á breytingu á vaktafyrirkomulagi.  Forsvarsmönnum Norðuráls var þó gerð grein fyrir því að starfsmenn vilja bæta fimmta vakthópnum inn.  Ákveðið var að hittast aftur fimmtudaginn 21. október kl. 14:00.  En þá verða báðir hóparnir búnir að útfæra hvernig menn vilji að gildissvið samningsins líti út.  Okkar tilfinning er sú að forsvarsmenn NA séu nokkuð jákvæðir gagnvart kröfu stéttafélaganna um að kjarasamningur Norðuráls verði lágmarkssamningur á svæðinu.

14
Oct

Verkalýðsfélag Akraness er 80 ára í dag 14. október. Félagsmenn innilega til hamingju með daginn

Ágætu félagsmenn stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill óska félagsmönnum sínum sem og öllum velunnurum innilega til hamingju með 80 ára afmæli félagsins sem er í dag 14. október. 

Eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur stjórnin ákveðið að halda upp á afmæli félagsins sunnudaginn 24. október. Stjórn félagsins ákvað einnig að minnast þessara merku tímamóta með útgáfu á afmælisblaði þar sem saga félagsins hefur verið skráð í stuttu máli. Það verða birt viðtöl við heiðursfélaga félagsins o.fl. sem kunna sögu félagsins betur en við flest. Í blaðinu mun birtast töluvert af myndum úr félagslífinu sem teknar voru hér á árum áður, eitthvað verður af nýlegum myndum líka. Það er fyrirtækið Uppheimar sem sér um útgáfu á afmælisblaðinu, Uppheimar er í eigu Kristjáns Kristjánssonar rithöfundar og hefur hann umsjón með útgáfu blaðsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image