• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Nov

Góð afkoma hjá Íslenska járnblendifélaginu

Áform eru um að stækka Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og bæta jafnvel við tveimur ofnum. Þetta kemur fram í viðtali í norska blaðinu Aftenposten við Johan Svensson, forstjóra verksmiðjunnar en verksmiðjan er í eigu norska fyrirtækisins Elkem.

Fram kemur í blaðinu að heimsmarkaðsverð á járnblendi sé nú um 1100 dalir tonnið og hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2002. Hagnaður sé af rekstri íslensku verksmiðjunnar ef verðið á tonni fari yfir 600 dali og því mali verksmiðjan nú nánast gull; hagnaður á síðasta ári hafi verið um 50 milljónir norskra króna, rúmar 530 milljónir íslenskra króna, og er haft eftir Svensson að búist sé við að hagnaðurinn í ár verði ekki minni.

Svensson segir í viðtalinu að framleiðslukostnaður á Íslandi sé mun lægri en í Noregi. Þá sé hið pólitíska umhverfi stöðugt. Verið sé að íhuga að bæta fjórða og fimmta ofninum við í verksmiðjunni á Grundartanga og helsta ástæðan fyrir þeim stækkunaráformum sé hagstætt raforkuverð á Íslandi. Þá sé einnig stefnt að því að auka framleiðslu á sérhæfðari vöru í verksmiðjunni.

Frétt Aftenposten

Verkalýðsfélag Akraness er afar ánægt með að rekstur fyrirtækisins gangi jafn vel og segir í fréttinni.  Verkalýðsfélag Akraness telur að þessi góða afkoma muni væntanlega liðka vel fyrir komandi samningum við Íslenska járnblendifélagið.  Næsti fundur vegna nýs kjarasamnings er á þriðjudaginn, og verður fundurinn haldinn í húsakynnum Ríkissáttasemjara, hefst fundurinn kl. 13.00.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image