• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Mar

Um 1.000 verkamönnum og konum tilkynnt að staðið verði við hækkun launa þeirra

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SAVilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SAÍ Morgunblaðinu í gær var viðtal við Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Í viðtalinu hvatti hann fyrirtæki til að láta ekki undan þrýstingi um að láta áður umsamdar launahækkanir taka gildi frá 1. mars sl.  Vilhjálmur nefndi Verkalýðsfélag Akraness sérstaklega í því sambandi og sagði það beita fyrirtæki þrýstingi um að hækkanir frá 1. mars ættu að taka gildi strax. Vilhjálmur hjá SA sagði einnig að verið væri að hrekja SA út í það að segja samningum upp með þessu framferði. Hægt er að lesa viðtalið hér.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur í ljósi þessara ummæla fulla þörf á að fara yfir þetta mál nokkuð ítarlega. 

Ef byrjað er á byrjuninni þá hélt forseti ASÍ tvo fundi með formönnum allra aðildarfélaga ASÍ þar sem til umfjöllunar var hvort vilji væri fyrir því innan verkalýðshreyfingarinnar að fresta endurskoðun kjarasamninga og áður umsömdum launahækkunum framá sumarið vegna erfiðleika hjá sumum fyrirtækjum.  Þessari tillögu forseta ASÍ mótmælti formaður VLFA ásamt fimm öðrum landsbyggðarfélögum. 

Ein af ástæðum þess að formaður VLFA vildi ekki fara þessa leið var sú að hann taldi að það væru klárlega til fyrirtæki sem sannarlega gætu staðið við þann samning sem undirritaður var 17. febrúar 2008 og kvað á um 13.500 kr hækkun á launatöxtum frá 1. mars sl.  Nefndi formaðurinn sérstaklega fiskvinnslufyrirtæki sem væru í útflutningi.  Nú hefur komið í ljós að þessi ábending Verkalýðsfélags Akraness og hinna fimm landsbyggðafélaganna var á rökum reist enda eru fyrirtæki vítt og breitt um landið að tilkynna að þau ætli að standa við áður umsamdar launahækkanir. 

Meirihluti verkalýðshreyfingarinnar vildi hins vegar fresta áður umsömdum launahækkunum fram á sumarið og voru þeir aðilar með sína sýn á frestun.  Með öðrum orðum meirihlutinn í verkalýðshreyfingunni tók þessa ákvörðun um að fresta umsömdum launahækkunum og þau félög sem voru á móti þeirri leið urðu einfaldlega undir og við því er lítið að gera.  Hins vegar vildu þessi fimm landsbyggðarfélög að samkomulagið yrði lagt í atkvæðagreiðslu á meðal félagsmanna en samninganefnd ASÍ varð því miður ekki við því.

Það sem síðan gerist er að formaður Verkalýðsfélags Akraness kemst á snoðir um það að eigendur HB Granda hyggist greiða sér út arð vegna góðrar afkomu á síðasta rekstrarári og það á sama tíma og verkafólk var skikkað til að fresta sínum launahækkunum um nokkra mánuði á grundvelli bágrar stöðu fyrirtækja.  Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi þessa ákvörðun forsvarsmanna HB Granda harðlega og varð sú gagnrýni til þess að fyrirtækið ákvað að láta áður umsamdar launahækkanir taka gildi frá 1. mars sl.  Var VLFA afar ánægt með þessi málalok enda er það hlutverk stéttarfélaga að gæta að réttindum og launakjörum okkar félagsmanna, það er jú okkar vinna.

Ugglaust hefðu Samtök atvinnulífsins viljað að Verkalýðsfélag Akraness hefði ekki greint frá því að fyrirtæki eins og HB Grandi væri að skila góðri afkomu og ætlaði að greiða sér út arð á sama tíma og verkafólk varð af þeirri hækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. mars sl.  Slíkt kom alls ekki til greina af hálfu formanns félagsins vegna þess að félagið á að gæta að hagsmunum sinna félagsmanna og ef fyrirtæki geta greitt út arð þá er þeim engin vorkunn að greiða sínu starfsfólki áður umsamdar launahækkanir.

Það er morgunljóst að sú umfjöllun sem Verkalýðsfélag Akraness fór af stað með þann 12. mars sl. vegna arðgreiðslna HB Granda hefur nú skilað umtalsverðum árangri fyrir verkafólk víða um landið.  Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa tilkynnt opinberlega að þau ætli að standa við áður umsamdar launahækkanir eru:  HB Grandi, Brim, hrognavinnsla Vignis G. Jónssonar, Norðurströnd á Dalvík, Sjávariðjan á Snæfellsnesi, Godthaab í Vestmannaeyjum og Sæmá á Blönduósi.  Þessu til viðbótar er formanni kunnugt um fyrirtæki sem hafa tilkynnt að þau ætli að standa við umræddar launahækkanir án þess að gera það opinbert.  Ef það er rétt mat hjá formanni félagsins að um 1000 verkamenn hafi fengið þessa launahækkun nú þegar þá þýðir það 13,5 milljónir í heildina til handa þessu verkafólki á mánuði fyrir utan áhrif á hækkun á yfirvinnu samhliða hækkun á grunnlaunum.  Nú er búið að fresta launahækkunum alla vega til 1. júlí sem þýðir að heildarlaunahækkunin er um 40,5 milljónir handa öllum þessum starfsmönnum.  Hver starfsmaður fær rúmar 40.000 kr. hækkun þessa 3 mánuði. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur haft samband við þó nokkur fyrirtæki sem starfa í útflutningi og biðlað til þeirra að þau standi við áður umsamda taxtahækkun.  Félagið hefur ekki á nokkurn hátt beitt fyrirtæki þrýstingi um að koma með þær hækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars.  Einungis er óskað eftir því að það komi með þær launahækkanir hafi fyrirtækið fjárhagslega burði til slíks.  Á þeirri forsendu vísar Verkalýðsfélag Akraness því alfarið á bug sem Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA heldur fram að félagið sé að beita fyrirtæki óeðlilegum þrýstingi. 

Formaður félagsins spyr Vilhjálm Egilsson hins vegar af hverju eru Samtök atvinnulífsins að hvetja fyrirtæki sem hafa borð fyrir báru til að standa ekki við áður umsamdar launahækkanir?  Hvers vegna mega fyrirtæki sem hafa fjárhaglega burði til að standa við þann samning sem undirritaður var 17. febrúar 2008 ekki gera svo, treysti þau sér til þess?  Það er verið að tala um verkafólk sem er með 140 til 160 þúsund í grunnlaun á mánuði.  Þessi afstaða SA er formanni Verkalýðsfélags Akraness óskiljanleg. 

Rétt er að það komi fram að Verkalýðsfélag Akraness hefur aðstoðað þó nokkur fyrirtæki sem hafa verið í rekstrarvandræðum, sérstaklega fyrirtæki í byggingariðnaði.  Starfsmenn þeirra fyrirtækja hafa tekið á sig launalækkanir, skerðingu á starfshlutfalli og svona mætti lengi telja og hafa sýnt mikinn sveigjanleika.  Á þeirri forsendu getur það vart verið óeðlileg krafa að fyrirtæki sem hafa borð fyrir báru í sínum rekstri standi við gerða kjarasamninga.  Það er skilningur formanns að ekki var verið að fresta launahækkunum fyrir fyrirtæki sem standa vel heldur fyrir þau sem ættu í vanda. Það stendur ekki á Verkalýðsfélagi Akraness að sýna þeim fyrirtækjum fullan skilning.  

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er hins vegar stoltur af því að hafa verið valdur af því að um eða yfir eitt þúsund fiskvinnslufólk og verkamenn vítt og breitt um landið eru að fá áður umsamdar launahækkanir frá og með 1. mars þrátt fyrir að búið hafi verið að semja um frestun á launahækkunum til 1. júlí nk. 

Rétt er að benda framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á það í lokin að hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er að bæta kjör sinna félagsmanna og það er Verkalýðsfélag Akraness að gera með því að skora á fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til að koma með áður um samdar launahækkanir strax.  Verkalýðsfélag Akraness lætur ekki segja sér fyrir verkum svo mikið er víst.

26
Mar

Laus íbúð á Akureyri vegna forfalla

Vegna forfalla er ein íbúða

félagsins á Akureyri laus nú um helgina. Fyrstur kemur fyrstur fær!

Hægt er að skoða myndir úr íbúðinni hér.

24
Mar

Frambjóðendur Framsóknar í heimsókn

Frambjóðendur Framsóknarflokksins í Norðvestur kjördæmi Guðmundur Steingrímsson og Gunnar Bragi Sveinsson kíktu í heimsókn á skrifstofu félagsins í dag. Formaður átti gott spjall við þá félaga og það er alltaf ánægjulegt þegar frambjóðendur og þingmenn í kjördæminu sjá sér fært að kíkja í heimsókn á skrifstofu félagsins. Er ávalt tekið vel á móti öllum.

Þeir félagar gerðu formanni grein fyrir helstu stefnumálum Framsóknarflokksins í komandi kosningabaráttu og fór formaður yfir atvinnuástandið á Akranesi og einnig þá erfiðleika sem margir eiga við að etja vegna stóraukinnar greiðslubyrði undanfarinna missera. Nefnda formaður að klárlega þyrfti að taka á vanda heimilanna og að margir ættu í erfiðleikum vegna svokallaðra myntkörfulána vegna bílakaupa, en lítið sem ekkert hefur verið í umræðunni um hvernig leysa eigi það vandamál.

Formaður sagði einnig að það væri skoðun sín að forystumenn í Verkalýðshreyfingunni ættu ekki að vera eyrnamerktir ákveðnum stjórnmálaflokkum enda væru forystumenn verkalýðshreyfingarinnar að vinna fyrir félagsmenn sem kæmu úr öllum flokkum.

23
Mar

Verkalýðsfélag Akraness og fimm landsbyggðarfélög höfðu svo sannarlega rétt fyrir sér

Landsbyggðafélögin höfðu rétt fyrir sérLandsbyggðafélögin höfðu rétt fyrir sérEnn fjölgar í hópi þeirra fyrirtækja sem hafa tekið ákvörðun um að láta áður umsamdar launahækkanir upp á kr. 13.500 til þeirra sem vinna á töxtum koma til framkvæmda frá 1. mars sl.

Formaður félagsins heyrði í forsvarsmönnum Brims í  morgun og kom fram í máli þeirra að þeir hafi tekið ákvörðun um að láta áður umsamdar launahækkanir taka gildi eins og kjarasamningurinn kveður á um.  Formaður félagsins hefur heyrt í fulltrúm nokkra fyrirtækja í morgun og eru nokkur fyrirtæki að íhuga það sterklega að koma með áður umsamdar launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars.

Það er frábært að sjá að sú mikla vinna sem Verkalýðsfélag Akraness og hin fimm landsbyggðarfélögin hafa lagt í þessi mál er að skila íslensku verkafólki vítt og breytt um landið ávinningi. 

Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessari ákvörðun forsvarsmanna Brims innilega en Brim á og rekur fiskþurrkunina Laugafisk hér á Akranesi þar sem starfa um 30 manns. Einnig er Brim með starfsemi víðar um land m.a. á Akureyri, á Grenivík og á Laugum í Reykjadal. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins starfa alls um 200 manns við landvinnslu hjá fyrirtækinu á landsvísu.

Rétt er að minna á að forsvarsmenn Brims létu starfsmenn sína njóta góðs af góðri afkomu vegna ársins 2006 þegar þeir greiddu starfsfólki sínu 125.000 kaupauka í janúar 2007 og er það til fyrirmyndar þegar fyrirtæki hafa þann skilning að ekkert fyrirtæki skilar góðu starfi nema með góðu starfsfólki.

Núna liggur fyrir að sú barátta sem Verkalýðsfélag Akraness og fimm önnur landsbyggðarfélög hafa staðið að, þ.e.a.s. að þau fyrirtæki sem hefðu fjárhagslega burði til, myndu standa við þá samninga sem undirritaðir voru 17. febrúar 2008. Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa tekið ákvörðun um að greiða þessar hækkanir eru eins og áður hefur komið fram: Hrognavinnsla Vignis G. Jónssonar, HB Grandi, Brim og fyrirtæki á Grundartangasvæðinu sem ekki vill láta nafns síns getið.

Á þessu sést að landsbyggðarfélögin höfðu klárlega rétt fyrir sér þegar þau bentu á að það væru svo sannarlega til fyrirtæki sem gætu og vildu standa við gerða kjarasamninga og á þeirri forsendu harmar félagið þá ákvörðun samninganefndar ASÍ að hafa samþykkt að fresta þeim launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness gerir þá skýlausu kröfu að samkomulaginu við Samtök atvinnulífsins verði tafarlaust rift enda er það komið í ljós að það voru stórkostleg mistök að fresta áður umsömdum launahækkunum enda eru fyrirtæki vítt og breytt um landið sem hafa fjárhagslega burði til að standa við gerða kjarasamninga.

23
Mar

Ísak Ak 67 með fullfermi

Rétt í þessu var Ísak Ak 67 að leggjast upp að bryggju með fullfermi, en Ísak er 11,2 tonn að stærð.  Að sögn þeirra félaga Eiðs Ólafssonar og Kristófers Jónssonar þá reiknuðu þeir með að aflinn væri á bilinu 12 til 14 tonn af slægðu, sem gerir um 18 tonn uppúr sjó. Þeir félagar hirða einnig hrogn og lifur og giskuðu þeir félagar á að hrognin væru um 600 kg.

Á sama tíma kom Ebbi Ak að landi með rúm 10 tonn af slægðu sem verður að teljast mjög góður afli.

Gríðarleg vinna liggur að baki 14 tonna róðri þegar einungis er um tvo skipverja er um að ræða, en það þekkja allir þeir sem stundað hafa sjómennsku á smábátum. Með öðrum orðum, það þarf algjöra jaxla til stunda smábátasjómennsku og það í svona landburði eins og raunin er þessa daganna.

Þeir félagar á Ísaki og hásetinn á Ebba Ak eru félagsmenn í sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness.  

23
Mar

Starfsfólk hrognavinnslunnar Vignis G. Jónssonar fær áður umsamdar launahækkanir

Formaður félagsins hefur í morgun haft samband við nokkur fyrirtæki vegna þeirrar ákvörðunar HB Granda að koma strax með áður umsamdar launahækkanir til handa starfsfólki.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem formaður hafði samband við í morgun er að skoða hvort fyrirtækið muni flýta áður umsömdum launahækkunum til handa starfsmönnum og mun niðurstaða í því máli liggja fyrir innan örfárra daga.

Það er skemmst frá því að segja að þegar að haft var samband við hrognavinnslu Vignis G. Jónssonar á Akranesi þá var formanni tjáð að fyrirtækið hefði tilkynnt starfsmönnum sínum í síðustu viku að áður umsamdar launahækkanir myndu taka gildi frá og með 1. mars sl. eins og samningar kváðu á um.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill taka ofan fyrir forsvarsmönnum þessa góða rótgróna fjölskyldufyrirtækis þar sem starfa nú um 30 manns. Ljóst er að þessi ákvörðun forsvarsmanna fyrirtækisins um launahækkun mun koma því góða starfsfólki sem þar starfar klárlega til góða.

Stjórn Verkalýðfélags Akraness vill halda áfram að skora á öll fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til að standa við áður umsamdar launahækkanir, að láta þær taka gildi strax.

Það er ljóst að til eru fyrirtæki sem standa vel og hafa, eins og Verkalýðfélag Akraness og 5 önnur landsbyggðarfélög hafa bent á, alla burði til að standa við kjarasamninginn sem gerður var 17. febrúar 2008. Nú þegar hafa tvö þeirra brugðist snarlega við og hækkað laun síns fólks. Ljóst er að fyrirtæki eru hvert af öðru að svara kalli Verkalýðsfélags Akraness um að standa við þann samning og ljóst að sú mikla vinna sem félagið hefur lagt í þessi mál er að skila árangri, íslensku verkafólki til hagsbóta.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image