• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Apr

Ályktun aðalfundar um vanda heimilanna vakið jákvæð viðbrögð

Ályktun sem aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness samþykkti á fundi sínum í gær um vanda heimilanna hefur vakið gríðarlega jákvæða athygli.  Sem dæmi þá hafði forsvarsmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna samband við formann og lýsti yfir gríðarlegri ánægju með ályktun aðalfundarins en samtökin hafa lengi beðið eftir viðbrögðum verkalýðshreyfingarinnar vegna bráðs vanda skuldsettra heimila. 

Ályktunin er með eftirfarandi hætti:

Ályktun

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness haldinn 21. apríl 2009 skorar á íslensk stjórnvöld að grípa til tafarlausra aðgerða vegna gríðarlegs vanda heimilanna.  Í dag eru um 40 þúsund einstaklingar með neikvæða eiginfjárstöðu sem nær til um þriðjungs allra heimila í landinu.  Það er ljóst að neikvæð eiginfjárstaða heimilanna á einungis eftir að versna til muna því Seðlabankinn gerir ráð fyrir að fasteignaverð eigi eftir að falla um allt 50% að raungildi.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að koma í veg fyrir að einstaklingar taki þá ákvörðun að hætta að greiða af sínum skuldum sökum þess að skuldir hafi vaxið langt umfram eignir vegna þeirra hamfara sem riðið hafa yfir íslenskt efnahagslíf.

Á þeirri forsendu skorar aðalfundurinn á stjórnvöld að grípa til róttækrar niðurfærslu  og leiðréttingar á skuldum íslenskra heimila. Það er mat aðalfundarins að stór hætta sé á að einstaklingar sjái ekki hag í því að greiða sínar skuldir lengur með skelfilegum afleiðingum fyrir allt samfélagið.

Einnig skorar aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness á stjórnvöld að þau finni tafarlaust lausn á vanda um 50 þúsund einstaklinga sem tekið hafa svokölluð myntkörfulán vegna bílakaupa. Fjölmargar fjölskyldur endurnýjuðu bíla sína á undangengnum þensluárum, og oftar en ekki með lánsfé sem þá var auðfengið hjá bönkum og fjármögnunarfyrirtækjum. Erlend myntkörfulán voru algengust og gjarnan tryggð með sérstöku veði í heimilum lántakenda og ábyrgðarmanna.  Þessir einstaklingar eru nú í bráðri hættu á að missa heimili sín vegna gríðarlegrar hækkunar þessara lána.  Lítið sem ekkert hefur verið fjallað um vanda þessa fólks.

Aðalfundurinn gerir sér fulla grein fyrir því að stjórnvöld munu grípa til niðurskurðar vegna þess 150 milljarða króna fjárlagahalla sem nú blasir við.  Aðalfundurinn skorar á stjórnvöld að slá skjaldborg um þá tekjulægstu þegar kemur að niðurskurði hjá hinu opinbera.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image