• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Nov

Greiðslur sjúkradagpeninga hafa aukist um 123% frá því í fyrra

Stjórn sjúkrasjóðs Verkalýðsfélags Akraness fundaði í gær og var meðal annars farið yfir þá miklu aukningu sem orðið hefur á greiðslum úr sjóðnum vegna sjúkradagpeninga til félagsmanna.

Á þessu ári er búið að greiða um 22 milljónir í sjúkradagpeninga til félagsmanna en á sama tíma í fyrra var þessi tala rúmar 10 milljónir. Aukning á milli ára er því upp á 123%. Ugglaust skýrir ástandið á vinnumarkaðnum þessa miklu aukningu og bendir margt til þess að heilsufar félagsmanna hafi í kjölfar kreppunnar versnað þónokkuð ef tekið er tillit til þessarar miklu aukningar á greiðslum úr sjúkrasjóði félagsins.

Sjúkrasjóður hefur greitt í heildina með öllum styrkjum yfir 30 milljónir króna það sem af er þessu ári en allt árið í fyrra námu greiðslur úr sjóðnum 23 milljónum þannig að aukning á heildargreiðslum úr sjúkrasjóði verður umtalsverð á þessu ári.

17
Nov

Beðið eftir að gulldepluveiðar glæðist

Þess er nú beðið að gulldepluveiðar glæðist en tvö skip HB Granda hafa undanfarna daga leitað að þessum smáa fiski frá Skerjadjúpi í vestri og austur fyrir Vestmannaeyjar. Á Akranesi eru starfsmenn fiskmjölsverksmiðju félagsins tilbúnir til þess að taka á móti afla og vinna hann en ekkert hefur verið unnið í verksmiðjunni frá því í júlí í sumar.

Fjallað er um málið á vefsíðu HB Granda. ,,Hér er allt orðið skotklárt og nú bíðum við bara eftir því að skipin skili sér til hafnar," sagði Guðmundur Hannesson, verksmiðjustjóri á Akranesi, er rætt var við hann í morgun.

Að sögn Guðmundar eru Faxi RE og Lundey NS nú við leit austan við Vestmannaeyjar en lítill afli hefur fengist á hafsvæðinu vestan við Eyjar. Þó mun Faxi vera kominn með um 80 tonna afla en sá afli fékkst í tveimur holum í Grindavíkurdjúpi.

,,Við höfum alls unnið úr rúmlega 30 þúsund tonnum af fiski á þessu ári. Fyrst var það gulldepla, þá loðna og kolmunni og í sumar tókum við á móti makríl sem ísfisktogararnir veiddu. Nú vonum við að gulldeplan gefi sig til og að loðnukvótinn verði aukinn verulega á komandi vertíð," sagði Guðmundur Hannesson en að hans sögn hefur tíminn verið notaður frá í sumar til þess að fara yfir búnað verksmiðjunnar.

Alls munu 12 manns starfa á tveimur vöktum í verksmiðjunni á Akranesi þegar vinnsla hefst að nýju.

16
Nov

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fer mikinn

Það er óhætt að segja að Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fari mikinn þessa dagana en að undanförnu hafa lágmarkslaun og atvinnuleysis- og örorkubætur verið umtalsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum. Karen Kjartansdóttir, fréttamaður á Stöð 2, hefur fjallað um þetta málefni að undanförnu. Síðastliðinn laugardag var viðtal við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, þar sem hann sagði að hugsanlega væru atvinnuleysisbætur og aðrar bætur orðnar of háar sem gerði það að verkum að fólk kysi frekar að vera til dæmis á atvinnuleysisbótum heldur en að fara að vinna þessi láglaunastörf.  Það er alveg ótrúlegt að atvinnurekendur og Samtök atvinnulífsins séu hissa að erfiðlega gangi að manna þessi láglaunastörf einfaldlega í ljósi þeirra staðreynda að þau laun sem eru í boði eru það lág að þau duga ekki til að fólk geti framfleytt sér og sínum.  Vandamálið liggur ekki í að  atvinnuleysis- og örorkubætur séu of háar, svo mikið er víst.   Það eru margir menn eins og t.d Runólfur Ágústsson, stjórnarformaður Vinnumálastofnunnar  og Guðbjartur Hannnesson félagsmálaráðherra sem hafa bent á að lágmarkslaun verði að hækka.

 

Það kvað við nýjan tón hjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á mánudaginn þegar var farið að ræða launakjör forstjóra lífeyrissjóðsins Gildi en forstjóri þess lífeyrissjóðs er með um 20 milljónir í árslaun eða sem gerir tæpa 1,7 milljón á mánuði. Þessi laun voru síst of há að mati Vilhjálms Egilssonar. En atvinnuleysisbætur sem eru rétt tæpar 150 þúsund krónur á mánuði voru hugsanlega of háar að mati framkvæmdastjórans. Þetta er náttúrulega ótrúlegur málflutningur af hálfu Vilhjálms í ljósi þess að forstjóri lífeyrissjóðsins Gildi tekur nánast árslaun atvinnuleitandans á einum mánuði.  Þessir menn reyna ítrekað að réttlæta þessi ofurlaun  vegna umfangs starfsins og þeirri dæmalausu klisju að ábyrgðin sé svo gríðarleg.

En hver er hin raunverulega ábyrgð til dæmis forstjóra lífeyrissjóðanna sem hafa tapað á bilinu 4-500 milljörðum og það bara er lítur að skulda- og hlutabréfakaupum samkvæmt gögnum frá Seðlabankanum.  Sagan hefur sýnt okkur að þessir menn bera ákkúrat enga ábyrgð enda sitja nánast allflestir stjórnendur lífeyrissjóðanna ennþá í sínum stólum.

 

Stjórnir lífeyrissjóðanna

Það er reyndar með ólíkindum að atvinnurekendur skuli yfir höfuð sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna og víla og díla með kjarasamningsbundin lífeyrisréttindi launþega.  Það er til að mynda afar óeðlilegt að atvinnurekendur séu að taka ákvarðanir um fjárfestingarleiðir þegar liggur fyrir að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar fulltrúa atvinnurekenda í sjóðunum geta klárlega skarast á við hagsmuni sjóðsfélaga. Það er því augljós hætta á að fulltrúar atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóðanna hafi hagsmuni atvinnurekenda en ekki sjóðsfélaga að leiðarljósi þegar kemur að ákvörðunum um fjárfestingarleiðir. Á þeirri forsendu segir formaður félagsins að það sé grundvallaratriði að það séu eigendur sjóðanna, sjóðsfélagarnir sjálfir, sem taki ákvörðun um hverjir fari með stjórnun sjóðanna. Mitt mat er einfaldlega það að það eigi að fækka lífeyrissjóðunum niður í einn, jafna lífeyrisréttindi allra landsmanna og hér verði ráðið sérfræðingateymi til að sjá um stjórnun á lífeyrissjóðunum en að sjálfsögðu geta atvinnurekendur átt áheyrnarfulltrúa í stjórn sjóðsins. En með því að fækka lífeyrissjóðunum niður í einn er ljóst að hægt yrði að spara umtalsverðar upphæðir til hagsbóta fyrir alla sjóðsfélaga.

 

Hvað þarf að gera

Það er morgunljóst í  huga formanns VLFA að lágmarkslaun á Íslandi verður að lagfæra í komandi kjarasamningum með afgerandi hætti.  Ríkissjórn Íslands þarf að setja flýtimeðferð á að reikna út lágmarksframfærslustuðul þar sem fram komi hvað einstaklingur þarf til að framfleyta sér og standa við nauðsynlegar skuldbindingar.  Það verður að tryggja að lágmarkslaun dugi til framfærslu en það gera þau alls ekki í dag. 

Kjarni málsins er eins og áður sagði að atvinnuleysis- og örorkubætur eru alls ekki vandamálið heldur þessi skammarlegu lágu lágmarkslaun sem eru atvinnurekendum, íslensku samfélagi og síðast en ekki síst okkur í verkalýðshreyfingunni til skammar og því verðum við að breyta í komandi kjarasamningum með hagsmuni lágtekjufólks að leiðarljósi.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og forstjórar lífeyrissjóðanna ættu að prófa að reyna að framfleyta sér og sínum á lágmarkslaunum og atvinnuleysisbótum, en þá er ég viss um að það myndi kveða við annan tón hjá þessum mönnum.

12
Nov

Formaður VLFA situr í nýkosinni samninganefnd SGS

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands var haldinn í gær. Á fundinum var kosið í samninganefnd vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði og vegna samninganna við ríki og sveitarfélög. Í hinni nýju samninganefnd situr meðal annarra formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Það er ljóst að gríðarlegt annríki er framundan er við gerð kjarasamninga en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru allir kjarasamningar félagsins lausir á næstu vikum og mánuðum en krafa félagsins í komandi kjarasamningum er að lágmarkslaun á Íslandi verði hækkuð með þeim hætti að möguleiki sé fyrir launþega að framfleyta sér og sínum.

Það er alveg ljóst að staða einstakra atvinnugreina er afar mismunandi en það liggur hvellskýrt fyrir að greinar í útflutningi hafa mun meira svigrúm til launahækkana en aðrar greinar. Á þeirri forsendu liggur fyrir að félagið mun sækja fram af fullum þunga hækkanir til handa þeim sem starfa hjá útflutningsfyrirtækjum og nægir að nefna í því samhengi starfsfólk í fiskvinnslu og stóriðjunum. 

11
Nov

Laust í Ölfusborgum um helgina vegna forfalla

Vegna forfalla er hús félagsins í Ölfusborgum laus núna helgina 12. til 15. nóvember. Hægt er að bóka á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13 eða á félagavefnum. . 

09
Nov

Félagsmenn VLFA fá nýtt félagsskírteini

Verkalýðsfélag Akraness hefur undanfarin misseri barist fyrir því að létta greiðslubyrði sinna félagsmanna með öllum tiltækum ráðum og hafa starfsmenn félagsins m.a. staðið í viðræðum við fyrirtæki hér á Akranesi og leitast eftir afsláttarkjörum fyrir félagsmenn. Hefur þessi vinna borið góðan árangur og stöðugt fjölgar þeim fyrirtækjum sem vilja bjóða félagsmönnum sérkjör og afslætti.

Þar sem framvísa þarf félagaskírteini til að njóta afsláttar og sérkjara hefur félagsskírteinið verið einfaldað og er nú á stærð við greiðslukort. Hið nýja félagsskírteini mun gilda út árið 2011 og gegn framvísun þess bjóðast félagsmönnum nú ýmis afsláttar- og sérkjör hjá samstarfsaðilum Verkalýðsfélags Akraness. Þessi kjör eru kynnt sérstaklega á kortinu sjálfu, hér á heimasíðunni og í bæklingi sem fylgir félagsskírteininu.

Félagsskírteinið er tilbúið og nú er unnið að pökkun þess. Félagsmenn mega eiga von á því heimsendu strax eftir helgi.

Undanfarin ár hafa félagsmenn fengið heimsenda dagbók frá félaginu. Dagbók þessi hefur gilt sem félagsskírteini en nú verður breyting á. Dagbókin verður prentuð um næstu áramót eins og vant er, en í minna upplagi og hún verður ekki send heim til  félagsmanna. Um áramót verður hægt að nálgast dagbókina á skrifstofu félagsins eða hafa samband og óska eftir að fá hana senda.

Það er einlæg von stjórnar og starfsfólks Verkalýðsfélags Akraness að þau afsláttar- og sérkjör sem nú bjóðast verði félagsmönnum og fjölskyldum þeirra til hagsbóta.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image