• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Feb

Fyrsti samningafundur vegna launaliðar Norðuráls

Verksmiðja Norðuráls á GrundartangaVerksmiðja Norðuráls á GrundartangaFyrsti samningafundur með Samtökum atvinnulífsins og forsvarsmönnum Norðuráls var haldinn á föstudaginn. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá lagði Verkalýðsfélag Akraness fram kröfugerð fyrir verkamenn og nam sú hækkun 27,5%. Hins vegar voru iðnaðarmannafélögin og Stéttarfélag Vesturlands ekki búin að leggja fram sína kröfugerð. Það var hins vegar gert á fundinum á föstudaginn og það var dálítið athyglisvert að í þeirri kröfugerð er ekki nefnd nein prósentutala né krónutala heldur var einungis kveðið á um verulega hækkun grunnlauna.

Það kom fram hjá fulltrúa VR þegar formaður óskaði eftir því að fá vitneskju um það hvort að iðnaðarmannafélögin styddu ekki kröfugerð Verkalýðsfélags Akraness upp á 27,5% að hún væri ekki í anda þeirrar samræmdu launastefnu sem að unnið væri að en hins vegar myndu félögin ekki slá hendinni á móti þeirri hækkun ef Verkalýðsfélag Akraness næði fram sinni kröfu. Það verður að segjast alveg eins og er að þessi ummæli slógu formann VLFA all verulega sem og trúnaðarmenn verkamanna. Það kom reyndar einnig fram hjá hinum félögunum að þau ætluðu ekki að "undirbjóða" kröfugerð VLFA.

Eins og margoft hefur komið fram hjá formanni félagsins þá mun félagið ekki taka þátt í því að láta troða ofan í kokið á sér samræmdri launastefnu þar sem sama láglaunakrafan verður sett fyrir alla launþega. Það eru engar forsendur fyrir því að fyrirtæki í útflutningi, þar með talin stóriðjan, fái afslátt af þeim kjarasamningi sem framundan er enda hafa starfsmenn þessara fyrirtækja orðið fyrir umtalsverðri kjaraskerðingu frá janúar 2008. Næsti fundur er fyrirhugaður í næstu viku.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image