• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Feb

Undið ofan af skemmdarverkunum

Verksmiðja Elkem á GrundartangaFormaður félagsins hefur verið að reyna að vinda ofan af þeim skemmdarverkum sem stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi Elkem Ísland og Klafa ollu. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá neituðu þau að viðurkenna fulltrúa sína í samninganefndinni sem voru meðal annars þeirra eigin trúnaðarmenn og einnig töldu þau sig ekki hafa verið aðila að þeirri viðræðuáætlun sem skilað var inn eins og lög um stéttarfélög og vinnudeilur kveða á um.

Rétt er að geta þess að fyrirkomulagið við undirbúning kjarasamnings og viðræðuáæltun var með nákvæmlega sama hætti og í síðustu tveimur kjaraviðræðum hjá Elkem og Klafa og sáu stéttarfélögin ekki ástæðu til að gera athugasemdir þá. Hins vegar höfðu þau nú samband við Samtök atvinnulífsins, atvinnurekendur og ríkissáttasemjara og gerðu athugasemdir við þá aðila en gerðu hins vegar engar athugasemdir við Verkalýðsfélags Akraness eða við aðaltrúnaðarmann fyrr en málið var komið til ríkissáttasemjara. Vinnubrögð af þessu tagi er ekki hægt að flokka sem neitt annað en skemmdarverk þar sem hagsmunum starfsmanna er fórnað á altari óvildar í garð formanns Verkalýðsfélags Akraness.

Formaður fundaði með ríkissáttasemjara og Hannesi Sigurðssyni, aðal samningamanni Samtaka atvinnulífsins á föstudaginn og einnig í gær og nú hefur Verkalýðsfélag Akraness gengið frá nýrri viðræðuáætlun og mun félagið fara eitt og sér í komandi viðræður enda er ekki starfandi með stéttarfélögum sem haga sér með þessum hætti. Fyrsti fundur verður fimmtudaginn 10. febrúar kl. 15. Strax í kjölfarið verður fundur vegna kjarasamnings Klafa.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image