• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
May

Nýr kjarasamningur við Elkem Ísland undirritaður í gær

Í gær 18. maí undirritaði Verkalýðsfélag Akraness ásamt öðrum stéttarfélögum sem eiga aðild að kjarasamningi við Elkem Ísland nýjan kjarasamning. Þessar kjaraviðræður hafa tekið langan tíma en liðnir eru tæpir 5 mánuðir frá því að kjarasamningurinn rann út. Kjarasamningur þessi er að stórum hluta eins uppbyggður og samningur sem gerður var við Norðurál á Grundartanga og flestöll stóriðjufyrirtæki á Íslandi hafa haft sem viðmiðun.

Samningurinn gildir afturvirkt eða frá 1. janúar 2021 og munu laun hækka um 5,8% frá og með þeim tíma auk þess sem hámarksbónus mun hækka úr 10,5% í 13% eða sem nemur 2,5%. Næsta hækkun mun koma eftir 7 mánuði eða nánar tiltekið 1. janúar 2022 og nemur sú hækkun einnig 5,8%.

Samningurinn gildir í 4 ár og launabreytingar fyrir árin 2023 og 2024 munu taka mið af 95% af launavísitölu Hagstofunnar. En samningurinn verður framlengdur að höfðu samráði við trúnaðarmannaráð Elkem.

Eitt af því sem var samið um var að farið yrði í vinnu við að búa til nýtt bónuskerfi og verður það á borði trúnaðarmannaráðsins með forsvarsmönnum fyrirtækisins og á þeirri vinnu að vera lokið eigi síðar en 1. október. Fram að þeim tíma verður bónusinn festur í 80% af hámarkinu og mun hann því gefa 10,4% þar til nýtt bónuskerfi tekur gildi. Rétt er að geta þess að meðaltalsbónusinn á síðasta samningstímabili gaf einungis 6,79%. Er því um að ræða hækkun upp á 3,61% miðað við meðaltalið.

Einnig var skerpt á forsendum þeirra sem eiga rétt til orlofs- og desemberuppbóta en nýtt ákvæði mun tryggja afleysingafólki mun betri og víðtækari rétt en gamla ákvæðið kvað á um. Rétt er að geta þess að orlofs- og desemberuppbætur eru mun hærri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði en fyrir árið 2021 munu orlofs- og desemberuppbætur hljóða upp á 238.923 kr. eða samtals 477.846 kr. Og fyrir árið 2022 verða þær orðnar 244.896 kr. eða samtals 489.792 kr.

Laun ofngæslumanna fyrir 145,6 vinnustundir á mánuði munu hækka með öllu á mánuði frá 44.000 kr. upp í 51.000 kr á mánuði. Og síðan eftir einungis 7 mánuði þá verða launin búin að hækka frá 87.000 kr. upp í 103.000 kr. á mánuði Síðan munu hækkanir taka mið eins og áður sagði af hækkun launavísitölunnar.  Heildarlaun ofngæslumanns eftir 10 ára starf mun nema með öllu 1. janúar 2021 rúmum 739 þúsund á mánuði fyrir 145,6 vinnustundir og 1. janúar 2022 munu heildarlaunin nema rúmum 780 þúsundum á mánuði.

Eins og áður sagði gildir samningurinn afturvirkt frá 1. janúar 2021 og fyrir þessa 5 mánuði mun afturvirknin hjá ofngæslumönnum nema frá 220.000 kr. upp í allt að 300.000 kr. Afturvirknin nemur 7,75% af heildarlaunum þessara 5 mánaða.

Þetta var ekki það eina sem Verkalýðsfélag Akraness gerði í þessum samningum heldur náði félagið samningum við forsvarsmenn Elkem Ísland um að félagsmenn VLFA muni hafa rétt til að ráðstafa allt að 3,5% af iðgjaldi í lífeyrissjóð annað hvort í samtrygginguna, tilgreinda séreign eða frjálsan viðbótarsparnað. Með þessu er félagið að gefa starfsmönnum aukið val við að ráðstafa sínum lífeyrissparnaði. En því miður þá hefur forseti ASÍ lagst gegn því að félagsmenn VLFA fái þetta aukna valfrelsi og lagt stein í götu þessa samkomulags á þeirri forsendu að það sé ASÍ sem fari með samningsumboðið um lífeyrismál en ekki Verkalýðsfélag Akraness. Þessu hefur VLFA mótmælt harðlega enda skýrt kveðið á um í lögum að það séu stéttarfélögin sem séu lögformlegur aðili um að semja um kaup og kjör sinna félagsmanna, ekki ASÍ. Niðurstaðan varð því sú að VLFA þarf að fara með þennan viðauka við samninginn fyrir félagsdóm til að láta reyna á hvort samningsrétturinn sé ekki örugglega samkvæmt lögum hjá VLFA en ekki ASÍ og er lögmaður félagsins nú þegar byrjaður að vinna að því máli. Það er ótrúlegt hvernig forseti ASÍ hefur unnið í þessu máli, unnið gegn hagsmunum og frjálsum samningsrétti stéttarfélagsins því það eina sem VLFA er að gera í þessu máli er að auka rétt sinna félagsmanna, ekki rýra hann. Ef félagið vinnur málið fyrir félagsdómi þá munu starfsmenn hafa þetta valfrelsi eins og áður hefur komið fram. Ef ekki þá helst lífeyrisgreinin óbreytt.

Það er engum vafa undirorpið að hér er um gríðarlegt hagsmunamál að ræða fyrir þá sem hér heyra undir að geta haft valfrelsi við að ráðstafa sínum lífeyrisréttindum eins og þeir kjósa að gera enda er frjáls viðbótarlífeyrissparnaður með mun víðtækari réttindi heldur en annar sparnaður sem tilheyrir lífeyrissjóðunum. Það er rétt að geta þess að þessi viðauki gildir bara fyrir félagsmenn VLFA vegna þess að hin stéttarfélögin að undanskildu VR lögðust alfarið gegn því að þeirra félagsmenn hefðu þetta valfrelsi. Þau verða að svara sínum félagsmönnum hví svo hafi verið.

Kjarasamningurinn verður kynntur á næsta þriðjudag og verður fundurinn auglýstur á vinnustaðnum. Kosningin verður rafræn með rafrænum skilríkjum og mun að öllum líkindum hefjast á hádegi á þriðjudeginum þegar kynningarnar hefjast. Mun kosningin standa yfir til hádegis á mánudeginum 31. maí. Hægt er að sjá samninginn og viðaukann um lífeyrismálin með því að smella hér.

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image