• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Jun

Forsendur kjarasamninga í hættu

"Þetta er mikið áhyggjuefni, ekki síst vegna þess að menn voru nýbúnir að gera hér kjarasamninga þar sem þeir stilltu kröfum sínum í hóf til að tryggja svokallaðan stöðugleika," segir Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 3,9 prósent síðastliðna tólf mánuði, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,2 prósent sem jafngildir níu prósenta verðbólgu á ársgrundvelli.

"Ég lít þetta alvarlegum augum og ef þróunin heldur svona áfram erum við í vondum málum." Aðalsteinn telur forsendur kjarasamninga í hættu þar sem verðbólga sé langt umfram þau mörk sem sett hafi verið. Áhrifin verði þó metin yfir lengra tímabil. "Þetta er stóralvarlegt mál og kallar á aðhald í ríkisfjármálunum."

"Við höfum áhyggjur af verðlagsþróuninni, ekki síst vegna kjarasamninga," segir Ingunn Þorsteinsdóttir, hagfræðingur hjá Alþýðusambandi Íslands.

"Grunnforsenda kjarasamninga er að verðlagsþróun verði í takt við verðbólgumarkmið Seðlabankans sem er 2,5 prósent. Við höfum því áhyggjur af að forsendur kjarasamninga muni bresta ef verðlagsþróun verður áfram með sama hætti."

Ingunn segir líklegt að Seðlabankinn muni halda áfram að hækka stýrivexti. "Þá er ekki síður mikilvægt að ríkisvaldið grípi til aðhaldssamra aðgerða í ríkisfjármálunum þannig að meginþungi aðgerðanna liggi ekki á Seðlabankanum."

Að sögn Ingunnar mun ASÍ fylgjast náið með þróun verðlags á næstu mánuðum. "Verðlagsþróunin fer eftir því hvernig viðbrögðin verða í hagkerfinu og hvort verðlagsþróunin gengur að einhverju leyti til baka." Frétt sem birtist í fréttablaðinu í dag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image