• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Mar

Kurr í samninganefnd VH

Samninganefnd Verkalýðsfélags Húsavíkur fundaði í gærkvöldi um stöðu kjaramála ásamt trúnaðarmönnum af öllum helstu vinnustöðum á félagssvæðinu. Fram kom megn óánægja með stöðu mála og þann drátt sem orðið hefur, þar sem enn hefur ekki verið gengið frá nýjum kjarasamningi þrátt fyrir að þeir hafi verið lausir um síðustu áramót. Tilboð atvinnurekenda um launahækkanir vakti undrun og reiði fundarmanna. Þá fengu stjórnvöld heldur ekki góða dóma fyrir viðbrögð þeirra við kröfum verkalýðshreyfingarinnar um hækkun atvinnuleysisbóta og aðkomu að lífeyrissjóðsmálum.

Samninganefndin taldi mikilvægt að verkafólk um land allt stæði saman og boðaði til verkfalla til að knýja á um bætt kjör haldi atvinnurekendur sig við fyrirliggjandi tillögur um launahækkanir. Samninganefndin var sammála um að félagsmenn í Verkalýðsfélagi Húsavíkur væru tilbúnir í átök enda ekki vanir því að láta troða á sér. Formanni félagsins sem jafnframt á sæti í samninganefnd Starfsgreinasambands var falið að koma þessum skoðunum á framfæri við samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands sem fundar í Reykjavík á föstudag um stöðuna og næstu skref í kjaradeilu sambandsins við atvinnurekendur.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image