• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Jan

Fæðingarstyrkur VLFA gríðarlega vinsæll hjá félagsmönnum!

Verkalýðsfélag Akraness býr yfir öflugum sjúkrasjóði þar sem félagsmönnum okkar er boðið upp á margvíslega styrki úr sjóðnum. Á árinu 2022 greiddi sjúkrasjóður um 100 milljónir í formi sjúkradagpeninga og styrkja til félagsmanna en tæplega 1400 félagsmenn notfærðu sér þá styrki sem VLFA býður sínum félagsmönnum uppá, sem er 46% félagsmanna.

Eins og alltaf þá eru hæðstu greiðslurnar úr sjúkrasjóðnum vegna sjúkradagpeninga og námu þær greiðslur um 52 milljónum í fyrra, en rétt til greiðslu sjúkradagpeninga eiga þeir félagsmenn sem lokið hafa veikindarétti hjá sínum atvinnurekanda og eru áfram veikir.

Það er ánægjulegt að segja frá því að hæsti einstaki styrkurinn sem VLFA greiddi út er fæðingarstyrkurinn. Félagsmaður í VLFA sem eignast barn á rétt á slíkum styrk sem nemur 150.000 kr. og ef báðir foreldrar eru í félaginu þá nemur styrkurinn samtals 300.000 kr.   En 94 foreldrar eignuðust barn á árinu 2022 og nam heildarupphæð fæðingarstyrks rétt tæpum 13,3 milljónum í fyrra.

410 félagsmenn nýttu sér heilsufarskoðunarstyrkinn en hann nemur 50% af reikningi að hámarki 35 þúsund og nam heildarupphæðin tæpri 8,6 milljón á árinu 2022. Fyrir nokkrum árum var þessi styrkur útvíkkaður þannig að félagsmenn gátu komið með reikning vegna tannlæknakostnaðar og eru um 65% af öllum endurgreiðslum vegna þessa styrks vegna tannlæknakostnaðar.

Einnig er rétt að upplýsa að heilsueflingarstyrkurinn er alltaf mjög vinsæll hjá félagsmönnum VLFA en um 365 félagsmenn þáðu þann styrk, en hann nemur 50% af reikningi að hámarki 45 þúsund og nam heildarupphæð heilsueflingarstyrksins rúmum 9,4 milljónum.

Sem betur fer er sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness öflugur og stendur vel fjárhagslega og það er stefna stjórnar félagsins að láta félagsmenn ætíð njóta góðs af góðri afkomu félagsins með því að bæta við styrkjum eða hækka fjárhæðir einstakra styrkja og verður engin undantekning þar á í ár.

En slíkar breytingar eru alltaf tilkynntar á aðalfundi félagsins og taka gildi næstu mánaðarmót eftir aðalfund.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image