• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Apr

Hópuppsögn Eflingar er á ábyrgð lýðræðislega kjörinnar stjórnar félagsins

Eðlilega hefur hópuppsögn á skrifstofu Eflingar vakið upp mikla undrun og gremju víða innan verkalýðshreyfingarinnar.

Enda blasir það við stéttarfélögin vítt og breitt um landið geta ekki stutt hópuppsagnir af þessum toga, enda hefur það verið eitt af baráttumálum stéttarfélaganna að berjast gegn slíkum hópuppsögnum á hinum íslenska vinnumarkaði.

Það er skoðun formanns félagsins að það hafi verið mistök hjá lýðræðis kjörinni stjórn Eflingar að velja hópuppsögn til að ráðast í þær nauðsynlegu skiplagsbreytingar sem þau höfðu boðað í sinni kosningabaráttu. Það er mat formanns að stjórn Eflingar hefði getað náð fram þeim skiplagsbreytingum án þess að grípa til þessara hópuppsagna.

Það hefur vart farið framhjá neinum sem fylgjast með verkalýðsbaráttu að það eru búnar að vera væringar inná skrifstofu Eflingar um allanga hríð og því má segja að það hafi legið í loftinu að gerðar yrðu skiplagsbreytingar á starfsemi skrifstofunnar eins og Baráttulistinn boðaði í sinnu kosningabaráttu. Hins vegar kom það formanni VLFA á óvart að þessi róttæka leið skildi hafa verið farin eins og hópuppsögn

Að því sögðu liggur fyrir að formaður félagsins getur ekki stutt hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar eða aðrar hópuppsagnir sem eiga sér stað á íslenskum vinnumarkaði enda ganga hópuppsagnir algerlega gegn hans gildum og baráttu fyrir atvinnuöryggi og lífsafkomu launafólks á íslenskum vinnumarkaði.

Það er alltaf ömurlegt og hræðilegt þegar launafólk missir atvinnuöryggi og lífsviðurværi sitt og ekkert annað hægt að gera en að harma þegar slíkt gerist.

Þessi aðgerð að beita þessu vafasama tæki sem hópuppsögn er liggur alfarið á ábyrgð lýðræðis kjörinnar stjórnar Eflingar og það er hún ein sem ber ábyrgð á þessari ákvörðun. En formaður ítrekar að það er hans bjargfasta skoðun að hér hafi verið gerð mistök enda hefði verið hægt að ná fram þeim skipulagsbreytingum sem stjórn taldi nauðsynlegar án hópuppsagna.

Í öll þau skipti sem uppsagnir eiga sér stað og er sama hvort það eru hóp- eða einstaklingsuppsagnir þá er það skilda stéttarfélaga að standa vörð um réttindi sinna félagsmanna og tryggja að farið sé í hvívetna eftir lögum, reglum og að kjarasamningsbundin réttindi séu virt.

Þetta mál er allt hið ömurlegasta og vonast formaður til þess að allir starfsmenn sæki aftur um starf og eins margir og kostur er fái endurráðningu. En eins og staðan er í dag veit enginn hvort allir verði endurráðnir eða enginn og því erfitt að vera að fabúlera um hvað muni gerast þegar ekkert liggur fyrir í þeim efnum þessa stundina.

Til að svara spurningunni aftur um hvort formaður styðji þessa hópuppsögn hjá Eflingu, þá er stutta svarið að sjálfsögðu, nei, ekkert frekar en aðrar hópuppsagnir sem eru á íslenskum vinnumarkaði og vill formaður ítreka að hans mat er að hægt hefði verið að ná fram skipulagsbreytingum með öðrum hætti en hópuppsögn.

Þessari skoðun vill formaður koma á framfæri því sumar fyrirsagnir í fjölmiðlum hafa ekki verið í samræmi við það sem formaður hefur sagt. Formaður VLFA ber svo sannarlega traust til Sóveigar Önnu hvað baráttu fyrir kjörum þeirra sem höllustum fæti standa en með því er hann ekki að styðja þessar hópuppsagnir og hann er ekki að taka upp hanskann hvað þessar hópuppsagnir varðar.  En hann tekur hanskann upp fyrir henni sem öfluga baráttukonu fyrir að standa vörð um þá sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði.

Formaður hefur einnig sagt í fjölmiðlum að hann og Sólveig Anna séu alls ekkert alltaf sammála en eitt eru þau algjörlega sammála um og það er það sem lýtur að því að tryggja að lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og lágtekjufólk geti haldið mannlegri reisn. Þar er formaður VLFA og formaður Eflingar algerir samherjar og er það formanni til efs að til sé meiri hugsjónarmanneskja en Sólveig Anna þegar kemur að því að berjast fyrir kjörum þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.

Þetta er staðreynd sem ekki er hægt að véfengja enda talar barátta og árangur Sólveigar Önnu hvað það varðar algerlaga fyrir sig.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image