• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
May

Kjaradeilu félagsins við Norðurál vísað til ríkissáttasemjara

Á síðasta mánudag var haldinn sautjándi samningafundur vegna kjarasamnings stéttarfélagana við Norðurál.

Eins og fram hefur komið þá hefur lítið þokast áfram í viðræðunum þrátt fyrir að 5 mánuðir séu liðnir frá því að kjarasamningurinn rann út á milli aðila.

Vissulega er þó rétt að geta þess að Kórónufaraldurinn hefur eðlimálsins samkvæmt tafið viðræðurnar en það réttlætir samt ekki þann mikla seinna gang sem hefur einkennt viðræðurnar. Þau atriði sem helst eru eftir liggja að launaliðnum en aðalkrafan var að laun starfsmanna myndu halda áfram að taka mið af hækkun á launavísitölunni eins og samið var um í kjarasamningum 2015.

Hins vegar eftir að Kórónufaraldurinn skall á með öllum þeim efnahagslegu hamförum þá runnu tvær grímur á formann Verkalýðsfélags Akraness að ekki væri skynsamlegt að semja um tengingu við launavísitöluna þegar efnahagslífið er að sigla inní eina mestu efnahagskreppu síðustu 100 ára eins og Seðlabankinn hefur ítrekað bent á með tilheyrandi skerðingu launa og atvinnumissi.

Á þeirri forsendu ákvað VLFA og VR að breyta kröfugerð sinni er lýtur að hækkun kauptaxta og gera kröfu um að laun starfsmanna hækki með sama hætti og samið hefur verið um í svokallaða lífskjarasamningi. Með sömu útfærslu og ríki, sveitafélög, Faxaflóahafnir og fleiri hópar hafa undirgengist.

Ástæðan fyrir því að meðal annars VLFA og VR vilja semja í anda Lífskjarasamningsins er þríþætt.

Í fyrsta lagi liggur fyrir að framundan er eitt mesta samdráttarskeið á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku efnahagslífi í hartnær 100 ár eins og áður hefur komið fram og því afar ólíklegt að launavísitalan muni skila starfsmönnum miklum launabreytingum á næstu tveimur til þremur árum.

Í öðru lagi þá hefur formaður VLFA skoðað launabreytingar hjá fjölmörgum hópum sem taka laun eftir launatöxtum eins og starfsmenn Norðuráls gera. Í þeirri skoðun kemur fram að launataxtar t.d. á hinum almenna vinnumarkaði og opinbera markaðnum hafa hækkað mun meira en launavísitalan hefur gert t.d. frá 2014 til 2019. Ástæðan er einföld, áhersla hefur verið á að hækka taxtalaun í kjarasamningum almennt meira en önnur laun og svo virðist vera sem launahækkanir á launatöxtum skili sér frekar illa inn í mælingu á launavísitölunni.

Í þriðja lagi þá liggur fyrir að lífskjarasamningurinn þar sem samið var um fastar krónutöluhækkanir hjá öllum þeim sem taka laun eftir launatöxtum var mjög góður og myndu slíkar hækkanir skila starfsmönnum ásættanlegum launahækkunum á næstu þremur árum.

Það kom hinsvegar formanni VLFA verulega á óvart að forsvarsmenn Norðuráls og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins höfnuðu alfarið að semja í anda Lífskjarasamningsins eins og 95% af öllum íslenskum vinnumarkaði hefur nú þegar gert.

Samkvæmt öllum fyrirliggjandi gögnum þá er það staðreynd að lægsti launataxti Norðuráls hefur á liðnum árum dregist verulega aftur úr öðrum lágmarks launatöxtum á íslenskum vinnumarkaði vegna þess að áhersla verkalýðshreyfingarinnar á liðnum árum hefur verið á sérstaka hækkun á taxtalaunum og því miður hefur launavísitalan ekki fangað þessa umfram hækkun á launatöxtum nema að litlu leyti.

Á samningafundinum með forsvarsmönnum Norðuráls lýsti formaður forundrun sína að stórfyrirtæki eins og Norðurál og Samtök atvinnulífsins skuli hafna að semja við starfsmenn Norðuráls eins og nánast allur íslenskur vinnumarkaður hefur nú þegar undirgengist að gera. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að blessunarlega er Norðurál með góðar rekstrarforsendur um þessar mundir, þrátt fyrir erfiðar markaðsforsendur.

Það er alveg morgunljóst að VLFA og VR, ætla ekki, geta ekki og vilja ekki semja um minna en þær launabreytingar sem lífskjarasamningurinn gaf og í ljósi þessa djúpstæða ágreinings var ákveðið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara á grundvelli 2. mgr. 24. gr. laga nr. 80/1938 

Ríkissáttasemjari hefur nú þegar boðað til fundar á næsta fimmtudag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image