• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Sept

Allt að 50 manns sagt upp hjá Ísfiski á Akranesi!

Formaður var rétt í þessu að koma af afar erfiðum starfsmannafundi sem forsvarmenn fiskvinnslufyrirtækisins Ísfisks héldu með starfsmönnum. En á þessum fundi þurfti fyrirtækið að tilkynna að öllum starfsmönnum væri sagt upp störfum frá og með mánaðarmótum, en um er að ræða uppundir 60 starfsmenn.

Fram kom í máli forsvarsmanna fyrirtækisins, að allar uppsagnir séu gerðar með fyrirvara um að fyrirtækinu takist að endurfjármagna sig, en til þessa hefur það ekki tekist, en sú vinna er enn í gangi.

Það er óhætt að segja að þessi tíðindi séu enn eitt þunga höggið sem við Akurnesingar höfum þurft að þola í atvinnumálum á liðnum árum og misserum, en rétt er að geta þess að stór hluti þeirra sem fengu þessi tíðindi í dag, gengu í gegnum uppsagnir þegar HB Grandi lokaði og hætti allri starfsemi á Akranesi árið 2017.  Einnig er rétt að geta þess að Ísfiskur keypti hluta fiskvinnsluhúsa HB Granda við Bárugötu á Akranesi haustið 2017 og flutti starfsemi sína frá Kársnesi í Kópavogi á síðata ári. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í vinnslu á ýsu og sölu á mörkuðum erlendis, en hráefni til vinnslunnar er að stærstum hluta keypt á markaði. 

Það er lítið annað að gera, en að vona að forsvarsmönnum Ísfisks takist á næstu dögum og vikum að endurfjármagna sig, þannig að ekki komi til þessara uppsagna, en það er ljóst að lítið annað er hægt að gera í stöðunni núna, en að vona það besta, en búa sig undir það versta.

Það er engum vafa undirorpið að enn og aftur eru verulegar blikur á lofti hér á Akranesi í atvinnumálum. Það er ekki bara að það vofi yfir okkur að tæplega 50 fiskvinnslukonur og menn séu við það að missa lífsviðurværi sitt ef fyrirtækinu tekst ekki að endurfjármagna sig, heldur eru líka verið að ógna stórkostlega atvinnuöryggi og lífsviðurværi þeirra sem starfa hjá fyrirtækjunum á Grundartanga.

En eins og hefur komið fram þá hefur Landsvirkjun hækkað raforkuverð hjá Norðuráli og Elkem Ísland um 5 til 6 milljarða á ári, en þessi hækkun er nú þegar farinn að hafa verulega neikvæð áhrif á atvinnuöryggi og lífsviðurværi starfsmanna Elkem Ísland. En fyrirtækið hefur nú þegar tilkynnt að 10 til 15% fækkun starfsmanna muni koma til með svokallaðri náttúrlegri fækkun. Einnig liggur fyrir algert fjárfestingar stopp hjá fyrirtækinu vegna óvissu í raforkumálum fyrirtækisins.

Það er þyngra en tárum taki þessi staða sem er að teiknast upp í atvinnumálum okkar Akurnesinga, en viðbótarhækkun á raforku til stóriðjunnar á Grundartanga er eins og áður sagði milli 5 og 6 milljarðar sem er litlu minna er allur sjávarútvegurinn greiðir í auðlindagjöld.  Það liggur fyrir að þegar nánast öll framlegð fyrirtækjanna er þurrkuð upp vegna græðgisvæðingar Landsvirkjunar þá mun það leiða til þess að verið er að ógna lífsviðurværi og atvinnuöryggi fjölda fólks.

Formaður VLFA telur einsýnt að bæjarbúar á Akranesi þétti nú raðirnar, því við getum ekki endalaust látið fara svona með okkur þegar kemur að atvinnuöryggi og lífsviðurværi bæjarbúa.

Það er rétt að rifja upp að árið 2004 voru 250 manns í vinnu hjá fiskvinnslufyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni á Akranesi og það ár var landað um 170 þúsund tonnum og fyrirtækið greiddi á þriðja milljarð í laun. Núna er allt farið og næsta skemmdarverk sem nú er unnið að er að Landsvirkjun er að takast að eyðileggja rekstrarskilyrði stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga, sem mun valda okkur Akurnesingum og nærsveitungum ómældum skaða.

Eins og áður sagði telur formaður mikilvægt að bæjarbúar þétti raðirnar og á þeirri forsendu mun félagið skoða það alvarlega að halda íbúafund þar sem farið yrði yfir þessa alvarlegu stöðu sem er að teiknast upp í okkar atvinnulífi og á þann fund yrði að sjálfsögðu þingmönnum kjördæmisins boðið sem virðast þessa daganna ekki hafa miklar áhyggjur af stöðu mála hér á Akranesi !

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image