• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Sept

Ferð eldri félagsmanna VLFA

Verkalýðsfélag Akraness býður á hverju ári eldri félagsmönnum sínum í dagsferð. Í ár var farið um Suðurnesin og var Gísli Einarsson fararstjóri í þessari ferð. Eins og allir vita er alltaf gaman þar sem Gísli er og að sjálfsögðu tók hann harmonikkuna með í þessa ferð.

Ferðasagan:

Lagt var af stað frá Jaðarsbökkum, stundvíslega kl 8:30, fyrsti viðkomustaðurinn var Hvalasafnið úti á Granda.  Þar var hópnum skipt í tvo hluta og fengum við flotta leiðsögn um þetta merkilega safn.  Þaðan var brunað út á Garðskagavita þar sem Jóhann og starfsfólk á veitingastaðnum Röstin tók á móti okkur með dýrindis hádegismat.  Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Suðurnesjabæ borðaði með okkur og sagði okkur ýmislegt áhugavert um svæðið.

Eftir matinn var farið ásamt Reyni Sveinssyni leiðsögumanni og skoðað sig um í Hvalsneskirkju, það var mjög gaman að hlusta á sögu þessarar fallegu kirkju.  Reynir er alveg frábær sögumaður og sagði okkur svo margt um Suðurnesin, bæði um það sem er að gerast þar núna sem og það sem gerðist í fornöld. 

Næst var brunað á Salthúsið í Grindavík, þar tók hann Láki á móti okkur með glæsibrag og bauð okkur upp á kaffi og með því. Heimalöguðu flatkökurnar vöktu mikla lukku hjá hópnum, enda einstaklega góðar.  Kvikan - Auðlindar og menningarhús Grindvíkinga var svo síðasti viðkomustaðurinn, en þar mátti sjá þrjár sýningar: ein var um jarðorku á svæðinu, ein um saltfiskinn okkar og ein um Guðberg Bergsson rithöfund.  

Eftir þetta stopp var svo farið heim, en Krýsuvíkur leiðin varð fyrir valinu, mjög skemmtileg keyrsla , enda var veðrið eins gott og hægt var að biðja um.

Við, bæði stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness viljum þakka þeim Gísla Einars, bílstjórum Skagaverks og að sjálfsögðu þeim félagsmönnum okkar sem sáu sér fært um að koma með okkur í þessa ferð alveg kærlega fyrir góðan dag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image