• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
May

Ræða formanns Verkalýðsfélags Akraness á 1. maí

Kæru félagar

Ég vil byrja á því að óska okkur öllum innilega til hamingju með baráttudag verkalýðsins.

Eitt af mikilvægustu málum hverrar þjóðar er að verja og tryggja auðlindir sínar, en við Íslendingar erum ríkt land með miklar auðlindir. Nægir að nefna í því samhengi sjávarauðlindina, náttúruauðlindina og að ógleymdri einni af okkar mikilvægustu auðlind sem er orkuauðlindin.

Við Íslendingar höfum svo sannarlega þurft að verja okkar auðlindir í gegnum árin og áratugina og nægir að nefna þorskstríðin sem hér hafa verið háð við Breta.

Við sem þjóð verðum að huga vel að því að hafa ætíð full yfirráð yfir okkar mikilvægustu auðlindum og það er mitt mat að við megum aldrei framselja yfirráð á auðlindum okkar til annarra þjóða. Það hefur vart farið framhjá einu einasta mannsbarni hér á landi að hart hefur verið deilt um innleiðingu á svokölluðum orkupakka 3. Meira segja greinir fræðimönnum á um hvort valdaframsal þriðja orkupakkans rúmist innan stjórnarskrár Íslands.

Það sem hins vegar vekur mér furðu og undrun er að stjórnvöld virðast ætla að keyra þetta mál í gegnum þingið þrátt fyrir að nánast allar skoðunarkannanir sýni að yfir 80% landsmanna eru á móti öllum þessum orkupökkum.

Það blasir við í mínum huga að allir þessir orkupakkar hvort sem það eru orkupakkar 1-2-3 eða komandi orkupakkar nr. 4 og 5 séu vegvísar að því að við sem þjóð getum hægt og bítandi misst yfirráðarétti okkar yfir einni af okkar mikilvægustu auðlind sem eru orkuauðlindirnar.

Það blasir líka við að hrægammar markaðsaflana sveima yfir orkuauðlindum þjóðarinnar í von um stjórnvöld komandi ára taki ákvörðun um að einkavæða Landsvirkjun og þessi sömu markaðsöfl vonast einnig til þess að sú stund renni upp, að hingað verði lagður sæstrengur frá Evrópu. 

Ég trúi og treysti ekki íslenskum stjórnvöldum þegar þau segja: „það stendur ekki til að hingað verði lagður sæstrengur“  Ég spyr: Af hverju er þá Landsvirkjun búin að eyða hundruðum milljóna króna í að kanna hagkvæmi þess að hingað verði lagður sæstrengur?

Raf­orka á að vera á for­ræði og í eigu þjóðarinnar og ekki á að fara með hana eins og hverja aðra vöru á markaði.  Raf­magn er und­ir­staða til­veru okk­ar í dag og það er sam­fé­lags­leg ábyrgð að tryggja fram­leiðslu og flutn­ing til allra, sú ábyrgð er of mik­il til að markaðsöflin fái að véla með hana, enda hef­ur markaðsvæðing grunnstoða yf­ir­leitt ekki bætt þjón­ustu, lækkað verð né bætt stöðu starfs­fólks.

Öll munum við markaðsvæðingu fjármálakerfisins fyrir hrun þar sem fjárglæframenn einkavæddu  gróðann og skattgreiðendur sáttu uppi með tapið, þessa sögu þekkjum við öll allt of vel!

Það er for­senda fyr­ir áfram­hald­andi upp­bygg­ingu lífs­gæða að eign­ar­hald á auðlind­um sé í sam­fé­lags­legri eigu og að við njót­um öll arðs af nýt­ingu auðlind­anna og get­um ráðstafað okk­ar orku sjálf til upp­bygg­ing­ar at­vinnu hér á landi.

Mér er það til efs að nokkurt sveitafélag eins og við Akurnesingar hafi jafn mikla hagsmuni af því að tryggja að orkuauðlindirnar séu ætíð á forræði og í eigu þjóðarinnar og rati ekki í hendurnar á markaðsöflunum sem eru því miður oft á tíðum knúinn áfram á græðginni einni saman. 

Af hverju segi ég þetta, jú vegna þess að atvinnuöryggi þúsunda starfsmanna sem starfa hjá stóriðjunum á Grundartanga myndi klárlega verða ógnað ef orkuauðlindirnar yrðu einkavæddar og sæstrengur lagður frá Evrópu til Íslands.  Enda blasir við að raforkuverð mun ekki bara hækka gríðarlega til heimilanna heldur einnig til stóriðjunnar og það myndi klárlega geta leitt til þess að rekstarforsendum þessara fyrirtækja yrði ógnað, sem myndi leiða sjálfkrafa til þess að atvinnuöryggi allra starfsmanna í orkufrekum iðnaði hér á landi væri stefnt í hættu.

Það má klárlega segja að búsetuskilyrði  okkar Akurnesinga sé nánast samofin stóriðjufyrirtækjunum á Grundartanga og ef rekstrarforsendum verður kippt undan þessum fyrirtækjum þá getum við Akurnesingar nánast slökkt ljósin, svo mikilvæg eru þau okkar samfélagi.  Já orkupakkarnir og raforkumálin eru stórmál sem við verðum að taka alvarlega og hafa skoðun á, en mín skoðun er hvellskýr; þetta mál á að fara í þjóðaatkvæðagreiðslu, enda eitt af stærstu hagsmunamálum sem þjóðin hefur staði frammi fyrir í mörg ár.

Kæru félagar

Eins og flestir vita þá skrifaði verkalýðshreyfingin undir kjarasamning fyrir verka- og verslunarfólk við Samtök atvinnulífsins þann 3. apríl síðastliðinn. Kjarasamning sem fékk nafnið lífskjarasamningurinn og mér er það algerlega til efs að nokkurn tímann hafi verið gerður jafn innihaldsríkur kjarasamningur fyrir verkafólk hér á landi.

Ég vil hins vegar byrja á því að rifja upp fyrir ykkur hverjar voru okkar eðlilegu og sanngjörnu launakröfur, jú þær lutu að því að lagfæra kjör þeirra sem væru á lægstu launatöxtunum. Við vildum hækka lægstu launin sérstaklega þannig að þau dyggðu fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og að allt launafólk gæti framfleytt sér og sínum og haldið mannlegri reisn.

En til að ná þessum árangri þurftu allar launabreytingar að verða gerðar í formi krónutöluhækkana en ekki í formi prósentuhækkana. Enda hefur sá sem hér stendur margoft bent á að prósentu launahækkanir séu aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gera ekkert annað en að auka á ójöfnuð.

Við vorum líka með kröfu á hendur stjórnvöldum en þær kröfur lutu meðal annars að róttækum kerfisbreytingum þar sem stjórnvöld myndu taka hagsmuni alþýðunnar og heimilanna fram yfir hagsmuni fjármálaelítunnar.

Nýja forystan í verkalýðshreyfingunni vildi semsagt að tekið yrði á verðtryggingunni, okurvöxtum og himinn háum þjónustugjöldum fjármálakerfisins með afgerandi hætti, því eins og allir vita þá hefur fjármálakerfið fengið í gegnum árin og áratugina að reka ryksugubarkann ofan í launaumslag alþýðunnar um hver mánaðarmót og komist átölulaust upp með að soga stóran hluta ráðstöfunartekna heimilanna yfir til sín. Nægir að nefna í því samhengi að viðskiptabankarnir þrír hafa skilað yfir 750 milljörðum í hagnað frá hruni og bara á síðasta ári skiluðu þeir 37 milljörðum í hagnað.

Já þessi róttæka kröfugerð undir forystu formanna Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, VR, Eflingar og Framsýnar kölluðu fram afar hörð viðbrögð frá lobbíistum sérhagsmunaaflanna. Í þessu samhengi er rétt að upplýsa að ég hef verið í forystu verkalýðshreyfingarinnar í 15 ár og komið að gerð mjög margra kjarasamninga og trúið mér kæru félagar að ég hef aldrei orðið vitni að jafn miskunnarlausum árásum í garð verkalýðshreyfingarinnar eins og í þessari kjaradeilu.

Um leið og við lögðum fram okkar kröfugerð í október í fyrra á hendur Samtökum atvinnulífsins og á hendur stjórnvöldum þá byrjuðu árásirnar af fullum þunga. Allir helstu hræðsluáróðursmeistarar auðvaldsins voru ræstir út og núna skyldi þessi nýja forysta verkalýðshreyfingarinnar fá að finna hressilega fyrir samtakamætti sérhagsmunaaflanna. Allir helstu leiðarhöfundar dagblaða landsins voru kallaðir uppá dekk og vinna þeirra laut að því að koma í veg fyrir að kröfugerð okkar næði fram að ganga. Við vorum kölluð af þessum leiðarahöfundum, galin, sturluð, byltingarsinnar og værum stærsta ógnin gagnvart íslensku efnahagslífi. Við vorum sökuð um að vilja bara verkfallsátök og ætluðum ekkert að semja, heldur valda miklum skaða á íslensku efnahagslífi.

Já svona voru árásirnar á okkur eftir að við lögðum fram okkar kröfugerð, kröfugerð sem byggðist eins og áður sagði á að hækka laun þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi og kröfugerð sem byggðist á því að kalla eftir róttækum kerfisbreytingum þar sem hagsmunir alþýðunnar og heimilanna yrðu teknir framyfir hagsmuni fjármálakerfisins.

Kæru félagar.

Þrátt fyrir þessar sturluðu árásir í okkar garð af hálfu áðurnefndu aðila tókst okkur að landa kjarasamningi, kjarasamningi þar sem okkur tókst að ná okkar aðalmarkmiðum fram. Markmiðum sem lutu að því að lagfæra kjör lágtekjufólks sérstaklega umfram aðra og kalla eftir róttækum kerfisbreytingum af hálfu stjórnvalda.

Þetta tókst okkur líka þrátt fyrir að mjög erfiðar aðstæður hafi komið upp í íslensku efnahagslífi á meðan við voru í miðjum kjaraviðræðum. Það var ekki bara að það hafi orðið loðnubrestur sem þýddi að þjóðarbúið varð af allt að 50 milljörðum í útflutningstekjum, heldur varð flugfélagið WOW air gjaldþrota þar sem upp undir 2000 félagsmenn okkar misstu vinnuna á einni nóttu.

Við formenn samflotsfélaganna gerðum okkur algerlega grein fyrir að þessar tímabundnu hjartsláttartruflanir í efnahagslífinu voru ekki að hjálpa okkur við að ná fram öllum okkar markmiðum.

En eitt markmið vorum við alls ekki tilbúin að gefa afslátt á, en það laut að því að hækka laun þeirra sérstaklega sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði.

Eftir gríðarlega yfirlegu og fundarhöld sem stóðu langt fram á nætur í húsakynnum ríkissáttasemjara fundum við leið til að ná fram kjarasamningi, kjarasamningi sem fangaði okkar helstu samningsmarkmið sem var að hækka kjör þeirra tekjulægstu sérstaklega.

Það gerðum við með því að semja eingöngu með krónutöluhækkunum en alls ekki prósentuhækkunum og nota þannig það svigrúm sem var til skiptanna til handa þeim tekjulægstu.

Kæru félagar þetta er í fyrsta skipti sem samið er eingöngu með krónutöluhækkunum og þetta er líka í fyrsta skiptið sem tekjulægsta fólkið fær fleiri krónur í launaumslagið heldur en þeir sem hafa hærri laun í okkar samfélagi.

Það var ekki bara að okkur tækist að semja í fyrsta skipti í sögu kjarasamningsgerðar eingöngu í formi krónutöluhækkana heldur tryggðum við líka aukna hlutdeild launafólks þegar betur árar í íslensku efnahagslífi. Það gerðum við í gegnum svokallaðan hagvaxtarauka sem mun geta skilað launafólki auknum launahækkunum sem verður til viðbótar föstum árlegum launahækkunum. Þessi hagvaxtarauki miðast við hagvöxt á mann sem reiknaður er út af Hagstofunni en hann mun geta skilað verkafólki allt að 13 þúsund viðbótar launahækkun ef hagvöxtur verður 3% eða meira.

Í ljósi þess að okkur tókst að sannfæra Samtök atvinnulífsins um að semja eingöngu í formi krónutöluhækkana þá náðum við að vera innan þess svigrúms sem hagkerfið þolir til launabreytinga. Enda eru samningsaðilar sammála um að samningsforsendurnar eigi að geta leitt til verulegrar vaxtalækkunar sem mun svo sannarlega skila sér í auknum ráðstöfunartekjum heimilanna og einnig mun vaxtalækkun koma fyrirtækjum til góða við að standa undir auknum launakostnaði. Rétt er að minna á að íslensk heimili skulda um 2000 milljarða þannig að 1% vaxtalækkun mun geta aukið ráðstöfunartekjur heimilanna um allt að 20 milljarða á ári.

Trúið mér að ég spái því að Seðlabankinn muni lækka stýrivextina verulega 22. maí sem er næsti vaxtaákvörðunardagur hjá bankanum vegna þeirrar aðferðafræði sem notuð var við þessa kjarasamningsgerð, enda byggir aðferðafræði kjarasamningsins upp á lækkun vaxta. Um það eru Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin algerlega sammála. Ef það raungerist ekki þá munum við geta sagt kjarasamningunum upp á næsta ári, enda erum við með forsenduákvæði í samningum sem kveður á um slíkt

Það er mjög mikilvægt að allir átti sig á því að samningsaðilar voru sammála um að lífskjarasamningurinn myndi leiða til verðstöðugleika og lækkunar vaxta. Með öðrum orðum að verslunareigendur myndu ekki varpa launabreytingum útí verðlagið.

Það verður því að viðurkennast að það voru gríðarleg vonbrigði þegar forstjóri ÍSAM, heildsölu- og framleiðslufyrirtæki tilkynnti viðskiptavinum sínum að ef kjarasamningurinn yrði samþykktur þá myndi fyrirtækið hækka vörur sínar um tæp 4%.   Ég hef eins og áður hefur komið fram tekið þátt í kjarasamningagerð í 15 ár og á þessum 15 árum man ég aldrei eftir því að forstjóri fyrirtækis hóti í miðri kosningu um kjarasamninga verðlagshækkunum á öllum vörum fyrirtækisins ef kjarasamningur verði samþykktur.

Þessi hótun var með svo miklum ólíkindum í ljósi þess að samningsaðilar voru sammála um að lífskjarasamningurinn myndi stuðla að verðstöðugleika og myndi leiða til lækkunar vaxta, en nú er ljóst að þetta fyrirtæki og hugsanlega fleiri ætla ekki að taka þátt í því að láta lífskjarasamninginn skila þeim ávinningi til launafólks eins og til stóð.

Á þeirri forsendu er ljóst að verkalýðshreyfingin verður að bregðast við þessari hótun með afgerandi hætti og tel ég morgunljóst að við verðum að hvetja okkar félagsmenn til að hunsa vörur frá þessum fyrirtækjum.

Munum að við sömdum með skynsömum hætti til að tryggja verðlagsstöðugleika og lækkun vaxta og ef verslunareigendur ætla ekki að fara með okkur í þá vegferð þá er alveg ljóst hvað gerist á næsta ári, kjarasamningum verður sagt upp og það getur stefnt í hörð átök.

Verkalýðshreyfingin mun ekki og ætlar ekki að láta atvinnurekendur og verslunareigendur fíflast með okkur og ef þeir skila ekki sínu framlagi sem er að halda aftur að verðlagi þá verður kjarasamningum sagt upp.

Ég vil hins vegar trúa því að stór hluti verslunareigenda muni halda aftur af verðlagshækkunum alveg eins og stjórnvöld og sveitarfélög hafa heitið að gera næstu 2 árin og kjarasamningurinn muni skila okkur öllum þeim ávinningi sem við erum sannfærð um að hann geti skilað okkur.

Kæru félagar

Það er ekki bara að okkur hafi tekist að ná markmiðum okkar um að hækka lægstu launin sérstaklega með gerð lífkjarasamningsins, heldur er mér líka til efs að aðkoma stjórnvalda til að liðka fyrir kjarasamningum hafi nokkur tímann verið jafn innhaldsmikil og við gerð þessa kjarasamnings.

Okkur tókst að knýja stjórnvöld til að gera róttækar kerfisbreytingar þar sem hagsmunir launafólks, alþýðunnar og heimilanna voru hafðir að leiðarljósi.

Allt atriði sem skipta launafólk miklu máli, atriði eins og þessi hér:

  • Lækkun skatta
  • Lengingu á fæðingarorlofi
  • Hækkun barnabóta
  • Átak í húsnæðismálum
  • Taka á félagslegum undirboðum
  • Tekið skal á keðjuábyrgð og kennitöluflakki
  • Að ógleymdu stærsta skerfi sem stigið hefur verið til til afnáms verðtryggingar

Allt eru þetta atriði sem verkalýðshreyfingin náði að knýja fram í samtölum við stjórnvöld í aðdraganda þessara kjarasamninga en heildar yfirlýsingarplagg ríkisstjórnarinnar er í 40 liðum og ég er eins og áður sagði sannfærður um að aðkoma stjórnvalda til að liðka fyrir kjarasamningum hefur aldrei verið jafn innhaldsrík eins og í þessum samningum.

Vissulega voru það vonbrigði að stjórnvöld skyldu ekki vera tilbúin að leiðrétta kjör aldraða og öryrkja. Hins vegar eru klárlega atriði í aðkomu stjórnvalda sem koma einnig öryrkjum og öldruðum til góða og nægir að nefna í því samhengi skattalækkun sem er beint sérstaklega að tekjulægsta fólkinu. Enn betur má en duga skal.

Já okkur tókst að auka ráðstöfunartekjur lágtekjufólks með margvíslegum aðgerðum í þessum kjarasamningi. Þetta er tímamóta kjarasamningur sem verður lengi í minnum hafður.

Ég fullyrði það að þessi árangur sem nú náðist við að stíga þétt skref í átt að því að lagfæra kjör lágtekjufólks hefði aldrei náðst nema vegna þeirra órjúfanlegu samstöðu sem var á milli VR, VLFA, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Framsýnar og Eflingar-stéttarfélags.

Já ég er sannfærður um að þeir sem stjórna íslenskri verkalýðshreyfingu í dag sýndu og sönnuðu með afgerandi hætti kraft sinn, dugnað og þor þegar þeir gengu frá lífskjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Þetta er tímamóta samningur og félagsmenn okkar hafi tekið undir það enda var lífkjarasamningurinn samþykktur með 88% atkvæðum þeirra sem sem tóku þátt. Afdráttarlausari stuðningur við samninginn er vart hægt að óska sér.

Það er hins vegar mikilvægt að árétta að þótt vel hafi tekist til við gerð þessa lífskjarasamnings þá er þessi kjarasamningur einungis eitt skerf af mörgum við að lagfæra og bætta kjör launafólks, enda liggur fyrir að barátta fyrir betri kjörum til handa launafólki lýkur aldrei!

Ágætu félagar, Munum að öll þau réttindi sem íslenskt verkafólk telur í dag vera algerlega sjálfsögð, áunnust vegna þrotlausrar baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Réttindi eins og veikindaréttur, orlofsréttur, fæðingarorlof, uppsagnarfrestur, lágmarkshvíld, orlofs- og desemberuppbætur og svona mætti lengi telja. Allt eru þetta réttindi sem hafa áunnist á liðnum árum og áratugum fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar.

Stéttarfélögin gegna líka mjög veigamiklu hlutverki við að verja réttindi sinna félagsmanna, enda er leikurinn á milli atvinnurekenda og launamannsins afar ójafn þegar upp kemur ágreiningur um kaup, kjör og önnur réttindi.

Sem betur fer eru langflestir atvinnurekendur heiðarlegir, en trúið mér inn á milli eru til atvinnurekendur sem eru algerir drullusokkar sem víla ekki fyrir sér að svína á sínum starfsmönnum eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég vil í þessu samhengi upplýsa ykkur um að frá því ný stjórn tók við Verkalýðsfélagi Akraness árið 2004 hefur félagið innheimt um 750 milljónir vegna kjarasamningsbrota á okkar félagsmönnum. Rétt er að geta þess að hér er ekki verið að taka tillit til þeirra margfeldisáhrifa sem sum málin héldu síðan áfram að skila okkar félagsmönnum.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vílar ekki fyrir sér að verja réttindi okkar félagsmanna með kjafti og klóm ef minnsti grunur leikur á að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna.

Hins vegar er rétt að geta þess að stundum koma upp ágreiningsmál þar sem félagið og fyrirtæki á okkar félagssvæði eru sammála um að vera ósammála og láta dómstóla skera úr um ágreiningsmál.

Félagið hefur á liðnum árum margoft þurft að stefna fyrirtækjum á okkar félagssvæði fyrir dómstóla vegna kjarasamningsbrota og ágreinings um túlkun ákvæða í kjarasamningum

Á þessu sést að félagið vílar ekki fyrir sér að standa vörð um réttindi sinna félagsmanna ef minnsti vafi leikur á að verið sé brjóta á réttindum þeirra. Það er rétt að geta þess að við höfum nánast unnið öll mál sem við höfum farið með fyrir dómstóla.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst mikilvægi þess að vera aðili að öflugu stéttarfélagi til að verja hagsmuni sína og trúið mér Verkalýðsfélag Akraness lætur ekkert fyrirtæki fótum troða réttindi hjá okkar félagsmönnum.

Kæru félagar.

Að lokum vil ég segja þetta, styrkur verkalýðshreyfingarinnar fellst í samtakamætti félagsmanna og því er mikilvægt fyrir alla að átta sig á því að forystumenn í verkalýðshreyfingunni eru ekkert ef baklandið er ekki sterkt og sem betur fer höfum við í VLFA ekki þurft að kvarta yfir veiku baklandi í okkar félagi.

Eins og fram hefur komið í ræðu minni í dag þá sést hversu gríðarlega mikilvæg íslensk verkalýðshreyfing er íslensku launafólki og lífskjarasamningurinn sýndi og sannaði hvernig samtakamátturinn getur skilað okkur gríðarlegum ávinningi ef við stöndum saman. Enda má segja að slagorð dagsins jöfnum kjörin- samfélag fyrir alla, endurspeglist að mörgu leiti í lífskjarasamningum.

Takk fyrir mig

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image