• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Oct

Helgi Seljan svarar Guðmundi Gunnarssyni formanni RSÍ

Guðmundur Gunnarsson formaður RSÍ skrifar inná blogg sitt á eyjan.is í dag um aðdraganda að Kastljósþætti sem formanni Verkalýðsfélags Akraness var boðið í gær til að ræða hin ýmsu málefni verkalýðshreyfingarinnar.  Guðmundur gagnrýnir þáttastjórnandann Helga Seljan harkalega í umræddu bloggi.

Það kom einnig fram í skrifum formanns RSÍ að hann hafi ekki minnstu hugmynd hvaða tillögur formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur sett fram um  lífeyrissjóðina, Guðmundur segir orðrétt ,"hef aldrei heyrt þær og færi vart að mæta í viðtal um það, enda ekki mitt að dæma þær tillögur". 

Þessi skrif formanns RSÍ eru stórfurðuleg og er þar vægt að orði kveðið, var hann ekki á ársfundinum þar sem tillaga VLFA um lífeyrissjóðina var til umfjöllunar?  Jú, formaður RSÍ var á ársfundi ASÍ og tók meira segja til máls um tillöguna og því til viðbótar hefur formaður RSÍ skrifað grein um tillögu VLFA á heimsíðu RSÍ sjá hér.  Þessi skrif formanns RSÍ eru því með öllu óskiljanleg.

Hann gagnrýndi Helga Seljan umsjónarmann Kastljós harðlega í umræddu bloggi.  Helgi Seljan svarði Guðmundi Gunnarssyni í dag á Pressunni sjá HÉR .

 Svar Helga Seljan umsjónarmanns Kastljós er hér að neðan í heild sinni

"Ég finn mig knúinn til að svara og í leiðinni leiðrétta stóryrtar stílæfingar Guðmundar Gunnarssonar, formanns Rafiðnaðarsambands Íslands, á vefsvæði Guðmundar á Eyjunni, sem seinna birtust á Kaffistofu Pressunar:

Guðmundur fer um víðan völl í Eyjupistli sínum varðandi það hvernig staðið var að bókun í Kastljós gærkvöldsins.   

Eftir að hafa lesið greinina í morgun fórum við í ritstjórninni aftur yfir atburði gærdagsins. Í framhaldinu töldum við einsýnt að í seinna samtali okkar við Guðmund, sem reyndar fór fram með milligöngu upplýsingafulltrúa ASÍ, hefði átt sér stað einhver misskilningur sem fælist í því að við hefðum talið skýrt að Guðmundur hefði ekki viljað mæta Vilhjálmi Birgissyni í umræðum um deilumál Alþýðusambandsins og gagnrýni þess síðarnefnda. Hann hefði hins vegar ekki talið svo vera. Í kjölfarið var Guðmundi gerð grein fyrir þessu og hann í leiðinni beðin afsökunar á því sem við héldum að væri misskilningur. Eðlilega.

Hins vegar kom fram í samskiptum okkar í kjölfarið staðfesting Guðmundar á því að Upplýsingafulltrúinn hefði beint þeirri spurningu til Guðmundur hvort hann vildi vera gestur þáttarins ásamt Vilhjálmi. Þessu boði hafnaði Guðmundur hins vegar líkt og því fyrra, sem snerist um að fá hann í urmæður um Stöðugleikasáttmálann, sem fyrst stóð til að yrði umfjöllunarefni í þættinum. Þar með var ljóst að Guðmundur hafði þvert ofan í fyrri stílfærðar yfirlýsingar neitað að mæta Vilhjálmi.

Því var ekki rangt farið með að segja í upphafi þáttarins í gær að hann hefði ekki viljað mæta Vilhjálmi í umrætt sinn. Guðmundur var reyndar aldrei tekin sérstaklega út úr þessum hópi þremenninganna þegar viðmælandi þáttarins var spurður hvers vegna hann teldi að enginn vildi mæta honum, líkt og Guðmundur heldur fram. Látum það skraut í skrifum Guðmundar þó liggja milli hluta.

Hvað varðar fullyrðingar Guðmundar um að félagar hans, Kristján Gunnarsson og Sigurður Bessason, hafi tjáð okkur að þeir gætu ekki komið vegna fundarhalda, er það ekki rétt. Þeir gáfu báðir mjög skýrt til kynna að þeir kysu ekki að ræða gagnrýni Vilhjálms með honum. Svo einfalt var það. Guðmundur verður að eiga túlkun á þessu símtali við þessa samstarfsmenn sína. Ekki mig.

Og svo það sé líka leiðrétt hér þá var Guðmundi aldrei tjáð í samtali okkar í gær, sem Guðmundur fer reyndar rétt með að hafi átti sér stað að ganga fjögur í gærdag, að hann yrði einn í fyrirhuguðum umræðum um stöðugleikasáttmálann. Svo því sé líka haldið til haga.

Það að umsjónarmenn Kastljóssins taki fram í upphafi viðtala ef tilteknir einstaklingar hafi ekki getað eða kosið að mæta í umræður eða viðtöl vegna þess sem til umfjöllunar er, er ekki óalgengt. Slíkt felur ekkert í sér annað en útskýringar fyrir áhorfendur þáttarins á fjarveru einstaklinga eða tiltekinna sjónarmiða, eftir atvikum.

Vanstillt og vonandi vaníhuguð gífuryrði Guðmundar Gunnarssonar um sóðagryfjur, leikfléttur og aðrar annarlegar hvatir mínar í hans garð eru vart svaraverðar. Rétt er þó, svo það liggi kristaltært fyrir, að þeim er vísað rakleitt í garðinn til Guðmundar sjálfs".
Helgi Seljan.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image