• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Oct

Kemur hækkun persónuafsláttar til framkvæmda eða ekki?

Nú hefur komið í ljós að launafólk mun fá launahækkun 1. nóvember nk. þannig að launatjón launþega vegna afsals og frestunar á launahækkunum verður ekki meira en orðið er.

Það hefur áður komið fram hér á heimasíðunni að verkafólk sem starfar á berstrípuðum lágmarkstöxtum hefur verið þvingað til að afsala sér launahækkunum sem nema allt að 100.000 kr. á umræddu tímabili.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness veltir því fyrir sér á hvaða forsendum atvinnurekendur sjá sér fært núna að standa við þær launahækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl. Sérstaklega í ljósi þess að fátt virðist hafa orðið að veruleika í margumtöluðum stöðugleikasáttmála og VLFA veltir því líka fyrir sér hvort ekki sé öruggt að gengið hafi verið frá því við ríkisstjórn Íslands að persónuafsláttur hækki í samræmi við það sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar 2008 segir til um.

Það væri með ólíkindum ef stjórn sem gefur sig út fyrir að vera félagshyggju- jafnaðar og velferðarstjórn ætli sér ekki að standa við hækkun persónuafsláttar eins og um var samið. Á þeirri forsendu þurfa aðilar vinnumarkaðarins að upplýsa almenning um hvort búið sé að ganga frá því hvort persónuafsláttur komi til framkvæmda um áramótin eða ekki.

Formaður félagsins er þeirrar skoðunar að afsal og frestun kjarasamninga hafi verið stórkostleg mistök í ljósi þess að verkafólk var þvingað til að afsala sér þessum hækkunum og það hjá fyrirtækjum sem klárlega hafa fulla burði til að standa við gerða samninga. Nægir að nefna í því samhengi öll fyrirtæki sem starfa í útflutningi.

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru rúmlega 1.600 fyrirtæki sem hafa á síðustu 12 mánuðum starfað í útflutningi. Þetta er ekki nákvæm tala, en þetta er nálgun eins og Hagstofan tjáði formanni Verkalýðsfélags Akraness. Það væri því fróðlegt að vita hversu margir einstaklingar starfa hjá þessum fyrirtækjum, en ljóst er að um tugi þúsunda einstaklinga er að ræða. Fyrirtæki sem notið hafa góðs af þeirri gengislækkun sem orðið hefur á undanförnum misserum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image