• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Mar

Frétt í Skessuhorni í dag

Tímavinnufólk hjá Akraneskaupstað fær sína desemberuppbót. 

Ánægjuleg niðurstaða segir formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Eins og fram hefur komið í Skessuhorni mótmælti Verkalýðsfélag Akraness því að Akranesbær greiddi ekki orlofsbætur og desemberuppbót til tímavinnufólks fyrir árið 2003. Akranesbær vísaði til túlkunar samstarfsnefndar Launanefndar Sveitarfélaganna og Starfsgreinasambands Íslands og bókunar þar að lútandi frá 23. desember s.l.

Málið var tekið fyrir á fundi Samstarfsefndarinnar þann 25. febrúar s.l. og þar var afstaða nefndarinnar endurskoðuð og fallist á röksemdir Verkalýðsfélags Akraness. Tímavinnufólki hjá Akranesbæ verða því greiddar orlofsbætur og desemberuppbót eins og verið hefur.

“Við höfðum rétt fyrir okkur og höfum fengið það staðfest og erum ánægð fyrir hönd okkar skjólstæðinga,” segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness. Hann segir að um sé að tefla mikla fjármuni þar sem maður í fullu starfi eigi rétt á 53.700 krónum í desemberuppbót og 10.000 kr. í orlofsuppbót. “Fólki munar um minna þannig að þetta er ánægjuleg niðurstaða” 

Förum eftir leikreglum

“Samningaumboðið okkar er hjá Launanefnd sveitarfélaga og þar fer fram túlkun á samningunum. Verkalýðsfélag Akraness var ekki sammála túlkun Launanefndarinnar og ekki heldur sammála sínu fólki í Starfsgreinasambandinu, því það var sameiginleg niðurstaða LN og SGS í desember að okkur bæri ekki að greiða orlofsuppbót og desemberuppbót til tímavinnufólks, ” segir Jón Pálmi Pálsson bæjarritari Akraneskaupsstaðar. “Þegar erindið kom til okkar að nýju eftir mótmæli Verkalýðsfélagsins var  því vísað til samningsaðila. Þeir hafa nú breytt fyrri samþykkt sinni og komist að því að okkur beri að greiða þessar bætur og við unum því að sjálfsögðu. Við erum ekki að brjóta að neinum heldur förum eftir leikreglum á hverjum tíma”

04
Mar

Kurr í samninganefnd VH

Samninganefnd Verkalýðsfélags Húsavíkur fundaði í gærkvöldi um stöðu kjaramála ásamt trúnaðarmönnum af öllum helstu vinnustöðum á félagssvæðinu. Fram kom megn óánægja með stöðu mála og þann drátt sem orðið hefur, þar sem enn hefur ekki verið gengið frá nýjum kjarasamningi þrátt fyrir að þeir hafi verið lausir um síðustu áramót. Tilboð atvinnurekenda um launahækkanir vakti undrun og reiði fundarmanna. Þá fengu stjórnvöld heldur ekki góða dóma fyrir viðbrögð þeirra við kröfum verkalýðshreyfingarinnar um hækkun atvinnuleysisbóta og aðkomu að lífeyrissjóðsmálum.

Samninganefndin taldi mikilvægt að verkafólk um land allt stæði saman og boðaði til verkfalla til að knýja á um bætt kjör haldi atvinnurekendur sig við fyrirliggjandi tillögur um launahækkanir. Samninganefndin var sammála um að félagsmenn í Verkalýðsfélagi Húsavíkur væru tilbúnir í átök enda ekki vanir því að láta troða á sér. Formanni félagsins sem jafnframt á sæti í samninganefnd Starfsgreinasambands var falið að koma þessum skoðunum á framfæri við samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands sem fundar í Reykjavík á föstudag um stöðuna og næstu skref í kjaradeilu sambandsins við atvinnurekendur.  

27
Feb

Lengri opnunartímar Vallarsels

Félaginu hefur borist eftirfarandi bréf frá leikskólafulltrúa Akraneskaupstaðar vegna lengri opnunartíma Vallarsels, eftir að formaður og framkvæmdastjóri félagsins fóru á fund bæjarráðs til að koma á framfæri óskum félagsmanna um lengri opnunartíma leikskóla bæjarins. 

Á fundi bæjarstjórnar Akraness 27. febrúar s.l. var eftirfarandi tillaga samþykkt:

 

 

“Lagt er til að frá 1. september 2004 verði boðið upp á vistunartíma í leikskólanum Vallarseli frá kl. 06:45 að morgni og til kl. 18:00 síðdegis.  Þó skal stefnt að því að vistunartími barns verði ekki lengri en sem nemur 9,5 klst. daglega.” 

Frá 1. september 2004  verða  leikskólarnir Garðasel og Teigasel  opnir  frá kl. 07:30 að morgni til kl. 17:30 síðdegis.  Frá og með þeim tíma fellur   fyrri opnunartími niður.

Leikskólastjórar þeirra skóla munu greina þeim foreldrum sem í dag eru með börn í vistun frá 07:15 til 07:30  eða 17:30 til 18:00  frá þesum breytingum með 6 mánaða fyrirvara.

Ef foreldrar þriggja barna eða fleiri í leikskólanum Vallarseli óska eftir dvöl frá kl. 6:45 til kl.7:30 eða 17:30 til 18:00 skal orðið við þeim óskum.  Beiðni þar um þarf að liggja fyrir í byrjun skólaárs.  Gjald fyrir þennan tíma verður 20% hærra en almennt gjald.

           

            

Þetta tilkynnist hér með.           

 

 

 

Akranesi 27. febrúar 2004

Virðingarfyllst,

________________________________

Sigrún Gísladóttir  leikskólafulltrúi

25
Feb

Sigur í málefnum tímavinnufólks hjá VLFA sem starfar hjá Akraneskaupstað

Launanefnd sveitafélaga hafði túlkað kjarasamning á milli Sambands íslenskra sveitafélaga og Starfsgreinasambandsins á þann hátt að tímavinnufólk hafi ekki átt rétt á persónuuppbótum eins og orlofs- og desemberuppbót.  Eftir þeirri túlkun hefur Akraneskaupstaður farið á sl. ári.  Þessu hefur VLFA mótmælt harðlega og kannaði hjá öðrum sveitafélögum hvernig þessum málum væri háttað hjá þeim. 

Niðurstaða úr þeirri athugun leiddi í ljós að önnur sveitafélög hafi greitt tímavinnufólki orlofs- og desemberuppbót. Félagið leitaði jafnframt eftir lögfræðilegu áliti og í því áliti segir að tímavinnufólk eigi fullan rétt á orlofs- og desemberuppbót. 

Í framhaldi af því óskaði VLFA eftir því við samstarfsnefnd SGS og LN að endurskoða þá túlkun sem fyrir hafi legið og óskaði félagið ennfremur eftir því að fyrri úrskurður yrði felldur úr gildi.

Á fundi í samstarfsnefnd SGS og LN í dag voru þær athugasemdir sem VLFA hefur gert í máli þessu teknar til greina og þýðir það að tímavinnufólk mun fá orlofs- og desemberuppbót greidda út mjög fljótlega.

Sá starfsmaður sem í fullu starfi er á rétt á orlofsuppbót upp á 10.000 kr. og desemberuppbót kr. 53.079.  Til að eiga rétt á orlofsuppbót þarf starfsmaður að hafa unnið a.m.k. 12 vikur á orlofsárinu.  Til að eiga rétt á desemberuppbót þarf starfsmaður að hafa starfað samfleytt í a.m.k. 6 mánuði á almanaksárinu.  Því til viðbótar segir að starfsmaður sem gegnt hefur hlutastarfi eða starfað hluta úr ári, skal hann fá greitt miðað við starfshlutfall og/eða starfstíma, þó þannig að hann hafi starfað samfellt a.m.k frá 1. september það ár.

25
Feb

Öskudagsbörn

Kíkið á myndirnar af krökkunum sem komu til okkar að syngja á öskudaginn, undir flipanum "Á döfinni".

24
Feb

Skattar lækka eftir kjarasamningagerð

Eftirfarandi frétt birtist á www.ruv.is í dag:

Ríkisstjórnin hefur að mörgu leyti komið með neikvæð innlegg inn í komandi kjarasamninga með auknum álögum; kvennastörf, ekki síst hjá ríkinu, eru vanmetin, sagði Atli Gíslason VG í utandagskrárumræðum á Alþingi í gær. Ríkisstjórnin verðskuldar ekki traust launamanna, sagði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingar. Geir Haarde fjármálaráðherra segist koma að skattalækkunum eftir gerð kjarasamninga. 

Aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum var rædd utan dagskrár. Meðal annars spurði málshefjandi, Atli Gíslason, um áform ríkisstjórnarinnar í skattamálum fyrir komandi kjarasamninga. Þá sagði hann eftirlaunalög þingmanna og æðstu embættismanna, sem sett voru fyrir jól, hafa verið olíu á óánægjueld. Það hafi innlegg ríkisstjórnarinnar um niðurfellingu sjómannaafsláttar líkaverið . 
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði ríkisstjórnina vilja viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði og stuðla að kjarasamningar. Hann sagði hækkun lægstu launa vera viðfangsefni aðila vinnumarkaðarins en ítrekaði stefnu ríkisstjórnarinnar um að afnema hátekjuskatt, lækka skattprósentu. Á tveimur fundum með aðilum vinnumarkaðarins hafi verið rætt um lífeyrisrétt og atvinnuleysisbætur en enn væru samningar ekki komnir það langt að komið væri að útspili ríkisstjórnar. Össur Skarphéðinsson sagði ríkistjórnina hafa svikið loforð, skattahækkanir á árinu nemi miljörðum, launamenn gætu ekki reitt sig á hana. 
Geir Haarde fjármálaráðherra sagði að vonandi tækist að ljúka samningum innan skamms. Hann sagði stefnu ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir skýra og það komi til hennar kasta að kjarasamningum loknum. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image