• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
31
Jan

Samningafundi frestað til morguns

Samningafundi við forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins var frestað til kl. 13:00 á morgun.  Stéttarfélögin komu fram með nýja hugmynd á fundinum í dag, til lausnar á þessari erfiðu kjaradeilu.  Forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins báðu um frest eins og áður sagði til morguns sem stéttarfélögin að sjálfsögðu veittu.  Það er einlæg von Verkalýðsfélags Akraness að þessari svo mjög erfiðu kjaradeilu ljúki með nýjum kjarasamningi á morgun.  Því beri samningsaðilum  ekki gæfa til að leysa þessa deilu á fundinum á morgun, er veruleg hætta á að harka hlaupi í þessa kjaradeilu.

31
Jan

Samningafundur á morgun við forsvarsmenn Norðuráls

Samninganefnd Norðuráls fundaði í morgun.  Samninganefndin var að fara yfir stöðuna, eins og hún lítur út eftir að Alcan gekk frá sínum samningi.  Samninganefndin mun funda með forsvarsmönnum Norðuráls í fyrramálið og verður haldið áfram við að fara yfir kröfur stéttarfélaganna.   Vaktavinnumenn hafa verið duglegir að minna formann félagsins á þá skýlausu kröfu um,  að fá fimmta vakthópinn inn.  Þeirri kröfu hefur verið komið vel til skila til forsvarsmanna Norðuráls, og munu samningsaðilar eflaust hefja viðræður um fimmta vakthópinn fljótlega.  

29
Jan

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu stéttarfélaganna við Íslenska járnblendifélagið

Fundað verður hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu stéttarfélagana við Íslenska járnblendifélagið.  Skilaboðin eru skýr hvað Verkalýðsfélag Akraness varðar, mánudagurinn er úrslitastund um það hvort gengið verður frá nýjum kjarasamningi án átaka eða ekki.  Eftir samtölum sem formaður félagsins hefur átt við forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins síðustu daga var ekki annað að heyra en forsvarsmenn Íj hafi mikinn áhuga á að reyna að klára nýjan kjarasamning við starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins á fundinum á mánudaginn.   Það verður hinsvegar að koma í ljós hvort það tekst eða ekki, fundurinn hefst kl. 14:00.  

29
Jan

Mun mæða mikið á samninganefnd Norðuráls

Það verður mikið um að vera í samningamálum hjá Verkalýðsfélagi Akraness eftir helgi.  Strax á mánudagsmorgun mun samninganefnd Norðuráls hittast og fara yfir stöðu mála.  Alcan hefur lokið við að gera sinn kjarasamning og gefur samningurinn starfsmönnum (Ísals) 20.47% á samningstímanum.  Það liggur því fyrir að launabilið á milli starfsmanna Norðuráls og starfsmanna Alcan hefur aukist enn frekar og er orðið allverulegt.  Það mun því reyna mikið á samninganefnd Norðuráls að minnka þetta launabil eins mikið og kostur er.  Því krafa starfsmanna Norðruáls er skýr, það er sambærileg laun og starfsmenn Alcan hafa.  

28
Jan

Samningafundur við Norðurál var haldinn í dag

Samningafundur um nýjan kjarasamning  var haldinn í dag við forsvarsmenn  Norðuráls.  Eru samningsaðilar rétt að byrja að fara yfir þau kjaraatriði sem stéttarfélögin hafa gert að kröfu sinni.  Næsti samningafundur er þriðjudaginn 1. febrúar. 

27
Jan

Aðalfundur opinberrar deildar var haldinn í kvöld

Aðalfundur opinberrar deildar var haldinn í kvöld.  Kosið var í stjórn deildarinnar og þeir sem skipa stjórnina eru:  Steinunn G. Guðjónsdóttir meðstjórnandi, Guðrún Guðbjartsdóttir varameðstjórnandi, ritari Sigurlaug Guðmundsdóttir og vararitari Ásgerður Magnúsdóttir.  Formaður deildarinnar er Sigríður Sigurðardóttir og varaformaður er Hrönn Ásgeirsdóttir.  Formaður félagsins vill að það komi skýrt fram að það hefur verið afar ánægjulegt að eiga samskipti við þá sem tilheyra opinberu deildinni.  Sér í lagi hefur verið gott samstarf við starfsfólk á Sjúkrahúsi Akraness.  Vill formaður félagsins þakka trúnaðarmönnum SHA og einnig þeim sem eru í samráðsnefnd SHA kærlega fyrir frábært samstarf  á liðnu ári.    

Það kom fram hjá starfsmönnum SHA að þær eru afar óánægðar með þá ákvörðun stjórnenda SHA að breyta um vinnufyrirkomulag.  Telja að álag hafi aukist til mikilla muna eftir þessar breytingar, og nokkrar hafi lækkað í launum.  Formaður félagsins og starfsmenn sendu forsvarsmönnum SHA í desember áskorun og yfirlýsingu þar sem þessari ákvörðun var harðlega mótmælt.  En því miður breytti það ekki ákvörðun stjórnenda SHA.  Formaður félagsins kynnti að fyrirhugað væri að koma á námskeiðum fyrir starfsmenn SHA og óskaði formaðurinn eftir tillögum um hvernig námskeið starfsmenn vilja fara á.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image