• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Feb

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fundaði í gærkveldi með starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins

Starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins óskuðu eftir því hvort formaður félagsins sæi sér fært að koma á vinnustaðinn og fara lauslega yfir nýgerðan kjarasamning.   Að sjálfsögðu varð formaður félagsins við þessari beiðni, og afar ánægjulegt að starfsmenn skuli leita til félagsins til að fá skýringar á nýjum kjarasamningi.  Það liggur fyrir að það verður stjörnufundur fljótlega eftir helgi þar sem farið verður yfir samninginn í heild sinni.  Það gætti viss misskilnings á nokkrum atriðum og það er mjög mikilvægt að starfsmenn hafi samband við formann félagsins séu starfsmenn ekki vissir um viss kjaraatriði.  Hægt er að hafa samband við formann félagsins og óska eftir upplýsingum um nýgerðan kjarasamning hvenær sem er, endilega ef menn eru ekki vissir um einhver atriði í samningum. 

Það sem starfsmenn voru að velta  fyrir sér var hvort , gamli bónusinn uppá 5.44% og sala á kaupaukum uppá 3% séu inn í heildarkostnaðarmati samningsins, sem hljóðar uppá 20,36% á samningstímanum.  Nei alls ekki flutningur á gamla bónusnum og sala á kaupaukunum hefur ekkert með 20.36% að gera.  Það er eðlilegt að starfsmenn vilji fá skýringar við þessum atriðum, eins og áður sagði er mjög jákvætt að geta svarað þeim atriðum sem starfsmenn eru að óska skýringa á.  Þetta eru jú ykkar launakjör og því afar mikilvægt að starfsmenn séu vel upplýstir um innihald kjarasamningsins.  Mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta sitt eftir liggja í að upplýsa starfsmenn um kjör sín og réttindi almennt. 

  • Kostnaðarmatið er eftirfarandi:
  • Almennar hækkanir 11.46%
  • Nýtt bónuskerfi         5.64%
  • Yfirverð kaupaukar    0.11%
  • Starfsmenntasjóður   0.13%
  • Lífeyrissjóður            1.91%

                            Samtals 20.36%

Eins og áður sagði er fyrirhugað að halda stjörnufund fljótlega eftir helgi.  Fæ svar í dag hvenær fundurinn verður nákvæmlega.   Á stjörnufundinum verður farið ítarlega  yfir samninginn.  Samt sem áður endilega að hafa samband vilji starfsmenn fá upplýsingar um nýgerðan kjarasamning.

01
Feb

Undirritaður var nýr kjarasamningur við Íslenska járnblendifélagið í dag

Gengið var frá  nýjum kjarasamningi við forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins á fimmta tímanum í dag.  Heildarkostnaðarmat samningsins er 20,36% á samningstímanum.  Samningurinn gildir frá 1. desember 2004 og til 30. nóvember 2008.  Það sem er nýtt í þessum kjarasamningi er að það er tekið upp nýtt bónuskerfi sem samningsaðilar eru sammála um að geti gefið starfsmönnum 2,2% á árinu 2005 og væntingar eru um að bónusinn verði farinn að gefa um 5,64% árið 2006.  Gamla bónuskerfið verður lagt niður og meðaltalsbónus síðustu ára upp á 5,44% verður fluttur inn í launataxta.  Það á að vera búið að greiða atkvæði um nýjan samning fyrir kl. 16:00, fimmtudaginn 17. febrúar n.k.  Farið verður í kynningu á kjarasamningnum á næstu dögum.  Formaður félagsins hefur fundað 48 sinnum þar af 16 sinnum hjá ríkissáttasemjara, vegna þessa nýja kjarasamnings við Íslenska járnblendifélagið.  Það er alveg hægt að fullyrða að gríðarleg vinna og orka hefur farið í þessa kjaradeilu.  Verkalýðsfélag Akraness vill þakka trúnaðarmönnum Íj kærlega fyrir þeirra framlag  sem hefur verið ómetanlegt, því að gegna starfi trúnaðarmanns getur verið afar vanþakklátt starf.  Einnig vill  Verkalýðsfélag Akraness þakka ríkissáttasemjara fyrir hans dyggu stjórn í þessum viðræðum og einnig hans góða starfsfólki fyrir gott samstarf.

Helstu atriði kjarasamningsins eru:

  • Samningurinn gildir frá 1.des 2004 til 30. nóv 2008
  • Nýtt bónuskerfi byggist á tveimur þáttum þ.e nýtingarbónus sem getur gefið frá 0% til 4,5% og öryggis-og unhverfisbónus sem getur gefið frá 0% til 2,5%
  • Samningsaðilar eru sammála um að nýi bónusinn gefi starfsmönnum 2,2% árið 2005 og verði farinn að gefa um 5,64% 2006
  • Gamli bónusinn fluttur inn í launataxta 5,44% meðaltal síðustu ára.
  • Kaupaukar felldir inn í launataxta 3% (voru að meðaltali 2,85% áður) 
  • Byrjunarlaun hjá ofngæslumanni hækkar úr 119.942 í 134.494 (grunnlaun) 12% hækkun
  • 10 ára launataxti hjá ofngæslumanni hækkar úr 141.532 í 158.702. (grunnlaun) 12% hækkun
  • Byrjunarlaun hjá dagmanni hækkar úr 129.097 í 144.761 (grunnlaun) 12% hgækkun
  • Dagmaður á með 10 ára starfsreynslu hækkar úr 152.334 í 170.817 (grunnlaun) 12% hækkun
  • Hækkanir á samningstímanum eru 1. jan 2006 3%,      1. jan 2007 2,5%, 1. jan 2008 2.25%
  • Orlofsuppbót var 83.968 verður 91.398
  • Desemberuppbót var 83.968 verður 91.398
  • Endurskoðunarákvæði bónuskerfa.
  • Hækkun iðgjalds í samtryggingarsjóð 2% á samningstímanum
  • Greitt verður í starfsmenntasjóði 0.15%
  • Eingreiðsla vegna niðurfellingar á hagnaðarhlutdeild 40.000 þúsund
  • Gildistaka nýrra bónuskerfa er 1. febrúar 2005.  Fyrstu greiðslur skv. nýjum bónuskerfum eru þ.a.l. 15. mars.  Í ljósi þess greiðist hverjum starfsmanni 15.000 þús eingreiðsla í launaútborguninni 15. mars.
  • Samningsaðilar gerðu bókun um starfstengt nám (stóriðjuskóla) ætla samningsaðilar að kanna upptöku á slíku námi.
  • Yfirlýsing um að ekki verði um úthýsingu á samningstímanum að ræða.
  • Ýmsar bókanir og yfirlýsingar fylgja samningum
01
Feb

Fundað var með forsvarsmönnum Norðuráls í morgun

Samningafundi með forsvarsmönnum Norðuráls var rétt í þessu að ljúka.  Það sem samningsaðilar gerðu á þessum fundi var að fara yfir kröfur stéttarfélaganna, grein fyrir grein og miðar þeirri vinnu ágætlega.  Samningsaðilar hafa ekkert rætt um launaliði samningsins, og verður væntanlega farið í þær viðræður fljótlega.  Næsti fundur hefur verið boðaður fimmtudaginn 3. febrúar kl. 8:30.

31
Jan

Samningafundi frestað til morguns

Samningafundi við forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins var frestað til kl. 13:00 á morgun.  Stéttarfélögin komu fram með nýja hugmynd á fundinum í dag, til lausnar á þessari erfiðu kjaradeilu.  Forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins báðu um frest eins og áður sagði til morguns sem stéttarfélögin að sjálfsögðu veittu.  Það er einlæg von Verkalýðsfélags Akraness að þessari svo mjög erfiðu kjaradeilu ljúki með nýjum kjarasamningi á morgun.  Því beri samningsaðilum  ekki gæfa til að leysa þessa deilu á fundinum á morgun, er veruleg hætta á að harka hlaupi í þessa kjaradeilu.

31
Jan

Samningafundur á morgun við forsvarsmenn Norðuráls

Samninganefnd Norðuráls fundaði í morgun.  Samninganefndin var að fara yfir stöðuna, eins og hún lítur út eftir að Alcan gekk frá sínum samningi.  Samninganefndin mun funda með forsvarsmönnum Norðuráls í fyrramálið og verður haldið áfram við að fara yfir kröfur stéttarfélaganna.   Vaktavinnumenn hafa verið duglegir að minna formann félagsins á þá skýlausu kröfu um,  að fá fimmta vakthópinn inn.  Þeirri kröfu hefur verið komið vel til skila til forsvarsmanna Norðuráls, og munu samningsaðilar eflaust hefja viðræður um fimmta vakthópinn fljótlega.  

29
Jan

Fundað hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu stéttarfélaganna við Íslenska járnblendifélagið

Fundað verður hjá ríkissáttasemjara vegna kjaradeilu stéttarfélagana við Íslenska járnblendifélagið.  Skilaboðin eru skýr hvað Verkalýðsfélag Akraness varðar, mánudagurinn er úrslitastund um það hvort gengið verður frá nýjum kjarasamningi án átaka eða ekki.  Eftir samtölum sem formaður félagsins hefur átt við forsvarsmenn Íslenska járnblendifélagsins síðustu daga var ekki annað að heyra en forsvarsmenn Íj hafi mikinn áhuga á að reyna að klára nýjan kjarasamning við starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins á fundinum á mánudaginn.   Það verður hinsvegar að koma í ljós hvort það tekst eða ekki, fundurinn hefst kl. 14:00.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image