• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Feb

Atvinnurekendur spara sér hundruðir milljóna vegna tafar á nýjum samningi

Nú er liðinn einn mánuður frá því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði runnu út og þolinmæði íslensks verkafólks gersamlega að þrotum komin. Þó nokkur fjöldi félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness er uggandi vegna þess hversu hægt þessar viðræður ganga. Verkafólk minnist þess að þegar síðast var samið þá tók það rúma tvo mánuði, án þess að samningarnir hefðu neina afturvirkni.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur að slíkt komi ekki til greina í komandi kjarasamningum og það verður að gera þá skýlausu kröfu að sá kjarasamningur sem nú er verið að móta gildi frá 1. janúar, eða nánar frá þeim tíma sem síðasti kjarasamningur rann út.

Það er ljóst að atvinnurekendur spara sér hundruðir milljóna ef kjarasamningur gildir ekki frá því að eldri samningur rann út og er óvarlegt að áætla að sú upphæð geti numið a.m.k. hálfum milljarði fyrir hvern mánuð sem samningar dragast á langinn. En að sjálfsögðu er erfitt að nefna nákvæmlega hversu háa upphæð atvinnulífið sparar sér með töfinni.

Á þessari forsendu verður að gera þessa skýlaust kröfu sem áður hefur komið fram.

Í næstu viku verður væntanlega reynt til þrautar hvort samningar takist eða ekki og er það mat formanns að það sé skylda okkar að nota næstu viku í þá vinnu. Það er ekki hægt að bjóða íslensku verkafólki upp á það lengur hversu hægfara þessar viðræður hafa gengið. Nú verða Samtök atvinnulífsins að sýna fullan samningsvilja. Ef ekki, þá er fátt annað í stöðunni en að undirbúa aðgerðir til að knýja fram nýjan samning.

Rétt er að það komi fram að það eru þættir sem hafa þokast síðustu daga eins og t.d. forsenduákvæði og tímalengd samningsins. En aðalmálið er eftir, sem er að sjálfsögðu launaliðir samningsins.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image