• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Feb

Betra er seint en aldrei

Það hefur orðið ótrúlegur viðsnúningur hjá forsvarsmönnum HB-Granda vegna uppsagna allra starfsmanna fyrirtækisins á landvinnslunni á Akranesi, eftir að Verkalýðsfélag Akraness og Alþýðusamband Íslands bentu á að fyrirtækið væri að brjóta lög nr. 63/2000 um hópuppsagnir.

Í lögum um hópuppsagnir kemur skýrt fram að unnið skuli eftir ákveðnu upplýsinga- og samráðsferli með trúnaðarmönnum, séu uppi áform um hópuppsagnir.  Í 5. gr. laganna er kveðið á um að í samráðinu felist skylda atvinnurekanda til að kynna og ræða við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr., um áformin, rökstyðja þau og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda.

Einnig er kveðið á um í 6. gr. laganna að atvinnurekandi skuli vegna samráðs aðila skv. 5. gr. láta trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr. 5. gr., skriflega í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir. (sjá nánar í lögunum með því að smella hér)

Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB Granda sagði í samtali við Vísi í gær að fyrirtækið hefði í einu og öllu farið að lögum við þessar uppsagnir. Haft hafi verið samráð við trúnaðarmenn og uppsagnirnar tilkynntar til Svæðisvinnumiðlunar.

Forstjóri HB Granda veit betur, hið rétta er að "samráðið" var keyrt í gegn á 5 dögum og trúnaðarmönnum og stéttarfélaginu gafst ekki færi til að gera athugasemdir við uppsagnirnar og því til viðbótar gafst trúnaðarmönnum og VLFA ekki tækifæri til að koma með tillögur til að milda uppsagnirnar eins og lögin kveða á um.  Einnig höfnuðu forsvarsmenn fyrirtækisins því að láta trúnaðarmönnum skriflega í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir eins og kveðið er skýrt á um í 5 gr. laganna.

Fram kom í máli Eggerts í viðtali við visi.is í gær að HB Grandi og Vinnumálastofnun ætli að gera sameiginlega áætlun um endurmenntun og ráðgjöf gagnvart þeim sem missa vinnuna þegar uppsagnir starfsfólks koma til framkvæmda. Viðkomandi starfsmönnum verði veitt aðstoð við atvinnuleit, aðgengi að viðeigandi námskeiðum, gerð ferilsskrár og greiningu áhugasviðs síns. HB Grandi greiði kostnað við verkefnið og leitað verður eftir samstarfi við þá sem annast fræðslu og námskeiðahald, við verkalýðsfélög og aðra eftir atvikum. 

Ekkert af þessu buðu forsvarsmenn HB Granda þegar Verkalýðsfélag Akraness og trúnaðarmenn funduðu með þeim í svokölluðu "samráði".  Það var akkúrat þetta sem trúnaðarmenn og stéttarfélagið vildi að yrði gert áður en endanleg ákvörðun um uppsagnir starfsmanna yrðu staðfestar.  Enda kemur skýrt fram í lögunum að það eigi að gefa trúnaðarmönnum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda.

Af hverju skyldu forsvarsmenn HB Granda hafa ákveðið að fara í þessa vinnu nú, vinnu sem átti að fara fram í upplýsinga- og samráðsferlinu eins og lögin kveða á um.  Það er einföld skýring á því, yfir fyrirtækinu vofir stefna vegna brota á lögunum og þeir vita mæta vel að þeir fóru ekki eftir lögunum um hópuppsagnir.

Verkalýðsfélag Akraness fagnar því innilega að forsvarsmenn HB Granda skuli kúvenda sinni afstöðu og séu loksins tilbúnir að aðstoða þá starfsmenn sem nú eru að missa sitt lífsviðurværi og hefja það samráðsferli eins og lög um hópuppsagnir kveða skýrt á um, samráðsferli sem átti að hefjast strax í byrjun.

Það er morgunljóst að sú gagnrýni sem Verkalýðsfélag Akraness og Alþýðusamband Íslands hafa haldið hátt á lofti í þessu máli hefur skilað umtalsverðum árangri.  Eins og segir í orðatiltækinu, betra er seint en aldrei.

Á morgun munu forsetar ASÍ taka endanlega ákvörðun um næstu skref í þessu máli, en það hefur komið fram í máli forseta ASÍ að hér sé um mikilvæga lögbundna hagsmuni að ræða fyrir íslenska launþega.

Fjallað var um málið á STÖÐ 2 í gær hægt að horfa HÉR

Einnig var fjallað um málið á RÁS 1 hægt að hlusta HÉR

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image