• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Feb

Það sem Samtök atvinnulífsins hafa verið að bjóða er allt of rýrt

Stjórn félagsins kom saman til fundar í gærkveldi og voru kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins og uppsagnir starfsmanna HB Granda helstu málin sem voru til umræðu.

Farið var ítarlega yfir málefni HB Granda og harmaði stjórn félagsins að til þessara uppsagna hafi þurft að koma. Er það mat stjórnar að þessi ákvörðun sé afar undarleg sérstaklega í ljósi þess að öll hagræðissjónarmið segja að hagkvæmara sé fyrir fyrirtækið að reka landvinnsluna hér á Akranesi.  Fram kom í máli stjórnarmanna að það sé með öllu óþolandi að þeir sem hafa tímabundinn umráðrétt yfir auðlindum hafsins skuli ekki sýna þá samfélagslegu ábyrð sem slíku valdi fylgir. 

Það getur ekki verið eðlilegt að verkafólk í fiskvinnslu sé eitt og sér látið axla ábyrgð á þeim niðurskurði sem orðið hefur á aflaheimildum í þorski á undanförnum árum eins hefur gerst vítt og breitt um hinar dreifðu byggðir þessa lands að undanförnu.  Það ábyrgðarleysi sem kvótagreifar þessa lands hafa sýnt íslensku þjóðinni á undanförnum mánuðum kallar á algjöra uppstokkun á úthlutun á aflaheimildum.  Enda hefur það fiskveiðistjórnunarkerfi og framsalskerfi sem hér hefur verið við lýði í 24 ár nánast lagt heilu byggðarlögin í rúst. 

Kjaramálin voru einnig mikið til umræðu og kom fram í máli stjórnarmanna að þolinmæðin er gjörsamlega á þrotum komin.  Farið var yfir tillögur sem SA hefur verið að kynna að undanförnu og féllu þær tillögur í grýttan jarðveg hjá stjórn félagsins.  Það var mat stjórnar að tölurnar í launaliðnum sem SA hafa boðið séu einfaldlega of lágar.  Einnig kom fram skýr krafa um að nýr kjarasamningur þyrfti að gilda frá þeim tíma sem sá eldri hafi runnið út, sem var eins flestir vita 1. janúar sl.  Einnig kom fram að mönnum hugnast það alls ekki að þeir félagsmenn sem hafa náð kauphækkunum á sínum eigin verðleikum á tímabilinu 1. mars 2007 til 1. mars 2008 ættu lítinn sem eigan rétt til kauphækkana í komandi kjarasamningum.

Það er því niðurstaða stjórnar VLFA að það sem SA hefur verið að bjóða sé einfaldlega alltof rýrt til að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image