• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Feb

Fundað um málefni innflytjenda

Formaður félagsins átti fund í morgun með félagsmálastjóra Akraneskaupstaðar og tveimur öðrum fulltrúum bæjarins vegna málefna innflytjenda sem búa á Akranesi. 

Í dag eru um 500 erlendir félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness og hefur þeim farið fjölgað hratt á undanförnum tveimur árum. Langstærsti hluti erlendra félagsmanna VLFA kemur frá Póllandi.

Hugmyndin með þessum fundi var fyrst og fremst sú að efla samstarf þeirra aðila sem eru að vinna að málefnum innflytjenda á svæðinu.  Var rætt um að skipa samstarfshóp þeirra aðila sem vinna hvað mest með innflytjendum og var rætt um að funda reglulega þar sem aðilar gætu skipst á hinum ýmsu upplýsingum er varða málefni innflytjenda á Akranesi.

Formaður fór á fundinum í morgun yfir þá aðstoð og þjónustu sem Verkalýðsfélag Akraness hefur verið að veita sínum erlendu félagsmönnum og er sú aðstoð og þjónusta æði margbreytileg.  Félagið hefur t.d. innheimt á síðustu þremur árum rúmar 6,2 milljónir vegna brota og félagslegra undirboða á erlendu verkafólki. 

Því miður eru enn til atvinnurekendur sem misbjóða þessum erlendu félagsmönnum okkar gróflega og með slíku háttarlagi er um leið verið að gjaldfella launakjör íslenskra verkamanna, við slíkt verður ekki unað.  Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið og mun taka mjög hart á þeim óprúttnu atvinnurekendum sem ekki geta farið eftir íslenskum kjarasamningum og þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Það er alveg ljóst að það má alltaf gera betur í þessum málefnum og þess vegna er þetta framtak bæjaryfirvalda um að efla samstarf vegna innflytjenda hið besta mál.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image