• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
Jan

Bæjarbúar lamaðir vegna ákvörðunar HB Granda

Bæjarbúar á Akranesi eru sem lamaðir vegna frétta af fyrirhuguðum uppsögnum HB Granda. Fjallað var um málið á bæjarstjórnarfundi á Akranesi sem haldinn var í gær og var þar lögð fram harðorð ályktun vegna uppsagna HB Granda á öllum starfsmönnum fyrirtækisins í landvinnslu á Akranesi. Fram kemur mikil óánægja og vonbrigði með þessa ákvörðun stjórnenda fyrirtækisins.

„Bæjarstjórn Akraness harmar að stjórn og stjórnendur HB Granda hf. hafi gripið til þeirrar óheilla ákvörðunar að segja upp öllum starfsmönnum fyrirtækisins, sem vinna í fiskvinnslu á Akranesi og tapa þar með í leiðinni miklum mannauði og trúverðugleika.  Ákvörðunin kemur verulega á óvart eftir fyrri yfirlýsingar og fyrirheit stjórnarformanns félagsins, Árna Vilhjálmssonar.

Bæjarstjórn lýsir yfir megnri óánægju með ákvörðun stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins, en með henni eru þeir í raun að semja lokakaflann í 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi.  Með ákvörðun um stórfelldar uppsagnir starfsfólk í fiskvinnslu á Akranesi  er vegið alvarlega að grundvallar atvinnustarfsemi í bæjarfélaginu og lífsviðurværi bæjarbúa.  Bæjarstjórn Akraness mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem stjórnendur fyrirtækisins hafa haft við niðurskurð starfa á Akranesi á undanförnum misserum og ekki hvað síst þeirri ákvörðun sem tilkynnt er um nú.  Uppsagnirnar, sem eru gerðar í nafni hagræðingar orka mjög tvímælis m.a. í ljósi ákjósanlegra aðstæðna á Akranesi til útgerðar og fiskvinnslu. Kynntar hafa verið hugmyndir um frekari þróun Akraneshafnar HB Granda hf. til hagsbóta og þar er fyrir hendi öflugt og traust starfsfólk, sem nú blasir við að missi atvinnu sína.

Bæjarstjórn Akraness óskar eftir tafarlausum fundi með stjórn og stjórnendum HB Granda hf. þar sem þeir geri grein fyrir ákvörðunum sínum og framtíðar rekstri fyrirtækisins á Akranesi.  Ennfremur óskar bæjarstjórn eftir fundi með þingmönnum Norð-Vesturkjördæmis um stöðu mála.“

Stjórn Verkalýðsfélags Akrnaess fagnar innilega þessari ályktun sem allir bæjarfulltrúar Akraness stóðu að.  Ályktunin er algerlega í samræmi við þann málflutning sem formaður félagsins hefur haft vegna þessa uppsagna.  Stjórn VLFA telur jafnframt að allir bæjarbúar þurfi að leggast á eitt um fá þessari röngu ákvörðun stjórnar HB-Granda breytt enda telur stjórn Verkalýðsfélags Akraness þessar uppsagnar ekki vera byggðar á hagræðissjónarmiðum.

Nokkrir bæjarfulltrúar voru eðlilega harðorðir í garð stjórnenda HB-Granda vegna þessara uppsagna og voru ræður Sveins Kristinssonar, Guðmundar Páls Jónssonar og Guðrúnar Gunnarsdóttur mjög góðar.  Einnig var afar ánægjulegt að breið pólítísk samstaða var um áðurnefnda ályktun og því fagnar Verkalýðsfélag Akraness þessari ályktun innilega eins og áður sagði .

Hægt er að hlusta á upptöku frá bæjarstjórnarfundinum með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image