• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Dec

Nú er komið að íslensku verkafólki

Nú er komið að öðrum en verkafólki að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagiNú er komið að öðrum en verkafólki að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagiÍ gærkveldi var haldinn hinn árlegi jólafundur stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness.

Þau mál sem helst voru til umfjöllunar á fundinum í gær voru komandi kjarasamningar, aðkoma félagsins að málefnum starfsmanna Hótels Glyms og sú mikla fjölgun sem orðið hefur á félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness á árinu sem nú er að líða. Í dag eru um 2.800 félagsmenn og hefur þeim fjölgað um rúma 600 á árinu. Þar af eru 473 félagsmenn með erlent ríkisfang.

Formaður fór ítarlega yfir viðræðurnar við Samtök atvinnulífsins vegna komandi kjarasamninga.  Á fundinum skoraði trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness  á viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands að standa grjótfast á þeirri kröfu sem sambandið hefur lagt fram og var formanni falið að koma þeirri áskorun á framfæri við viðræðunefnd SGS.

Trúnaðarráðið telur jafnframt að sú kröfugerð sem lögð hefur verið fram sé einfaldlega með þeim hætti að ekki sé grundvöllur til að gefa neinn afslátt af henni.  Fram kom á fundinum að það hljóti að vera komið að fleirum en íslensku verkafólki að tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi.

Nýjustu fréttir herma að æðstu stjórnendur ríkisins hafi hækkað um 18% á síðustu tveimur árum á meðan almennir starfsmenn hjá hinu opinbera hafa einungis hækkað frá 7% og uppí 9%.  Ekki má heldur gleyma því að laun seðlabankastjóra hafa hækkað um 200 þúsund á mánuði og almennt verkafólk er agndofa vegna slíkra launahækkana, sérstaklega í ljósi þess að þessir sömu aðilar tala um að sýna þurfi sérstaka aðgæslu vegna komandi kjarasamninga verkafólks.

Trúnaðarráð félagsins stendur fast á því að nú sé tími verkafólks runninn upp hvað varðar lagfæringar á launakjörum íslensks verkafólks og hvetur allt verkafólk vítt og breitt um landið til þess að hvika hvergi frá þeirri kröfu um að lágmarkslaun verði orðin 165.000 kr. 1. janúar 2009.

Lágmarkslaun upp á 125.000 kr. eru íslensku samfélagi til skammar og við í Starfsgreinasambandi Íslands getum á engan hátt skotið okkur undan ábyrgð okkar á því hversu skammarlega lág lágmarkslaunin eru.  Á þeirri forsendu verður Starfsgreinasambandið að standa þétt saman í komandi kjarasamningum þannig að lágmarkslaunin verði okkur ekki til skammar sem og íslensku samfélagi. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image