• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Ótrúlegt viðhorf fjármálaráðherra til hækkunar lægstu launa Árni Mathiesen fjármálaráðherra
01
Nov

Ótrúlegt viðhorf fjármálaráðherra til hækkunar lægstu launa

Í blaðinu 24 stundir í dag er viðtal við Árna Mathiesen fjármálaráherra þar sem fjallað er um komandi kjarasamninga.  Fjármálaráðherra segir m.a. í viðtalinu orðrétt,  "Kröfur um þrjátíu prósenta hækkun lægstu launa hafa oft heyrst í aðdraganda kjarasamninga, en svo róast hlutirnir og færast nær raunveruleikanum".  Einnig sagði fjármálaráðherra að ríkið hefði ekki svigrúm til 30% launahækkunar.

Það er afar athyglisvert að fjármálaráðherra geri lítið úr þeim kröfum sem aðildarfélög Starfsgreinasambandsins hafa verið að móta að undanförnu og nánast hlær að þeirri kröfu stéttarfélaga að lágmarkslaun hækki úr 125 þúsundum í 170 þúsund.  Fjármálaráðherra talar um að algengt sé að háar kröfur heyrist í upphafi kjarasamninga en róist síðan og færist nær raunveruleikanum.

Verkalýðsfélag Akraness mun standa fast á þeirri kröfu að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 170.000 kr. á tveggja ára samningstímabili og telur formaður að víðtæk samstaða sé innan Starfsgreinasambands Íslands um slíka hækkun. Nú þarf SGS að sýna fulla samstöðu til að slík hækkun verði að veruleika fyrir íslenskt verkafólk og sýna fjármálaráðherra um leið að krafa um 40% hækkun í upphafi kjarasamningaviðræðna haldi alla leið.

Fjármálaráðherra telur að kröfur stéttarfélaganna séu óraunhæfar ef marka má viðtalið við hann í 24 stundum í dag. Í því sambandi er rétt að minna ráðherra á að lágmarkslaun verkafólks hafa hækkað úr 63.000 kr í 125.000 kr. frá árinu 1997, eða sem nemur 105%. Á sama tíma hefur þingfararkaup ráðherrans hækkað um 145% eða 40% meira en lágmarkslaunin. Ef lágmarkslaun hefðu hækkað með sambærilegum hætti og þingfararkaupið þá væru lágmarkslaunin í dag 160.000 kr. Svo talar ráðherrann um að menn eigi að færast nær raunveruleikanum? Hvað skyldi ráðherranum finnast um þær greiðslur sem handhafar forsetavaldsins fá þegar forseti Íslands er erlendis, en samkvæmt fréttum þá voru handhöfum forsetavalds greiddar 8 milljónir vegna utanferða forseta.  Það væri nær að fjármálaráðherra liti í eigin barm hvað varðar launahækkanir og nægir að nefna lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra í því samhengi, þau eru ekki í neinu samræmi við það sem almennt launafólk hefur.

Það er eins og áður sagði með ólíkindum að í hvert sinn sem talað er um hækkun lægstu launa þá skuli heyrast harmakvein frá hinum ýmsu ráðamönnum þessarar Þjóðar. Það er gríðarlega mikilvægt að aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands standi þétt saman í komandi samningum og standi fast á kröfunni um að lágmarkslaunin hækki úr  125.000 kr í 170.000 kr á samningstímanum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image