• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Nov

Breytingar á bónuskerfi starfsmanna Íj skilar árangri

Eins og fram hefur komið hér á heimsíðunni þá hefur formaður félagsins að undanförnu verið með kynningarfundi um réttindi og skyldur fyrir starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins .  Á þessum kynningarfundum hefur formaður farið nokkuð ítarlega yfir nýja bónuskerfið sem tók gildi samhliða nýjum kjarasamningi árið 2005.

Samningsaðilar bundu nokkuð miklar vonir við að nýja bónuskerfið myndi skila báðum samningsaðilum töluverðum ávinningi þegar gengið var frá nýjum samningi árið 2005.  Reiknuðu samningsaðilar með að bónusinn gæti gefið starfsmönnum að meðaltali 5,2% þegar starfsmenn væru búnir að læra á þá þætti sem bónusinn byggist á, en hæst getur bónusinn gefið 7%.

Árið 2006 gaf bónusinn einungis 3,28% að meðaltali eða tæpum 2% minna heldur en samningsaðilar höfðu vonast til að hann gæfi.  Formaður hefur í samráði við trúnaðarmenn unnið lengi að því að fá breytingu á nokkrum þáttum sem bónusinn byggist á og var t.d. gengið frá breytingu á D liðnum í nýtingarbónusnum en sá liður hafði lítið sem ekkert gefið frá upphafi.  Samkomulag var um að fella D liðinn út og taka inn nýjan lið sem byggðist á fjarveru vegna slysa á vinnustað.  Þessi þáttur virkar þannig að ef ekkert fjarveruslys verður í heilan mánuð þá gefur það starfsmönnum 1,5% í bónus. 

Síðan voru nokkrir þættir í bónusnum sem starfsmenn sjálfir gátu hæglega haft veruleg áhrif á en sá þáttur lýtur að öryggis- og umhverfisþáttum.  T.d. skráningum á hættulegum aðstæðum, notkun á öryggisbúnaði og snyrtimennsku á vinnustað.  Það verður að segjast eins og er að þarna gátu starfsmenn staðið sig betur.  Formaður fór yfir þessa þætti með starfsmönnum á kynningarfundunum og hefur það svo sannarlega skilað árangri því bónusinn í september var 5,72% og hefur aldrei mælst jafn hár frá upphafi.  Í október var bónusinn 5,30% sem er einnig mjög gott.  Nú er bara mikilvægt fyrir starfsmenn ÍJ að halda þessum góða árangri í bónusmálunum áfram eins og þeir hafa gert síðastliðna tvo mánuði.

Bónusinn leggst ofaná öll laun starfsmanna og því er hér um töluvert hagsmunamál að ræða fyrir starfsmenn. Það skiptir máli hvort bónusinn sé rétt rúm 3% eða tæp 6% og alveg klárt að starfsmenn finna fyrir því í launaumslaginu.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image