• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Oct

Stórhækka þarf kjör þeirra lægst launuðu í komandi kjarasamningum

Frá þingi SGS 2007Frá þingi SGS 2007Í dag lauk þingi Starfsgreinasambands Íslands og heppnaðist þingið mjög vel. Aðalmál þingsins voru að sjálfsögðu komandi kjarasamningar og sköpuðust fjölmargar umræður þeim tengdum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni um alllanga hríð að tími verkafólks sé nú runninn upp hvað lýtur að hækkun launa til handa verkafólki. Í ræðu sem formaður félagsins hélt á þinginu kom skýrt fram að stefnt skuli að því í komandi kjarasamningum að lágmarkslaun skuli ekki verða undir 170.000 krónur á mánuði í lok samningstímabilsins.

Það er íslensku samfélagi til skammar að vera með lágmarkslaun upp á 125.000 krónur sem vart duga fyrir lágmarksframfærslu og eru reyndar 5.000 krónum undir fátæktarmörkum. Við, forystumenn í Starfsgreinasambandi Íslands, getum á engan hátt skotið okkur undan þeirri ábyrgð sem við berum á þessum lágmarkslaunum.

Sú græðgisvæðing og misskipting sem nú tröllríður þessu þjóðfélagi birtist okkur í hinum ýmsu myndum. Nægir þar að nefna einkaþotuflota auðkýfinga Íslands og nú síðast eru auðkýfingar farnir að kaupa þyrlur til að geta komist á milli staða, hvort sem er til Vestmannaeyja, eða í sumarbústað sinn. Þetta sýnir okkur svo ekki verður um villst að það eru nægir peningar til í þessu þjóðfélagi til að lagfæra þau skammarlegu lágmarkslaun sem íslensku verkafólki er nú boðið upp á.

Á þinginu var samþykkt ályktun um kjaramál þar sem samþykkt var að stórbæta kjör þeirra sem lægstu hafa launin. Í ályktuninni kom einnig fram að lækka þurfi skattbyrði lágtekjufólks og stórefla velferðarkerfið m.a. með því að hækka barnabætur, vaxtabætur og húsnæðisbætur sem klárlega mun koma okkar fólki til góða.

Það er alls ekki hægt að ætlast til þess að íslenskt verkafólk þurfi eitt og sér að viðhalda stöðugleikanum í þessu landi og nú er komið að fleirum að axla þá ábyrgð. Formaður sagði á þinginu að til að árangur náist um stórkostlega hækkun lágmarkslauna þurfi að ríkja þjóðarsátt um að slíkt verði gert og einnig að alger samstaða ríki á meðal aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands í komandi kjarasamningum.

Þess má að lokum geta að formaður félagsins var kjörinn í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands og er formaður tilbúinn að taka þátt í stefnumörkun sambandsins enda eru ærin verkefni framundan hvað það varðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image